26.11.1935
Neðri deild: 83. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2109 í B-deild Alþingistíðinda. (3046)

83. mál, bráðabirgðaverðtollur

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Mig langar til þess að spyrja hv. frsm. í sambandi við blakkaframleiðsluna - sem ég hefi nú ekki heyrt nefnda fyrr, enda getur það ekki talizt neinn iðnaður, þó að smíðaðar séu trollblakkir, því vitanlegt er, að það eru þúsundir af blökkum, sem brúkaðar eru í landinu aðrar en trollblakkir - hvort hér sé þegar hafin framleiðsla á málningu og þurrkefni. Í frv. er gert ráð fyrir því að verðtolla málningu, kítti, þurrkefni og fernis. Ég veit ekki til þess, að framleiðsla á þessum efnum eigi sér stað, og er það þá annað dæmi um það, að verið er að ryðja braut fyrir þá framleiðslu, sem ekki er ennþá unnið að í landinu.

Það er svo ekki ástæða til að orðlengja um þessi sjónarmið okkar hv. þm. Hann neitar því að hafa eingöngu haft sjónarmið iðnaðarins fyrir augum við samningu frv., en hann hefir áður lýst því yfir, að frv. væri ekki borið fram sem tekjuöflunarfrv. fyrir ríkissjóð, heldur til stuðnings við innlendan iðnað, og þess vegna sé ég ekki, að hvaða haldi það kemur fyrir hv. þm. að gefa yfirlýsingu í seinni ræðu sinni, sem kemur í bága við hans fyrri yfirlýsingu. - Að því er snertir viðskiptin við Þýzkaland, þá eru þau viðskipti ekki sambærileg við þetta mál. Hinsvegar get ég sagt hv. þm. það, að þó það andi ávallt kalt úr stjórnarherbúðunum á þessi Þýzkalandsviðskipti - og það svo áberandi, að ég má helzt ekki láta í ljós meiningu mína hér á þingi, án þess að fá þessi viðskipti á nefið eða vera hundeltur með skömmum í stjórnarblöðunum; mér finnst ástæðulaust fyrir mig að taka því lengur þegjandi - þó þetta sé svo, segi ég, þá get ég talið upp margar vörutegundir, sem verzlunarfyrirtæki hér í bænum segjast kaupa hreint ekkert verri eða dýrari frá Þýzkalandi, heldur en hægt er að fá þær annars staðar að. Ég get t. d. nefnt málningu, af því verið var að minnast á hana. Verzlunarhús eitt hér í bænum, sem flytur inn mikið af málningarvörum og hefir keypt þær allar utan Þýzkalands, en kaupir þær nú þar, telur sig fá bæði betri og ódýrari vörur frá Þýzkalandi nú heldur en það hefir fengið annars staðar að áður. Í sambandi við þetta vil ég benda á, að það þarf ekki að vera að tala um það við okkur hér í hv. d. í sambandi við Þýzkalandsviðskiptin, að farnar séu allar krókaleiðir í verzlun. Ég veit ekki betur en þýzkar vörur hafi verið keyptar hingað til lands allt frá tímum Hansastaðakaupmanna, og Þýzkaland mun vera eitt af þeim löndum, sem framleiða hentugastar vörur fyrir íslenzkan markað. Svo mér virðist þessar krókaleiðir, sem hv. þm. var að tala um, muni liggja eitthvað lengra út í heim heldur en til Þýzkalands. En það mætti benda hv. þm. á það, sem mun tala hér að nokkru leyti fyrir annan stjórnarflokkinn, að það virðist ekki vera mikill þyrnir í augum hans eða annara, sem eru að amast við Þýzkalandsviðskiptunum, sú krókaleið að kaupa þýzkar vörur frá Danmörku og greiða þangað fyrir þær danskar krónur, en ef vörurnar eru keyptar í vöruskiptum beint frá Þýzkalandi, þá virðist það skoðað sem böl. Þessi skoðun kemur hér svo oft fram, að ég sé ekki ástæðu til að þegja lengur alveg við því. Annars liggur það náttúrlega í hendi þeirra, sem ráða hér ríkjum, að leggja þessi viðskipti alveg niður, ef þeim sýnist svo. Ég ímynda mér, að Þjóðverjar myndu ekkert sakast um það, þó við slepptum að skipta við þá, ef við teldum okkur hag í því.