13.12.1935
Efri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2124 í B-deild Alþingistíðinda. (3097)

184. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Ég hefi mælt á móti brtt. 5 þskj. 755, 3. lið, aðallega með það fyrir augum, að þingtíðindin væru svo merkilegt atriði í stjórnmálasögu og stjórnmálastarfsemi landsins, að prentun þeirra mætti af þeim ástæðum ekki niður falla. Það er menningarmál og metnaðarmál fyrir Alþingi að eiga ræður þingmanna jafnt frá þeim tíma, þegar móti blæs eins og þegar vel gengur. Atvinnuspursmálið var því ekki aðalatriði fyrir mér, þó að vera megi, að á það hafi verið minnzt í mótmælum, sem til þingsins hafa komið um þetta mál. En hæstv. fjmrh. mælti með þessu fyrst og fremst sem sparnaði fyrir ríkissjóð og finnst eiginlega engin ástæða vera á móti þessu önnur en atvinnuskerðingin, en mér finnst hitt vera svo miklu veigameira, að Alþingi eigi til óslitin prentuð þingtíðindi, síðan Alþingi var aftur endurreist. Seinni tíminn mundi vafalaust leggja þungan dóm á það þing, sem brygði út af þessari venju, jafnvel þó að hart sé í ári.

Það er rétt, að á árinu 1936 verða mikil útgjöld að óbreyttum l. vegna prentunar á umræðuparti þingtíðindanna, en mér sýnist, að jafnvel þótt það væri æskilegt, að á hverju þingi væru til prentuð þingtíðindi frá næsta þingi á undan, þá sé það að þessu sinni ekki mögulegt, vegna þess hvað stutt er milli þinga. Þess vegna verður þessi útgjaldabyrði á árinu 1936 ekki eins þung og hæstv. fjmrh. gerði ráð fyrir. En það er sök sér, þó að þessum kostnaði sé eitthvað jafnað milli ára, ef fjárhagslegar ástæður eru erfiðar. Á það er líka að líta, að þetta ræðir ekki um annað en að fella niður prentunina, og þá er þessi sparnaður orðinn minni, því að ræðuskriftir haldast þó eftir sem áður, og það er þó nokkur kostnaður, svo að sparnaður fyrir ríkissjóð er þá ekki eins mikill og hugsað var í till. hv. þm. S.-Þ. En þó að þessi sparnaður sé nokkur, og eftir till. hv. þm. S.-Þ. mikill, þá álít ég, að það sé sparnaður, sem við megum ekki leggja í, jafnvel þó að erfiðleikatímar komi, vegna þess að þm. á fyrri tíma hafa, eins og ég sagði í gær, í mestu harðærum, þegar fólkið flykktist burt af landinu, og mátti segja, að sultur væri í mörgum héruðum landsins, aldrei lagt til, að niður væri felld prentun þingtíðindanna.

Ég vildi miklu heldur, að menn sneru sér að því, sem skynsamlegra er í þessu máli, að menn komi sér saman um að takmarka svo ræður sínar, að prentun þeirra yrði ekki til tilfinnanlegra útgjalda fyrir ríkissjóð. Það má áreiðanlega takmarka svo ræðutíma þingsins, að þetta yrðu enganveginn tilfinnanleg útgjöld fyrir ríkissjóð og án þess að nokkru verulegu sé sleppt, því að það verður að játa, að þótt þm. tali ekki um neina vitleysu, þá má samt niður fella margt af því, sem sagt er í umr. og er til lítils gagns. En stytting ræðutíma, vöndun til ræðumanna og að sérstakir menn væru valdir til að hafa framsögu í málum og þeir settu sig sérstaklega inn í þau og vönduðu sem bezt til ræðuhalda sinna, það gæti orðið svo mikill sparnaður, ef þingsköpum væri breytt í þessa átt, og samkomulag gæti orðið um það milli flokkanna, sem ég tel æskilegast, að kostnaður við prentun þingtíðindanna gæti sennilega lækkað allt að því um helming eða meira frá því, sem nú er. Það hafa þegar verið gerðar ráðstafanir til sparnaðar á prentuninni af forsetum, með því að ákveða að hafa miklu smærra letur á þingtíðindunum heldur en áður, svo að þau verða miklu fyrirferðarminni og prentunin þó ekki dýrari á hverja örk, þó að miklu meira lesmál sé þar en áður. Og þegar þar að auki liggur fyrir þinginu frv. um breyt. á þingsköpum, og ég veit ekki annað en flokkarnir ætli að ganga á fund eftir svo sem hálftíma til þess að koma sér saman um þessa breyt. á þingsköpum, sem felur í sér möguleika til að stytta ræðutímann, þá álít ég, að það sé sú leið, sem fara eigi. Hinu er ég ekki á móti, ef fjárhagur ríkisins er sérstaklega erfiður eitt ár, að láta prentunina dragast, því að það er ekkert á móti þeim ósköpum, að setja það í lög, að hætta við að prenta þingtíðindin, því að þá mætti búast við því, að svo mikið safnaðist fyrir, að menn myndu ekki vilja fara að prenta þingtíðindin aftur, því að þá hefði safnazt svo mikið fyrir, sem ætti að prenta, að það yrði ríkissjóði allt of kostnaðarsamt.

Hér er að vísu um sparnað að ræða, en hann er ekki svo mikill, að hann geti vegið upp á móti því gagni, sem þeir, sem við stjórnmál fást, hafa af því að geta farið í þingtíðindin og fengið þar fróðleik um það, sem gerzt hefir. Ég held, að hv. þm. séu á hverjum einasta fundi að hampa þingtíðindunum til þess að minna mann á það, sem áður hefir verið sagt. Og ég veit ekki betur en að í síðustu eldhúsumr. hafi sjálfur hæstv. forsrh. farið í umræðupart Alþt. til þess að lesa upp hvað andstæðingur hans hafði sagt í vissu máli fyrir tveimur árum síðan. Og meira að segja las hæstv. fjmrh. upp úr þingtíðindunum til þess að bera af sér sakir, sem á hann höfðu verið bornar, en hann kannaðist ekki við. Hann varð að láta senda eftir þingtíðindunum til þess að hann gæti lesið upp úr þeim það, sem hann hafði sagt. Hefði nú ekkert verið skrifað og ekkert verið til prentað frá þessum umr., þá hefði hæstv. ráðh. ekki getað sannað, að hann hefði ekki sagt það, sem á hann hafði verið borið, - hann hefði ekkert getað annað en að neita, að hann hefði sagt þessi orð. Hefði þá staðið þar staðhæfing á móti staðhæfingu, áheyrendur ekki vitað, hvað satt var, - ekki að vita nema þeirri staðhæfingu hefði verið trúað, sem fyrr kom fram, en orð hæstv. ráðh. aðeins verið kölluð undanbrögð. En það, sem bjargaði hæstv. ráðh. í þessu mikilsverða máli, var það, að hann gat hlaupið í þessa merku bók, alþt., og látið þau fullkomlega skera úr, hvað hann hafði sagt. Þetta eru nú aðeins rök handa hæstv. fjmrh., en þau hafa samt talsvert almennt gildi, því að þm. geta alltaf farið í þingtíðindin og sagt: „Þetta hefi ég sagt, og það, sem hefir verið haldið fram, að ég hafi sagt, og það, sem hefir verið borið út um mig, er ekki satt, því að orð mín eru staðfest í Alþt.“.

Hv. þm. segja kannske, að það sé ekki að marka það, sem stendur í þingtíðindunum, þegar þm. lesi ekki ræðurnar yfir. Ég hefi alltaf gert það til þessa, og það er ekki sérlega mikið verk, ef gengið er að því með nokkru verklagi, og ég veit, að hv. 1. þm. Skagf. sleppir engri ræðu eftir sig inn í þingtíðindin án þess að lesa hana yfir. (MG: Þeir eru líka margir, sem ekki líta á ræður sínar). Já, þeir eru til, en hitt þekkist líka, að þm. lesa ræðurnar yfir, en gera það svo seint, að þeir muna þá ekkert, hvað þeir hafa sagt, og láta svo standa við ræðurnar, að þær séu óyfirlesnar. En þó að þær séu ekki yfirlesnar, þá eru þær þó margar - ég vil ekki segja allar - sem næst því, sem ræðumaður hefir sjálfur sagt.

Mér sýnist því, að það renni svo mörg rök undir það að halda prentun þingtíðindanna, að það sé ekki fært að láta hana niður falla. Þetta er líka svo mikið menningarlegt atriði og gömul hefð, að þing, sem stærir sig af því að vera elzt af samskonar stofnunum í heimi öllum, það getur ekki sóma síns vegna hætt að birta þingtíðindin, þótt á móti blási, þegar líka er leið til þess að draga stórlega úr kostnaði við Alþt. með samkomulagi þingflokkanna til að stytta tímann til ræðuhalda á alþingi.