09.12.1935
Neðri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (2237)

167. mál, Kreppulánasjóður

Frsm. (Jón Pálmason):

Eins og hv. þdm. sennilega muna, þá gat ég um það við 2. umr., að hv. þm. Hafnf. hefði verið mótfallinn þessu frv. í landbn., en þá var hann ekki hér staddur, mönnum hefir nú gefizt kostur á að heyra hans rök. Skal ég með fáum orðum minnast á þau atriði, sem hann vék að. Það er út af fyrir sig rétt, að það mun hafa verið höfuðtilgangur kreppulánasjóðslaganna að lækka vexti og hinsvegar að strika út þann hluta af skuldum bænda, sem talið var, að þeir réðu ekki við. Þetta á að hafa verið gert að því er þá snertir, sem lán hafa fengið og gerðir hafa verið upp, en það mun mörgum hafa farið eins og mér, þegar þeir athuguðu þessa löggjöf, að þeim hefir sýnzt á henni margir annmarkar, og ekki sízt mundi sá annmarki koma í ljós, að ýmsum mönnum og fyrirtækjum yrði með l. gert allmikið rangt til, og mér er það ljóst, að lögin hafa komið langsamlega harðast niður á þeim, sem ábyrgðirnar fellu á vegna kreppulána, því það er öldungis víst, að fjöldi ábyrgðarmanna hefir ekki haft neitt vald yfir því, hvað skorið var niður af þeim lánum, sem þeir voru í ábyrgð fyrir og alls ekki var víst, að hefði þurft að skera svo niður, ef skuldunautar hefðu verið gerðir upp á annan hátt, eins og lög mæla fyrir. Hluturinn er því sá, að kreppulánasjóðslögin hafa komið langsamlega harðast niður á þeim, sem í ábyrgðunum voru, og er það í raun og veru óeðlilegt, að löggjöf grípi þannig inn í viðskiptalífið, að hún geri þeim erfiðast fyrir fæti, sem í góðri trú hafa gengið í ábyrgð fyrir aðra, hvort heldur það voru kunningjar þeirra, frændur eða aðrir, sem þeir gengu í ábyrgð fyrir. Það ætti að vera hverjum manni ljóst, sem fylgist með, að þetta getur orsakað það, að margir menn, sem komizt hafa hjá því að fara í kreppulánasjóð, eða ekki hafa haft skap til þess, geta komizt í fjárhagslegt strand vegna ábyrgða, sem á þá falla.

Hv. þm. Hafnf. hélt því fram, að hér væri verið að gera upp á milli manna, þar sem sumum væru gefin eftir töp, en öðrum ekki. Þetta er að nokkru leyti rétt. Það er vitað, að bæði kaupfélög og kaupmenn hafa orðið að gefa mikið eftir án þess að fá hjálp, því þessu er aðeins ætlað að ná til einstaklinga, og þá fyrst og fremst til bænda. Að hér sé farið inn á nýja leið, er satt, en mér finnst hv. þm. ekki hafa athugað það nógu vel, að þetta er bein afleiðing af l., sem Alþingi hefir áður samþ. Svo er annað, sem má víkja að, að vel má svo fara, að sumt af þessum upphæðum komi á ríkissjóðinn hvort sem er, því við því má búast, að margir lántakendur kreppulánasjóðs láti sitja fyrir greiðslum þangað að borga til ábyrgðarmanna sinna það, sem á þá hefir fallið, og af því getur svo leitt, að þeir standi ekki í skilum við kreppulánasjóð, svo að skuldir falli þar fremur en ella. Þess vegna held ég, að það geti verið hæpinn ávinningur að knýja menn til þess á þennan hátt að standa ekki í skilum við kreppulánasjóð. Ég benti á það við 2. umr., að áhyrgðarkröfur þær, sem hér er um að ræða, væru 2—21/2 millj. kr., eftir því sem stjórn kreppulánasjóðs hefir komizt næst. Hjálp sú, sem frv. gerir ráð fyrir, er hugsuð á þá leið, að tillag ríkissjóðs fari til að borga 1/3 ábyrgðarkrafanna, 1/3 verði greiddur af ábyrgðarmönnum, en 1/3 gefi lánsstofnanirnar eftir, en þær munu aðallega vera bankar og sparisjóðir. Vera kann þó, að þessum hlutföllum verði ekki alstaðar nákvæmlega fylgt. Ef ekkert verður gert í þessu efni, verður það áreiðanlega til þess að gera marga gjaldþrota, sem annars hafa ekki gefizt upp, og niðurstaðan yrði sú, að þeir væru látnir velta, sem gætilega hafa farið með sín fjármál, en hinum bjargað, sem ógætilega fóru að og fengu lán úr kreppulánasjóði. Hér er um það að ræða, hvort þingið eigi að taka afleiðingum af sínum fyrri ráðstöfunum eða ekki, en ég tel, að verði það gert, þá sé einn versti galli kreppulánasjóðslaganna að nokkru af skorinn. Eru vissulega nógu margir eftir samt.