11.03.1935
Neðri deild: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (3526)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Ólafur Thors:

Ég vil leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta, hvort það sé heimilt, að hans áliti, að fresta atkvgr., og ef það er heimilt, hvort hann sjái sér ekki fært að fresta henni, þó ekki sé nema um stundarfjórðung. Eins og hæstv. forseti veit, er það í fyrsta skiptið, sem haldinn er þingfundur eftir kaffihlé, og ég veit, að margir hv. þdm. hafa ekki gert ráð fyrir, að þessi þingfundur yrði haldinn, og voru gengnir af fundi áður en hæstv. forseti lýsti því, að fundi yrði haldið áfram að kaffihléi loknu. Ég óska þess vegna eftir því, úr því að stjórnarflokkarnir ætla að taka upp þann sið að drepa mál með því að sitja hjá við atkvgr. og þar með geta okkur gott fordæmi um það, hvernig við eigum að haga okkur í þessu efni, að hæstv. forseti, undir þessum sérstöku kringumstæðum, ef hann telur það heimilt, gefi stundarfjórðungs hlé til þess að kostur gefist á að koma boðum til þeirra þm., sem eru fjarverandi, um þessa bardagaaðferð stjórnarliðsins. því að það er eins og hv. 6. þm. Reykv. tók fram, að það er réttur meiri hl. að fella frv. með því að greiða atkv. gegn þeim, en hitt kynni að orka tvímælis, hvort réttur til að sitja hjá við atkvgr. er jafnmikill hjá meiri hl. eins og minni hl.

Ég vil svo mælast til þess, að hæstv. forseti úrskurði um, hvort heimilt sé að fresta fundi, og fá að vita, hvort hann vill verða við þeirri ósk að fresta fundinum, ef það er heimilt.