05.12.1935
Neðri deild: 91. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1556 í B-deild Alþingistíðinda. (2551)

131. mál, alþýðutryggingar

Frsm. minni hl. (Thor Thors):

Það leit út fyrir, að frsm. meiri hl. hafi orðið allreiður við mína ræðu, eða svo var að heyra af fyrstu orðum hans. Ég vil segja hv. þm., að óþarfi er fyrir hann að vera að auglýsa í deildinni, að gáfur fylgi ekki auðæfum, til þess eru hans auðæfi og hans skapheimska of kunn.

Hv. þm. sagði, að ég víti, að ráðherrar skipi flokksmenn sína í launaðar nefndir. Ég viti ekki það. En ég sagði, að það hafi verið óeðlilegt, að stjórnarflokkarnir vildu ekki þiggja aðstoð Sjálfstfl. 1934. Ef hefði verið samvinna um málið, þegar það var lagt fyrir þingið, þá hefði því orðið fyrr lokið.

Hv. þm. talaði um, að það hefði verið þungur kross fyrir fátæka menn að starfa að þessu kauplaust marga mánuði. Ég hélt nú, að þessir menn væru það kunnugir málunum, að þeir þyrftu ekki marga mánuði til að koma saman frv. En annað mál er það, að ef til vill var þægilegt að fá þarna bitling nokkra mánuði.

Hv. þm. hélt því fram í sambandi við sjúkratryggingarnar, að við í minni hl. n. hefðum verið á móti brtt. um slysabætur. Ég hefi tekið það fram, að við samþykktum nærri allar brtt. meiri hl., og er því óþarfi fyrir hv. þm. að vera að koma með þetta, sem við vitum, að er leiðrétting á frv.

Hv. þm. sagði, að við kæmum í líki hræsnarans, með falleg slagorð um að hjálpa sjúkum, en legðum ekki nein ráð á. Ég held hv. þm. hafi ekki skilið frv., því miður, því að samkv. því eru það fyrst og fremst þeir sjúku, sem eiga að hjálpa sér sjálfir, þar sem hver maður á að borga í tryggingarsjóðina 36 kr., en það opinbera leggur aðeins fram 18 kr. á móti.

Það er út af fyrir sig virðingarvert, að sósíalistar skuli vera horfnir inn á þann grundvöll, að einstaklingurinn standi mest undir tryggingunum. En þetta var ekki svo í frv., sem þeir báru fram, meðan þeir voru í minni hl. og ábyrgðarlausir orða sinna og um afkomu ríkissjóðs. Atvmrh. bar þá fram, meðan hann var í minni hl. á þingi, tryggingafrv., sem var allt annars efnis en það, sem nú er flutt hér. Þar var það ekki einstaklingurinn, sem átti að standa straum af tryggingunum. Þá var glamrað um, að það opinbera ætti að leggja mest af mörkum. En nú hefir ábyrgðin leitt sósíalista að þeim skilningi, að það er ekki nóg að glamra um, að það sé fallegt að hjálpa sjúkum, heldur verði líka að vera geta til þess. Þetta frv., sem þeir tefldu fram af tómu lýðskrumi, meðan þeir voru í minni hl., hefir nú fengið dauðadóminn, er þeir fengu völdin í hendur. Þetta frv., sem þeir veifuðu þá framan í kjósendur, hefir að sögn verið sent til sérfróðra manna í Genf og fengið þar herfilegan vitnisburð, og hafa þeir ekki treystst til að bera það fram aftur.

Hv. þm. sagði, að ef ekki ætti að tryggingarskylda þá, sem hefðu hærri tekjur en 4500 kr. skattskyldar, væri verið að hlífa þeim efnameiri í þjóðfélaginu. En þeir efnameiri leggja líka til, þó að þeir njóti ekki trygginganna, því að þeir bera mest að útgjöldum til bæjar- og sveitarfélaga. Svo að þetta er ekki rétt.

Hv. þm. sagðist vera á móti því, að ríkið greiddi ekki líka hluta af iðgjöldum þeirra manna, sem hafa milli 3000 og 4000 kr. árstekjur, því að þetta væri til að rýra tekjur sjúkrasamlaganna. En hér fer hann villur vegar, því að ríkið leggur ekki fram þennan hluta, sem þeir borga sjálfir. Þeir einir rísa undir þessu, en ekki ríkið eða bæjarfélagið.

Hv. þm. vildi snúa út úr ummælum mínum um ellitryggingarnar og hélt því fram, að ég sæi það eitt við ellitryggingarnar, að komið væri upp banka með lífeyrissjóði. En við erum auðvitað fúsir að létta undir með gamalmennum og skapa þeim góð kjör í ellinni, og ef við værum á móti tilgangi sjóðsins, þá hefðum við vitanlega verið á móti stofnun hans.

En það má benda á, hvað þýðingarmikið er, að til sé stofnun í landinu, sem m. a. hefir það hlutverk að styrkja bæjar- og sveitarfélögin og koma upp nauðsynlegum fyrirtækjum, sem þau geta ekki risið undir. Þegar þessir sjóðir eflast, vona ég, að reglugerð verði sett um það, hvernig sjóðnum verður varið, og áherzla verði á það lögð, að honum verði fyrst og fremst varið í þjóðþrifatilgangi.

Það kemur ekki til mála að hugsa sér, að hér eigi að vera banki, sem leggur í áhættusöm fyrirtæki. hér á að vera grunnmúruð stofnun, sem lánar ekki nema gegn fullum tryggingum. En það verður hv. þm. að vera ljóst, að það, sem fyrst og fremst vakir fyrir okkur með því að styðja að stofnun þessa sjóðs, er sú hugsjón að bæta fyrir aldraða fólkinu lífskjör þess og aðbúnað í ellinni.

Þá talaði hv. 2. þm. Reykv. um það í sambandi við atvinnuleysistryggingarnar, hvað mikil víðsýni ríkti í félögum verkalýðsins og hversu fráleitt það væri, að nokkuð væri þar spurt um stjórnmálaskoðanir. Ég veit, að það er frjáls inngangur í félögin, ef menn inna af hendi hin háu gjöld, sem menn verða að greiða nauðugir viljugir til þess að mega taka þátt í atkvgr. eða öðrum störfum félaganna. En hitt fullyrði ég, að þar eru að dómi foringjanna bæði réttlátir og ranglátir, og meðferðin á mönnum mun fara allmikið eftir því.

Hv. þm. vildi annars telja það til höfuðkosta atvinnuleysistrygginganna, að með þeim væri verkalýðurinn hvattur til sparnaðar með því að leggja dálítið fé til hliðar. Það er að vísu gott að koma með slíka hvatningu, en hv. þm. hlýtur að vera það ljóst, að það kemur verkalýðnum ekki að notum, vegna þess að hann hefir ekkert fé til þess að leggja til hliðar. Meiri hl. hefir einnig lagt til, að þessar tryggingar næðu einnig til kauptúnanna, en þeir áttu að gera sér ljóst, að það er býsna þýðingarlaust, vegna þess að því síður hefir verkafólkið þar fé til þess að leggja til hliðar. Þó það heiti svo á pappírnum, að atvinnuleysistryggingarnar nái til kauptúnanna út um land, er ég hræddur um, að svo fari, að fæstir njóti þeirra þar. Hitt er vitanlegt, að þau félög, sem fyrst njóta góðs af frv., eru þau félög, sem standa næst hv. 2. þm. Reykv., „Dagsbrún“ og „Sjómannafélag Reykjavíkur“.

Þá talaði hv. þm. um, að ekki væri óeðlilegt, þó sósíalistarnir fengju eitthvað til sinnar starfsemi, svo mikið sem þeir væru búnir að gera fyrir bændurna í mjólkur- og kjötmálunum. Ég skal ekki fara að taka hér upp umr. um þau mál, því hv. þm. eru búnir að hlusta á umr. um þau fram og aftur í tveimur d. að undanförnu, en ég býst við, að fæstum bændum finnist þau l., a. m. k. mjólkurlögin, vera til jafnmikilla hagsbóta og hv. þm. vildi láta í veðri vaka.

Þá kom hv. þm. fram með þá frumlegu staðhæfingu, að atvinnuleysið væri hið mesta böl. Hvílík speki! Eins og það sé ekki öllum ljóst. En það, sem okkur greinir á um, er hvor leiðin skuli farin, að styrkja með atvinnuleysistryggingum, eða taka fyrir rætur atvinnuleysisins, með því að auka framleiðsluna og þá um leið atvinnuna. M. ö. o., hvort stuðla eigi að atvinnuleysinu eða koma í veg fyrir það. En sósíalistarnir hafa gleymt verkafólkinu, því þeim er meir í mun að koma atvinnuveitendunum á kné. Sá er meginmunur á stefnu sósíalista og okkar sjálfstæðismanna, að við viljum fjölga atvinnufyrirtækjunum og útrýma atvinnuleysinu með því að taka fyrir rætur þess, en sósíalistar vilja viðhalda atvinnuleysinu, en veita svo styrki og ætla þannig flokksstarfsemina til þess að tryggja sér pólitísk yfirráð í landinu. Við sjálfstæðismenn munum halda áfram að vinna að eflingu atvinnulífsins í landinu, og ef bæir eða ríki hafa fé afgangs, stuðla að því, að því verði varið til þess að auka atvinnu, en ekki til þess að tryggja atvinnuleysi.