06.12.1935
Neðri deild: 92. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (2573)

131. mál, alþýðutryggingar

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki tefja þessa umr. mikið. Það voru aðeins tvö atriði í ræðu hv. þm. N.-Þ. í gær, sem ég vildi víkja að. Hann sagði um afstöðu Sjálfstfl., að hún væri einkennileg í þessu máli, og gerði enga frekari grein fyrir þessu. Ég sé því fulla ástæðu til að taka það fram, sem ég gerði í minni fyrri ræðu, að afstaða flokksins, og þá líka minni hl. allshn., er í fullu samræmi við þá afstöðu flokksins í þessum málum, sem hann hefir látið uppi fyrr og síðar. Eins og hv. þm. veit, er það á stefnuskrá okkar sjálfstæðismanna að koma á almennum tryggingum, en þau skilyrði eru sett frá okkar hendi, að löggjöf um þau efni sé byggð í almennum tryggingagrundvelli. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. viðurkenni, eftir að honum hefir verið á þetta bent, að ummæli hans í gær hafa við ekkert að styðjast. En það má benda honum á, að afstaða Framsfl. er einkennilegri en sósíalistanna. Sósíalistarnir hafa áður borið fram frv. hér á Alþingi um almennar tryggingar. Þetta frv. er að vísu allmjög öðruvísi úr garði gert en þeir treystast ekki til að fara lengra nú, en hafa lýst því yfir, að þeir muni halda áfram og bæta við síðar.

Framsfl. hefir tjáð sig fylgjandi þessu frv. með lítilsháttar breyt., en þó hafa einstaka þm. úr þeim flokki látið í ljós utan þingsins, að þeir mundu aldrei fylgja þeim kafla, sem fjallar um atvinnuleysistryggingar, á þeim grundvelli, sem hann væri nú. Það er því vitanlega beinlínis hlægilegt, þegar hv. þm. Barð. rís hér upp úr sæti sínu og segir fylgi Framsfl. við frv. bundið vissum skilyrðum, eða því, að vissar brtt. verði samþ., sem skipta engu máli í þessu sambandi hvað snertir aðalgrundvöll trygginganna.

Ég hefi ekki tekið eftir því, að þeir þm. úr Framsfl., sem tekið hafa til máls í þessu máli, hafi hrakið neitt af rökum þeim, sem við í minni hl. allshn. komum fram með hér í gær, en það er aðallega principið um iðgjöld og hlunnindi. Við tókum þá fram, að við vildum hafa sjúkratryggingarnar reistar á þeim grundvelli, að þeir, sem greiða iðgjöld, eigi líka að njóta hlunninda. við sjálfstæðismenn teljum órétt, að menn greiði iðgjöld án þess að njóta hlunninda, en við erum ekki á móti því að hafa grundvöll tryggingarinnar sem víðtækastan, svo að iðgjöldin verði sem lægst. Okkar sjónarmið er, að húsráðandi eigi alls ekki að greiða fjölskylduiðgjöld kannske fyrir 5 manns eða fleiri, án þess svo að fjölskyldan njóti nokkurra hlunninda. við álítum ekki heldur nokkra ástæðu til þess, að ríkið greiði 45 kr. í iðgjald fyrir ríka fjölskyldu, eða þá, sem eru svo efnum búnir, að geta vel greitt sjálfir fyrir sína sjúkrahjálp. Þessi afstaða er ekki í neinu ósamræmi við útreikninga.

Í grg. fyrir frv. er gert ráð fyrir, að þurfi 5 í kr., sem talið er sjálfsagt, að einstaklingarnir standi undir, en í frv. er gert ráð fyrir 54 kr., - mismunurinn er kr. 3,00. Auk þessa felst í till. okkar minni hl., að greiðslan verði á ábyrgð sveitar- eða bæjarsjóðs, og er þá nokkurn veginn vissa fyrir, að ekkert missist af iðgjaldagreiðslum. Ef þau rök eru eðlileg og fullgild, sem og sjálfsagt er, að þeir, sem eru betur efnum búnir, taki þátt í kostnaðinum af tryggingunum, þá er í sjálfu sér sanngjarnt að hafa fleiri með í að vera aðnjótandi réttindanna en aðeins þá, sem teljast hafa miðlungstekjur. Þeir eiga að ívilna þeim meir, sem minnstar tekjur hafa, leyfa þeim, sem hafa meðaltekjur, að vera meðlimir í sjúkrasamlagi, ef þeir vilja. Í þessu tilfelli er í rauninni gert jafnhátt undir höfði vinnukonunni, sem hefir 480 kr. í kaup um árið, og einhleypingnum, sem hefir 4500 kr. í árstekjur. Bæði eiga að greiða 38 kr. iðgjald og bæði eiga að njóta þessara hlunninda. Það skiptir kannske ekki miklu máli hér, en ég veit, að hv. þm. er kunnugt um, að það er algild regla bæði hér í bæ og annarsstaðar í landinu, að húsbændur greiða læknishjálp sinna hjúa. Ég veit ekki til, að það komi fyrir, að húsbændur skirrist undan því að sjá um læknishjálp hjúa sinna. samkv. þessu frv. á þjónandi stúlka að greiða 36 kr. í læknishjálp og 7.50 kr. í ellistyrktarsjóð. Það er mikið fyrir fátæka vinnustúlku að þurfa að borga meira en mánaðarkaup sitt í læknishjálp, sem stúlkan getur fengið fría annarsstaðar. Það eru því áreiðanlega margar hliðar á þessu máli, og þegar hv. andstæðingar sjálfstæðismanna eru að bera þeim á brýn, að þeir séu á móti þessu velgerðarmáli, þá er það röng ásökun. Sjálfstfl. er ekki á móti sjúkratryggingum, en hinsvegar vill hann setja aðrar meginreglur fyrir framkvæmd þessa máls heldur en Alþfl. og Framsfl. báðir vilja. Ég hefi ekki heyrt, að þeir hv. þm., sem fylgja þessu frv., hafi hrakið það með einu orði, að samlagslæknir geti ekki sinnt nema í mesta lagi 500 samlagssjúklingum. Ef læknar eiga að hafa sömu laun fyrir hvern meðlim og nú er borgað hjá Sjúkrasamlagi Reykjavíkur, þá fá þeir 6000 kr. Af þessari upphæð eiga þeir svo að lifa, borga fyrir áhöld sín og lækningastofur, og samkv. frv. verða þeir að eiga það á hættu að fá ekki greiddan 1/4 af þessum kostnaði; og svo verða þeir að hafa bil. Ég fæ ekki séð, að meðmælendur frv. hafi komið fram með nokkur rök fyrir því, að þessi útreikningur þeirra til læknanna, sem er stærsti útgjaldaliðurinn, hljóti ekki að raska öllum útreikningi þessarar grg. Ég skal benda á það í þessu sambandi, að í Danmörku er ekki miðað við 1500 kr., heldur 2800 kr., 3600 kr. og 4200 kr., eftir því hvar sjúklingarnir eru búsettir. Hinsvegar skal ég játa, að þær tölur eru settar fram að nokkru leyti út í bláinn, sem minnzt er á í till. um breyt. á 22. og 23. gr. frv. viðvíkjandi því, hverjir séu skyldutryggðir og hverjir njóti trygginganna. Það má vitanlega færa þau takmörk upp og niður, eftir því sem mönnum finnst sanngjarnt. En það leiðir af sjálfu sér, að það ber að miða þessar tryggingar við efnahag manna og aðstæður, en hinsvegar á að gæta þess, að það „princip“, sem gildir um tryggingar, fái einnig að njóta sín hér. Sjálfstfl. hefir ekki viljað setja stein í götu slysatrygginganna og breyta þeim; og hann hefir ekki heldur viljað gera efnisbreyt. á 4. kafla, sem er um ellitryggingar og örorkutryggingar, og hann vill, að þetta nái fram að ganga, svo að ummæli hv. þm. N.-Þ. í þessu efni hafa í rauninni, ef vel er að gáð, ekki við neitt að styðjast. Það, sem sjálfstæðismenn vilja aftur á móti, er það, að fellt verði burt ákvæðið um atvinnuleysistryggingar; og það er í fullu samræmi við það, sem sumir hv. þm. Framsfl. hafa lýst yfir utan þings, að þeir vilji í sjálfu sér, þó að þeir séu, eins og hv. þm. Vestm. orðaði það við hv. þm. N.-Þ., mýldir og handjárnaðir þannig, að þeir geta ekki fremur í þessu máli en mörgum öðrum haft rúm fyrir persónulega sannfæringu, en láta í þess stað kúgast af ráðríki sósíalista. Það er búið að ræða svo mikið um þann kafla frv., að ég sé ekki ástæðu til þess að fara frekar út í einstök ákvæði hans En ég vil vænta þess, að hv. þm. vilji með sanngirni athuga þær till., sem minni hl. allshn. hefir komið fram með til breyt. á 22. og 23. gr., um sjúkratryggingar. Hitt er að mestu leyti orðabreyt. og til fyllingar á frv. Skal ég svo taka það fram, að ég er þeirri tilhögun samþykkur, að lögreglustjóri innheimti iðgjöldin. Þar með er fengin nokkur trygging fyrir því, að annazt sé um innheimtuna á viðunandi hátt, því að það er augljóst, að það nær ekki nokkurri átt, að sveitarsjóðir og kaupstaðir séu skyldaðir til þess að ábyrgjast iðgjaldagreiðsluna, ef bæjarsjóðurinn hefir ekki tök á því að sjá um, að innheimtan fari sæmilega úr hendi. Það er auðveit fyrir stj. tryggingarstofnananna að fara svo og svo slælega með þessa innheimtu, sleppa mönnum við greiðslu og koma svo til bæjargjaldkera og heimta greiðslur á afborgunum iðgjalda.