07.12.1935
Sameinað þing: 27. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

1. mál, fjárlög 1936

Jón Pálmason:

Ég á hér tvær litlar brtt., sem fara fram á breytingar á upphæð þess vegafjár, sem fjvn. leggur til, að lagt verði fram. Býst ég þó við því, að skiptar verði skoðanir um þær.

Hv. frsm. þess kafla. sem fjallar um vegamál (JG), lýsti yfir því, að tilgangur n. væri sá, að farið væri eftir tvennskonar reglum við úthlutun vegafjárins, samgönguþörf og atvinnuþörf við vegalagningarnar.

Hvað mínu kjördæmi viðvíkur, var það að þessu sinni svo skorið niður í fjárl. stj., að ekki var veittur einn einasti eyrir til vegabóta þar. Nú hefir þd. fjvn. lagt til, að veittar verði 6000 kr. til vegalagningar yfir Vatnsskarð. Ég get að vísu verið þakklátur hv. fjvn. fyrir það, að hún hefir stigið feti framar en stj. í þessum efnum. En mér er þó ljóst, að þessi upphæð er allt of lítil til þeirra umbóta, sem nauðsynlegt er að gera á þeim torfæra en fjölfarna vegi, sem hér er um að ræða. Og auk þess sem ég tel hér ekki nægilega litið á samgönguþörfina, get ég heldur ekki viðurkennt, að atvinnuþörfinni í kjördæmi mínu sé réttilega fullnægt með þessari upphæð.

Ég hefi því leyft mér að bera fram brtt. um það, að þessi upphæð verði hækkuð upp í 10000 kr. og fæ ekki annað séð en að sú brtt. sé sanngjörn, þegar þess er gætt, hve ríflega framlög til vegagerða og vegabóta eru áætluð víða úti um land. Ég geri ráð fyrir, að það sé að nokkru leyti eins hjá hv. fjvn. nú og var á síðasta þingi, að hún hugsi sér að leggja svo mikið fé til vegabóta eins og till. hennar bera með sér, m. a. til þess að fullnægja atvinnuþörf í viðkomandi héruðum, en þá virðist ekki ná neinni átt að skera einstakar sýslur alveg úr, eins og gert var á síðasta þingi og eins og enn verður að mestu leyti, ef brtt. n. verða samþ. Ég ætla þó ekki að fara að tala um þær að öðru leyti en því, sem þær snerta mitt hérað. Ég geri ráð fyrir að flytja nokkrar brtt. við 3. umr., sérstaklega við þann kafla fjárl., sem hv. fjvn. hefir enn ekki tekið ákveðna afstöðu til.

Ég ætla þá ekki að sinni að fara fleiri orðum um málið, geri ekki ráð fyrir, að það hafi næsta mikla þýðingu, bæði vegna þess, að það ætti að liggja ljóst fyrir, hvað sanngjarnt er í minni brtt., og annað hitt, að næsta fáir hv. þm. sýnast fylgjast með umr. þeim, sem hér fara fram, af mjög miklum áhuga.