04.12.1935
Sameinað þing: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

1. mál, fjárlög 1936

Jakob Möller:

Formaður Alþfl. hefir í þingræðu látið svo um mælt, að segja mætti, að íslenzka þjóðin væri nú í hernaðar- eða umsátursástandi. Þetta ástand kenndi hann utanaðkomandi orsökum. En þó er ekki nema hálfsögð sagan. Í sannleika sagt má telja, að þjóðin ekki aðeins sé í einskonar umsátursástandi, vegna utanaðkomandi örðugleika, heldur sé og hafi hún verið það nú um 8 ára skeið af innanaðkomandi orsökum. Því að allt þetta tímabil hefir þjóðin, allur atvinnurekstur hennar og framleiðsla verið umsetin af gráðugum vargakjöftum síhækkandi tolla og skatta.

Í sambandi við ummæli hæstv. atvmrh. í gær um það, hvað gert mundi hafa verið nú til að létta örðugleika, sem að steðja vegna ástandsins í heiminum, verður að rifja upp og bera saman fjármálastjórn sjálfstæðismanna meðan þeir fóru með völd, og svo það, sem við tók undir sameiginlegri stjórn framsóknar og Alþfl.

Andstæðingar sjálfstæðismanna bera þeim jafnan á brýn, að þeir vilji eingöngu beita tollum til að afla tekna í ríkissjóð.

Á árinu 1921 var sett ný skattalöggjöf, þá fyrst var í rauninni tekinn upp tekju- og eignarskatturinn. með atfylgi þáv. fjmrh., Magnúsar Guðmundssonar. Þessum skatti var síðan breytt á þinginu 1923, tekjuskattur af lágtekjum lækkaður, en hækkaður á hærri tekjum. En nú kom einnig í ljós, að með skattalöggjöfinni frá 1921 mundi ekki takast að afla ríkissjóði nægilegra tekna, og var þá gripið til þess að innheimta 25% gengisviðauka af ýmsum tollum og gjöldum til ríkissjóðs, og mun það hafa verið fyrir frumkvæði ráðh. Framsfl. En til viðbótar var svo að ráði sjálfstæðismanna verðtollur lagður á ýmsar vörur, með fyrirheiti um, að sá tollur skyldi verða lækkaður smátt og smátt og felldur niður að fullu svo fljótt sem kleift væri. Þá fóru sjálfstæðismenn með stjórn, og það voru sjálfstæðismenn, sem gáfu fyrirheitið um að létta af þessum tolli. Og á næstu árum byrjuðu þeir á efndunum. Verðtollurinn var lækkaður og einnig vörutollurinn af ýmsum framleiðsluvörum. Samtímis voru verklegar framkvæmdir í landinu auknar og skuldir ríkissjóðs lækkaðar. — En svo komu stjórnarskiptin 1927. Þá tók Framsfl. við völdum með stuðningi Alþfl. Og þessir flokkar, sem áður höfðu barizt á móti verðtollinum, og yfirleitt láta í veðri vaka, að þeir vilji afla tekna handa ríkissjóði að mestu og helzt öllu leyti með beinum sköttum, og fella niður alla tolla á nauðsynjavörum, þeir létu það nú verða sitt fyrsta verk, þegar á fyrsta stjórnarári sínu, að hækka aftur þessa tolla, bæði á framleiðsluvörum og öðrum vörum, nauðsynlegum ekki síður en ónauðsynlegum, bæði vörutolla og verðtolla, sem sjálfstæðismenn höfðu lækkað. Og þetta var ekki gert sökum þess, að brýn þörf krefði. Þessi ár voru einhver mestu veltiár, sem sögur fara af. Tekjur ríkissjóðs fóru langt fram úr áætlun, en öllu var eytt og hrökk ekki til. Og eftir almesta veltiárið, árið 1929, varð ríkisstj. að grípa til þess að taka 10 millj. króna lán erlendis, til viðbótar öllum umframtekjunum, sem ríkissjóði höfðu áskotnazt, um 5 millj. á ári til jafnaðar. Í stað þess að sjálfstæðismenn höfðu lækkað skuldir ríkissjóðs um 8 millj. króna á þrem árum, þá hækkuðu nú skuldirnar aftur um 10 millj. kr. á fyrstu þremur valdaárum Framsfl. og Alþfl.

Þetta var undirbúningurinn undir kreppuna, sem við tók á næstu árum og ekkert lát er á enn. — Tugir millj. kr. voru reyttir af atvinnurekstri landsmanna, svo að þrátt fyrir öll góðærin gátu þeir ekkert lagt fyrir til þess að standast komandi örðugleika. Rúnir inn að skyrtunni voru þeir, þegar kreppan skall á þeim.

Á fjórum fyrstu valdaárum Framsóknar og Alþfl. hækkuðu rekstrarútgjöld ríkissjóðs um 4 millj. króna. Þetta var ekki svo tilfinnanlegt eða áberandi, meðan féð streymdi í ríkissjóðinn frá landsmönnum og atvinnuvegum þeirra. En með lántökunum miklu 1930 var eins og algerð straumhvörf yrðu í þessum efnum. Nú hættu tekjurnar að streyma fyrirhafnarlaust í ríkissjóð, en það reyndist ekki auðvelt að stöðva strauminn út úr honum. Tekjur ríkissjóðs á erfiðu árunum hrukku hvergi nærri til, til þess að standa straum af þeirri útgjaldabyrði, sem á hann var búið að hrúga. Og nú kom hvert tekjuhallaárið af öðru. Nýjar herferðir voru farnar á hendur borgurunum. Tekjuskatturinn var hækkaður, fyrst um 25%, svo um 40%. Nýr viðbótarverðtollur var lögtekinn. En þrátt fyrir allt þetta hrúguðust upp „lausar“ skuldir ríkissjóðs svo millj. kr. skipti. Og þeim skuldum varð loks að koma fyrir í nýju 11 millj. króna ensku láni, sem tekið var á síðasta ári, og þar með uppurið lánstraust landsins erlendis og skuldbinding gefin um að taka ekki frekari lán.

Hin gálausa fjármálastjórn á veltiárunum var að hefna sín. Með 4 millj. króna aukningu á ársútgjöldunum var búið að binda ríkissjóði þann bagga, sem hann reis ekki undir. Og samtímis skall kreppan yfir, afurðirnar fellu í verði og atvinnuvegirnir komust á heljarþröm. varasjóði áttu þeir enga, því að ríkissjóður og bæjar- og sveitarsjóðir höfðu hirt jafnharðan allt, sem afgangs varð hjá þeim, og meira. Því að skattránsherferð hinna ráðandi flokka var ekki beint eingöngu gegn atvinnuvegunum og öllum almenningi í landinu. Hún beindist einnig gegn bæjar- og sveitarfélögunum, á þann hátt, að meira og meira var gengið á þá tekjustofna, sem þau áttu að fá sínar tekjur af. Auk þess sem tekju- og eignarskatturinn var hækkaður, var ráðizt á atvinnurekstur einstaklinganna með ríkiseinokunum, gjaldþol þeirra þannig rýrt, og bæjar- og sveitarfélög svipt tekjum, sem þau svo urðu að leggja á gjaldþegnana í annari mynd. M. a. á sliguð atvinnufyrirtæki, sem ekkert höfðu afgangs og ríkissjóður náði því ekki til. Og var þetta gert alveg eins og til þess væri ætlazt af stjórnarvöldunum, enda framkvæmdin í þeim efnum t. d. hér í Reykjavík í höndum framsóknarmanna og sósíalista.

Slíkri skattaherferð á hendur almenningi verður ekki líkt við neitt annað en það, að óvinaher ræðst inn í varnarlaust land og rænir og ruplar öllu, sem hönd á festir.

Og svo kemur að síðustu kosningunum. Núv. stjórnarflokkar hétu því fyrir kosningarnar að létta a. m. k. nauðsynjavörutollunum af þjóðinni og breyta þeim í beina skatta. Og þegar á fyrsta þinginu, sem háð var eftir kosningarnar, efndu þeir að vísu þessi loforð sín að því leyti, að þeir hækkuðu tekju- og eignarskattinn stórkostlega. En það varð minna úr því að tollarnir væru lækkaðir, því að stórkostleg tollahækkun sigldi í kjölfarið. Og var ríkissjóði með þessu hvorutveggja aflað 2 millj. kr. nýrra tekna.

Á þessu sama þingi komu fram háværar raddir um það, að bæjar- og sveitarfélög væru að kikna undir útgjaldabyrðum sínum, og yrði því að hafa einhver úrræði til að ákveða þeim tekjustofna, sem þeim nægðu í stað þeirra, sem ríkið hafði sölsað undir sig. Þeim kröfum var svarað með því, auk tolla- og skattahækkunarinnar, að lögleiða nýjar einokanir og ganga með því enn meira á tekjustofna þeirra. Og ríkissjóðsúlfurinn er jafnsoltinn eftir sem áður.

Einn af þm. Alþfl. hefir skýrt frá því í þingræðu, að yfirstandandi þingi hafi borizt kröfur frá 10 bæjar- og sveitarfélögum um það, að þeim yrði séð fyrir möguleikum til tekjuöflunar. Það er viðurkennt af öllum flokkum, að til vandræða horfi, ef þetta verði ekki gert. En stj. og þingmeirihlutinn berst með oddi og egg gegn því, að nokkur úrlausn sé gerð í þessu efni að svo stöddu. Og það er af því, að enn þarf að reyta almenning í þarfir ríkissjóðs.

Tekjulindir ríkissjóðs eru að tæmast. Gjaldstofnarnir að bila. Fjvn. hefir lagt fram brtt. við fjárl., m. a. um stórkostlega lækkun á áætluninni um tekjuskatt og tóbakstoll. Auk þess sem tekjuskatturinn hlýtur að minnka jafnhliða því, að tekjur borgaranna fara þverrandi ár frá ári, vegna vaxandi örðugleika atvinnu- og viðskiptalífsins, hlýtur skatturinn einnig að minnka vegna varðandi skattafrádráttar. Það er enn talað um hátekjur og hátekjuskatt og stjórnarflokkarnir eru nú að leggja fram nýtt frumv. um stórfellda hækkun á hátekjuskattinum, til þess að vinna upp rýrnunina, en með þessari sífelldu hækkun skattsins rekur að því, að hátekjurnar breytast í lágtekjur. Og þó að einhverjir kunni að segja, að bættur sé skaðinn, þó að þannig lækki hagur hátekjumannanna, þá á ríkissjóðurinn líka eftir að súpa af því seyðið, ef hátekjurnar hverfa og ekkert er hægt að leggja á þær. Og allt atvinnulíf í landinu á líka eftir að súpa af því seyðið, ef öll fjársöfnun fellur niður. Og nú er svo komið, að jafnvel stjórnarflokkarnir verða að viðurkenna, að lengra sé ekki fært að halda á þeirri braut. Og þess vegna sjá þeir nú ekki aðra leið til fjáröflunar en að brjóta algerlega í bág við stefnu sína, eins og atvmrh. lét um mælt á dögunum, og hverfa að því ráði að lögleiða nýjan toll af nauðsynjavörum almennings. Og 730 þús. kr. á að taka af almenningi í landinu með þessum nýja tolli. Ekki af óþarfavarningi, eða „lúxusvarningi“, eins og látið er í veðri vaka. Innflutningur á slíkum varningi verður bannaður. Þessi tollur verður tekinn af kaffi og sykri, fæði almennings, klæðum og skæðum og öðrum þeim hlutum, sem menn geta ekki án verið. Það kæmi líka ríkissjóðnum að litlu gagni, ef menn gætu hætt að nota þessar vörur, ef menn t. d. hættu að drekka kaffi, og notuðu mjólk í staðinn, eins og hæstv. forseti var að ráða mönnum til á dögunum. — Nei, tekjurnar eiga að nást í ríkissjóðinn. Það rekur að vísu einnig að því, að þessir nýju tekjustofnar bila líka, eins og tekjuskatturinn og tóbakstollurinn. Því er líka yfirlýst, að þessa tekjuöflunaraðferð eigi aðeins að nota í eitt ár, meðan verið sé að leita að nýrri tekjuöflunarleið.

Í gamansögu eftir Benedikt Gröndal segir frá fjáraflamanni einum, að hann gekk upp á hátt fjall til að skyggnast eftir því, hvort engin jörð væri eftir óveðsett á landinu. Nú ætlar stjórn hinna vinnandi stétta að nota tímann milli þinga í svipað ferðalag, til að skyggnast eftir nýjum leiðum til tekjuöflunar. Og af hverjum tindi, sem hún stígur á, mun henni gefa að líta landsfólkið á hröðum flótta undan skattpíningar-úlfinum, reytandi af sér spjarirnar til að kasta í óargadýrið. En hlutverk stj. verður þá að finna leið til að reyta af því síðustu flíkurnar. Já, það er vissulega ekki að ófyrirsynju að tala um, að þjóðin sé í einskonar umsátursástandi.

Hæstv. atvmrh. sagði í gær, að vegna kreppunnar væri brýn nauðsyn á því að nota til hins ýtrasta þær leiðir, sem til væru, til að bæta úr örðugleikunum. En þegar „leiðir“ stj. eru athugaðar, þá verður sjálfsagt mörgum að spyrja, hvort þær miði ekki að því að bæta bölið með því að bíða annað verra.

Leiðirnar eru þessar:

Að hækka tekjuskattinn og þvinga með því bæjar- og sveitarfélög til að hækka rekstrarútsvör sligaðra atvinnufyrirtækja eða leggja gjöld á neyzluvörur almennings. Að leggja á nýja neyzlutolla á nauðsynjavörur almennings, sem einnig lenda að miklu leyti á framleiðslunni.

Að nota til hins ýtrasta, eins og sagt er í grg. skattpíningarfrv. nýja, álagningarmöguleika á varning, sem ríkið verzlar með, og virðist þó vart á bætandi, eins og t. d. heildsöluálagning bíla- og raftækjaverzlananna er orðin og hv. þm. V.-Sk. lýsti.

Og að síðustu, að tvöfalda benzíntollinn. Þetta ætlar ríkisstj. allt að gera, til að hjálpa framleiðslunni. Og allt lendir þetta þó á framleiðslunni. Og hvaða hjálp verður þá að því?

Hæstv. atvmrh. spurði í gær, hvort nokkrum manni dytti í hug, að meiri atvinnubótavinna væri unnin nú, ef Sjálfstfl. væri við völd. — En dettur nokkrum manni í hug, að málefnum þjóðarinnar og fjárhag ríkissjóðs væri komið í slíkt öngþveiti sem nú er, ef sjálfstæðismenn hefðu farið með völd síðustu 8 árin?

Á stjórnarárum Sjálfstfl. voru skuldir ríkissjóðs lækkaðar um nálega helming, eða um 8 millj. kr. Með því voru vaxtaútgjöld ríkissjóðs lækkuð sem því svarar. Samtímis voru tollarnir á nauðsynjavörum lækkaðir. Ef Sjálfstfl. hefði farið með völd áfram, hefðu skuldir ríkissjóðs sennilega verið greiddar að fullu á næstu árum, eða sem því svarar lagt til framkvæma, sem lán hafa verið tekin til, og nauðsynjavörutollar hefðu verið lækkaðir.

Það er a. m. k. augljóst, að viðhorfið hefði þá verið allt annað en nú, og auðveldara að afla fjár til nauðsynlegs stuðnings atvinnuvegunum og styrktar atvinnuleysingjum en nú, þegar skattaáþjánin er orðin svo mikil, að jafnvel hinir ráðandi flokkar verða að viðurkenna, að lengra verði ekki gengið í því efni, og þegar lánstraust þjóðarinnar er gersamlega þorrið.