06.12.1935
Neðri deild: 92. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (2477)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Landbn. hefir orðið sammála um að mæla með því, að þetta frv. verði samþ. N. lítur svo á, að eins og nú er komið háttum hér í atvinnumálum, þá sé það orðin brýn nauðsyn og megi ekki dragast að gera róttækar ráðstafanir til þess að hefta að einhverju leyti þá miklu þjóðflutninga, sem nú undanfarin ár hafa legið úr sveitinni að sjónum. (TT: Hv. þm. hefði átt að halda þessa ræðu í dag). Það hefir mátt heimfæra þennan fólksstraum undir máltækið: Lengi tekur sjórinn við. Það hefir verið svo nokkra tugi ára, að kaupstaðirnir hafa getað tekið á móti fólkinu opnum ormum. Þeir hafa tekið á móti ekki einungis allri fólksfjölgun í landinu, heldur meiru. Svo er nú líka komið, að í þeim kaupstoðum, sem myndazt hafa á tæpum mannsaldri, býr nú helmingur allra landsmanna. Það er hægt að gleðjast yfir því, að það skyldu vera skilyrði við sjóinn, sem sköpuðu þessu fólki afkomumöguleika. Meðan svo var háttað viðskiptum í heiminum, að hægt var að framleiða ettir vild, vegna þess að við höfðum leyfi til að selja hvar í heiminum sem var, stóðum við Íslendingar vel að vígi með framleiðslu afurða. Vegna vorra ágætu fiskimiða höfum við mjög góða aðstöðu til að keppa við aðrar þjóðir á þessu sviði. En nú er svo komið, að það er þýðingarlaust að framleiða mikið af fiski, því að markaðirnir eru lokaðir í mörgum löndum. Og þetta kemur fram í vaxandi og auknu atvinnuleysi, sem lítur út fyrir, að haldi áfram eða versni. Þessi stefna hefir komið niður á kaupstöðunum, ekki bara mönnum, sem framleiða fisk eða verka, heldur líka öðrum kaupstaðarbúum, t. d. þeim, sem lagt hafa fyrir sig verzlun. Þegar verzlunarhömlurnar aukast, þá minnka um leið atvinnumöguleikar verzlunarmanna.

Þó að á síðustu árum hafi risið upp atvinnuvegur, sem eflaust á framtíð fyrir sér, sem sé iðnaður, þá gerir hann ekki meira en taka á móti þeim úr kaupstöðunum, sem ofannefndar atvinnugreinir geta ekki lengur séð fyrir. Þetta segir sig sjálft. Verður því að sjá á annan hátt fyrir fjölgun þjóðarinnar, og liggur því opið fyrir, að eðlilegast er, að fjölgunin í sveitunum eignist framtíðarmöguleika í sveitunum sjálfum. En það er ekki hægt nema því aðeins, að býlunum sé fjölgað, er skapa fleiri mönnum skilyrði til atvinnurekstrar. Og þetta frv. er einmitt fram komið í þessum tilgangi.

Nú má segja, að sömu ástæðurnar og valda því, að sjávarútvegur og verzlun ganga saman, valdi líka því, að sveitirnar gangi saman; nú séu takmarkanir á því, hvað við getum flutt út og selt af landbúnaðarafurðum. Það er að vísu rétt, en þó eru möguleikar fyrir framleiðslu í sveitum, sem ekki byggjast á útlendum markaði svo mjög sem sjávarútvegurinn: Landbúskapurinn er ekki uppgripamikill, en hann hefir í sér fjölbreytni og seiglu, svo að unnt er að lifa af honum, þó að ekki sé mikið selt. Og á því verður fjölgunin í sveitunum að byggjast, að þeir, sem stofna nýju býlin, noti sem mest sjálfir af því, sem þeir framleiða. Það verður lífsnauðsyn að beina landbúnaðinum inn á það svið, að sveitirnar verði meira sjálfbjarga en verið hefir. Hin mikla verzlunarútþensla, sem verið hefir 3 heiminum undanfarið, hefir orsakað það, að bændur hafa selt meira en gott er úr búum sínum, og orðið að kaupa annað að. Það segir sig sjálft, að þegar þrengir að um sölu á landbúnaðarafurðum erlendis, þá verður að nota þá markaðsmöguleika fyrir framleiðsluna, sem bjóðast í landinu sjálfu. Það hefir staðið í vegi, að bændur eru skuldum hlaðnir, vegna umbóta á jörðum sínum og kostnaðar af þeim, og vegna margskonar öfugstreymis í hlutföllum milli afrakstrar eða verði framleiðsluvaranna og skuldaþungans. Því neyðast þeir til að selja meira út úr búunum en æskilegt er og kaupa meira í staðinn en hollt er. En þetta verður að breytast.

Ég ætla svo ekki að hafa lengri inngang, en snúa mér að brtt. n. Þær eru allvíðtækar, á þskj. 672. N. stendur saman að flestum brtt. (HannJ: Þessi ræða ætti ekki að flytjast nú, þegar flestir eru farnir úr d.). Ég get ekki neytt menn til að hlusta á mig, fyrst áhuginn er ekki meiri en raun ber vitni. — Eins og tekið er fram í nál., þá lágu fyrir n. 2 allmiklir lagabálkar, annar borinn fram af hv. þm. V.-Húnv. og hv. 2. landsk., en hinn af þremur þm., sem þar greinir, á þskj. 109. N. hefir lagt síðara frv. á þskj. 109 til grundvallar fyrir till. sínum, en ber hinsvegar fram margar brtt. Margar af þeim eru efnisbreyt., en sumt aðeins orðabreyt. við frv., því að það var losaralega byggt, og hefir n. reynt að færa það til betra máls. Hefir n. lagt í frv. mikla vinnu og lagað það sem tími var til. Ef til vill hefði verið þörf að liggja lengur yfir því, en n. áleit þörf að koma málinu fram. — Ég skal svo fara út í nokkrar brtt.

1. brtt. er efnisbreyt. við 1. gr. frv., þar sem tekin er fram ákveðin prósenttala af fjölgun þjóðarinnar, sem stefnt er að að skapa skilyrði fyrir í sveitunum. N. þótti óþarflega nákvæmlega til orða tekið og vill heldur, að þar standi „sem mestur“ hluti þjóðarinnar, enda segir það allt.

Við 2. gr. er brtt. um það, að ekki skuli allt af skylt að setja landamerki við ný býli, ekki nema þörf sé á því, en það er oft engin nauðsyn og ekki heppilegt, t. d. er oft gott, að beitiland sé óskipt.

Þá er brtt. við 4. gr. um það, að færa lágmark býlafjölda samvinnubyggðanna úr 10 niður í 5. N. lítur svo á, að eitt af aðalskilyrðunum sé það, að samhentir menn standi að samvinnubyggðunum og betra sé, að veljist 5 samhentir menn heldur en 10 ósamstæðir. Auk þess getur oft verið svo ástatt, að gott land sé til samvinnubyggða fyrir 5 en ekki fleiri.

Þá koma nokkrar brtt., sem ég ætla ekki að fara um mörgum orðum, því að þær eru að mestu leyti umorðun á frv., en ekki efnisbreyt. Brtt. við 11. og 12. gr. frv. eru orðabreyt. um það, hvernig stjórn byggðanna skuli fyrir komið. Haldið er aðalhugmyndinni, sem er í frv., en þar var ruglingslega upptalið, og orðaði n. það því upp. Stjórn nýbýlamálanna eftir till. meiri hl. n. er þannig, að landbúnaðarrh. hefir æðsta framkvæmdarvald. Undir hann er settur nýbýlastjóri, skipaður af ráðh. Þá er til aðstoðar þeim nýbýlanefnd, sem gerir till. um skipun nýbýlanna og fleira, sem ákveðið er nánar í frv.

Það var, eins og ég sagði áðan, aðalágreiningur í n. um það, hvernig stj. skyldi fyrir komið. Hv. þm. A.-Húnv. gerði ágreining og ber fram sérstaka brtt. Vildi hann, að stjórnin væri að mestu eða öllu undir Búnaðarfél. Íslands. Hinsvegar þótti öllum sjálfsagt, að náið samstarf væri milli nýbýlanefndar og Búnaðarfél., og Búnaðarfél. legði n. til alla þá reynslu, er það hefir, og samvinna yrði um allt, sem að framkvæmd l. lýtur. Jafnvel væri hugsanlegt, að skrifstofuhald yrði í félagi við Búnaðarfél. Ísl., ennfremur að búnaðarmálastjóra yrði falið af ráðh. að vera nýbýlastjóri.

14. brtt. er umorðun á því, hverjir nýbýlin reisa og hvernig hinu nýja landnámi skuli komið í framkvæmd. Það er gert ráð fyrir, að býlin séu stofnuð á þrennskonar hátt:

1. Byggð af einstaklingum, sem eiga land til umráða, þannig, að jarðir skiptast í tvennt, svo að rísi 2 býli þar, sem nú er eitt.

2. Reist eru nýbýli í landi ríkis, bæjar- eða sveitarfélaga.

3. Býli reist í samvinnuhverfum, þar sem ýmislegt við stofnunina er sameiginlegt, ræktun, byggingar, girðingar og fleiri framkvæmdir. En meginreglan er þó, að búskapurinn verði sérrekstur hvers nýbýlings. Hinsvegar er heimilað í frv., að búskapurinn sé rekinn í samvinnufélagi, í heilu lagi. En ég fyrir mitt leyti hefi minni trú á slíkum rekstri og álít affarasælla, að hver bóndi hafi búrekstur fyrir sig. En n. vill ekki taka fyrir, að sameiginlegur búskapur verði leyfður undir vissum kringumstæðum.

Þá vil ég hlaupa framhjá nokkrum brtt., sem ekki eru efnisbreyt., og sný mér að brtt. við 20.—22. gr.

18. og 20. brtt. eru um byggingarfyrirkomulag á býlum, sem eru í opinberri eign, í landi sveitar eða bæjarfélaga eða ríkisins. Það er ákveðið í gr., hvernig fyrirkomulagið skuli vera á slíkum jörðum. En þar sem nú er orðið að l. frv. um óðalsrétt og erfðafestu, teljum við sjálfsagt, að byggingar á jörðum séu í samræmi við þau lög, og er vísað til þessa í frv.

Þá kem ég að höfuðbrtt. n. Þær eru efnisbreyt. um það, hver og hve mikill styrkur skuli vera og lán til þessara nýbýla. Í frv. er þetta mismunandi eftir því, undir hvern nýbýlaflokk nýbýlin heyra. Þar er ætlazt til, að býli byggð af einstökum mönnum hafi minni styrk en önnur, eða 3000 kr. styrk og 6000 kr. lán, þ. e. 9000 kr. samtals í styrkjum og lánum. Hinn nýbýlaflokkurinn, í landi bæjar-, sveitarfélaga eða ríkisins, fái 3500 kr. styrk og 7000 kr. lán, eða 10500 kr. til samans. En 3. nýbýlaflokkur, samvinnubyggðirnar, eiga að fá 4000 kr. styrk og 8000 kr. lán, eða til samans 12000 kr.

Okkur fannst það athugavert við frv., að þar væri gert ráð fyrir of dýrum býlum til þess mögulegt væri fyrir ríkið að koma upp svo mörgum býlum, sem til þess þarf, að verulegu skriður komist á málið. Og í öðru lagi þótti okkur gert ráð fyrir þeim of dýrum til þess, að einstaklingar geti staðið straum af þeim, svo að þeir þurfi sem minnst að selja eða borga út úr heimilinu. Ef býlin eru gerð svo dýr, að mikill hluti af framleiðslunni fer til að borga vexti og afborganir af lánum, þá er komið í sömu svikamylluna og nú er, að menn verða að selja sem mest burt af heimilunum, gera búskapinn örðugri og þrengja markaðinn utanlands og innan. Meginstefnan í búskapnum verður að vera sú, að menn þurfi sem minnst að selja, að framleiðsluna megi sem mest nota á heimilunum sjálfum.

Þá þótti okkur ekki ástæða til að gera mikinn mun á styrkjum til býlanna eftir því, hvort þau verða einstaklingsrekstur eða samvinnubyggðir. Aðalkosturinn við samvinnubyggðirnar er það, að ódýrara er að koma þeim upp, ódýrari undirbúningur á öllum mannvirkjum og byggingum. En það ætti einmitt sízt að verða til þess, að meira fé yrði veitt til þeirra, því að þau komast af með lægri kostnað, og ætti því framlagið að vera lægra en til einstaklingsbýlanna. En við vildum nú samt gera öllum flokkunum jafnhátt undir höfði og láta hámarksstyrk til þeirra allra vera 3500 kr. og hámarkslánið einnig 3500 kr. Móti þessu gerum við þeim manni, sem býlið stofnar, þá kvöð, að hann leggi móti nokkurn hluta og hlutfallslega við styrkinn og lánið, en hámarkið er þar 7000 kr., og á þá nýbýlismaðurinn að leggja fram 1500 kr. í peningum eða vinnu eða landi, eftir því hvað hann sjálfur velur. Auk þess mega fara þrjú ár til að koma býli upp, og þó nýbýlingurinn hafi ekki allt á reiðum höndum, þá má hann verja fleiri árum til að innvinna sér þann hluta, sem hann á að leggja í býlið, en hann getur fengið framlag hlutfallslega á móti því, sem hann leggur fram, þegar byrjað er á byggingunum, því að við þær verður að miðast; undir byggingunum er það komið, hvort býlin eru hæf eða myndun þeirra getur talizt hafin. Sömuleiðis miðum við styrkinn aðallega við byggingarnar, þannig að mestur hlutinn fari til þeirra, en 2/7 styrksins til ræktunar, eða 1000 kr. Þennan styrk hugsum við okkur sem beinan fjárstyrk úr ríkissjóði, en hinn hlutann til að koma býlunum upp, af atvinnubótafé, sem varið er í hvert sinn. Hentar vel að nota þá vinnu í samvinnubýlin, og í Árnessýslu hefir það þegar verið gert. Er vel fallið að láta stóra flokka vinna að þessu. Aftur er erfiðara að koma þessu fyrir við einstök býli víðsvegar á landinu. Gæti þó hugsazt, að flokkar manna hjálpuðu til við að koma þeim upp, við byggingu og framræslu að einhverju leyti.

Við höfum hugsað okkur, að unnt væri að koma upp a. m. k. 60 býlum á ári, og yrði þá styrkur veittur úr ríkissjóði, að upphæð 200 þús. kr. Lánunum verður svo fyrir komið, að byggingar- og landnámssjóður skiptist í 2 deildir, og gangi annar hluti sjóðsins til býla eldri jörðum, en hinn hlutinn til að koma upp nýbýlum. Fjárins verður aflað þannig, að gefin verða út verðbréf, sem ríkið verður að sjá um kaup á, og verður að greiða af þeim sömu vexti og verðbréfunum. Lánin verða veitt til 20—40 ára, eftir því, hvernig byggingarnar verða. Við gerum ekki að skilyrði, að reistar verði steinbyggingar, því að þær eru sumstaðar of dýrar, og vildum við, að heimild sé fyrir, að byggja megi timburhús eða torfbæi. Af þessu miðuðum við lánatímann við 20—40 ár, eftir varanleik bygginganna.

Þá eru nokkrar greinar, sem við höfum fellt niður. Þær stafa af þeim breyt., sem ég hefi nefnt á 28. gr., í samræmi við styrkinn og lánin.

Þá er 31. gr. um það, að heimilt sé að veita mönnum, sérstaklega í samvinnubyggðum, lán til að kaupa bústofn og húsmuni. Við viljum fella þetta niður. Við álítum, að það sé sjálfsögð krafa, að þeir, sem nýbýli stofna, eigi nauðsynlegustu húsgögn og áhöld, er þarf til búnaðar. Við álítum það ekki velgerninga að leggja þeim allt upp í hendurnar, jörð, bústofn, byggingar og húsmuni, svo að þeir gangi hér eins og upp í uppbúið rúm, skuldi allt og verði svo aldrei frjálsir menn, sem verður þó að krefjast, ef þetta fyrirkomulag á að koma að tilætluðum notum.

Ég man ekki eftir, að það sé neitt sérstakt í brtt., sem ég þarf að skýra frekar. Það eru engar verulegar efnisbreyt. í þeim, sem ég hefi ekki lýst. Mun ég svo láta máli mínu lokið að sinni, og vænti ég þess, að hv. d. taki þessu máli vel og flýti fyrir frv., svo að það geti orðið að l. á þessu þingi.