19.12.1935
Efri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2197 í B-deild Alþingistíðinda. (3178)

190. mál, málning úr íslenzkum hráefnum

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég vil bara segja við hv. samþm. minn, 4. þm. Reykv., að mér þótti gaman að heyra af hans munni þá játningu, að hin banvæna frjálsa samkeppni myndi hafa komið því til leiðar, að við höfum komizt lengra áfram í sumum greinum en hægt hefði verið annars. Og ég býst naumast við, að það opinbera hefði farið lengra í þeim efnum en komið er nú í höndum einstaklingsins. En ég skal ekki fara út í það hér að deila um það, hvort það opinbera hefði verið betur að því komið að hirða ágóðann. En samkeppnin hefir einmitt þá miklu kosti, að hún knýr menn til að gera allt, sem þeir geta.

Hæstv. forsrh. sagði, að það væri í ósamræmi við afgreiðslu máls á síðasta þingi að vera móti þessu frv. En ég vil minna hann á það, að fyrir síðasta þingi lágu tvær umsóknir um einkaleyfi. Önnur var samþ., en hin ekki. Svo það verður alitaf samræmi og alltaf ósamræmi, hvernig sem fer um þetta mál, hvort sem leyfið verður veitt eða synjað verður um það. Og ég veit ekki, með hverju þessir menn reikna. Eins og ég hefi sagt, lágu fyrir á þinginu í fyrra tvær umsóknir, og sú umsóknin, sem ekki fékk framgang, var til muna merkilegri en hin, því að hún var til að hagnýta uppgötvun, en hin var til vinnslu og útflutnings á hráefni. Og nú hefi ég gaman af að spyrja hæstv. ráðh., hvað það opinbera hefir gert til að koma þessu góða efni á framfæri í útlöndum og notfæra sér það? Ætli það liggi ekki á því? Bezt gæti ég trúað, að það fari svo, að þessi 5 ár, sem mennirnir áttu að hafa til að hagnýta sér efnið, líði svo, að ekkert verði gert í því.

Hæstv. ráðh. sagði, að einkaleyfishafarnir ættu að vinna í fullri samkeppni. Ég þakka fyrir. Það er víst ekki ónýt samkeppni, sem t. d. ölgerðirnar hér vinna í. þegar neitað er með tollum eða öðrum ríkislögum um innflutning. Það er alkunnugt, að allar innlendar vörur eru dýrari en útlendar. Ég vil ekki þar með segja, að ekki beri að hlynna að innlendum iðnaði, en það er bara ekki samkeppni. T. d. veiðarfæragerð, - það er gott að geta búið til veiðarfæri í landinu, en við verðum bara að borga á annað hundrað krónur fyrir sama hlut og við fáun fyrir 70 kr. frá útlöndum.

Ég hefði gaman af að vita, hvernig á að hafa eftirlit með því, hvort hér verður unnið úr innlendu efni eða erlendu. Hvernig á að vera kontroll með því? Ég býst við, að verksmiðjan, sem sett verður upp, muni vinna ýmist úr innlendum og útlendum efnum. Mér skilst, að það sé ekki meiningin að brenna þessi efni, það yrði of dýrt, heldur vinna þau hrá, koma upp litagerð jöfnum höndum úr innlendum og útlendum efnum.

Það er erfitt að segja, hvað mikið þetta verður starfrækt eftir tvö ár. Ég met kapp þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli. Það fleytir hverjum atvinnurekstri, að honum sé fylgt með kappi. Og það er það eina, sem mér þykir leiðinlegt í þessu máli, að gera móti þeim mönnum, sem leggja kapp á að hagnýta þetta. En hvað myndu þeir segja, sem hafa unnið mikið að þessu, ef svo væri skellt á einkaleyfi til annara? Þetta er gott fyrir þá, sem hlotið hafa leyfið. En hvað er um alla hina, sem koma eftir eitt ár eða nokkur ár og hafa sama áhuga að setja á stofn verksmiðju til að framleiða þetta efni? Þetta tekur fyrir kverkarnar á allri viðleitni frá öllum öðrum. Þeir sömu menn, sem nú eru ánægðir yfir því að fá leyfið, hefðu verið í hópi hinna óánægðu, ef þetta hefði verið keyrt í gegn fyrir nokkrum árum, áður en þeir voru viðbúnir.

Hv. þm. Dal. skaut því fram, hvort ekki væri rétt að fresta málinu og leitast við að fá nöfn allra þessara 4 manna inn í frv. Þó að ég sé andvígur því að veita einkaleyfi, þá þykir metréttara, að þeir menn séu teknir með, sem búnir eru að undirbúa þetta um langan tíma. Ég skal ekki neita um afbrigði, og ég gæti farið til margra til að tryggja, að afbrigði yrðu veitt. Mér þykir það réttari afgreiðsla á málinu, úr því að samningar eru komnir svo langt sem hæstv. forsrh. segir.