26.03.1935
Neðri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (3540)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Við þrír þm. Reykv. eigum hér brtt. við frv., sem ég vil leyfa mér að fara um nokkrum orðum. Aðalatriði í þeim brtt. eru nú þau, að tekið sé skylt tillit til framleiðenda mjólkur hér í Reykjavík.

Eins og kunnugt er, eiga framleiðendur á mjólk í Reykjavík um tvo kosti að velja nú. Annar er sá, að þeir afhendi sína mjólk til samsölunnar og fái fyrir hana sama verð og framleiðendur hvar annarsstaðar sem er. En hinn er sá, að þeir selji mjólk sína beint og hlíti þá ákaflega strangri og óskiljanlegri reglugerð, sem nýlega er sett um meðferð þeirrar mjólkur, og greiði þar að auki 8% af andvirði mjólkurinnar í verðjöfnunarsjóð. Þessi 8% skattur nemur nær 100 kr. á kú og er sannast að segja mjólkurframleiðendum í bænum algerlega óbærilegur skattur. Hinir, sem afhenda mjólkina samsölunni, losna við 8% verðjöfnunargjald, ef þeir nota a. m. k. einn hektara af landi handa hverri kú til fóðurframleiðslu.

Það var alveg ljóst frá upphafi, að þessir kostir, sem framleiðendum eru gerðir, eru óbærilegir, og örðugleikar þeirra eru smátt og smátt að koma í ljós. Það er nú ekki bara það, að þessir framleiðendur verða að sætta sig við þessa skattþvingun til annara, sem felst í verðjöfnunargjaldinu, heldur hefir framkvæmd þessara l. á ýmsan hátt orðið ákaflega undarleg. Hefir í þeirri framkvæmd oft lítið svo út sem um hættulega glæpamenn væri að ræða, þar sem eru mjólkurframleiðendur hér í bænum. Og ég vil segja hv. þdm. dálitla sögu til skýringar á þessum orðum.

Einn búandmaður hér í bænum á 4 kýr. Hann hefir góðan umgang um þennan bústofn sinn og hugsaði sér að selja áfram eins og hann hefir gert, beint til nágranna sinna og kunningja. Hann fór til stj. þessara mála og beiddist þess að mega selja beint. Honum var heimilað þetta með bréfi n., og hann hélt, að nú mundi hann geta haldið áfram sínum búrekstri - þó með þessum skatti náttúrlega, sem hann nú ekki gat gert sér fulla grein fyrir, hve mikill væri.

En nokkru síðar stöðvaðist bifreið fyrir framan hús hans. Út úr henni kemur lögregluþjónn og einhver eftirlitsmaður með honum og fara heim til mannsins. Þetta vakti nokkra athygli í hverfinu, eins og venja er til; því að þetta var mjög grandvar maður og átti ekki þess von að fá heimsókn af lögreglunni. Hann er nú spurður hvort hann selji mjólk sína beint. Hann segir já. Þá er við hann sagt, að til þess hafi hann enga heimild. Nú, segir hann, ég hélt ég hefði til þess heimild. Hvar er hún? Ja, ég veit ekki, hvort ég á að sýna skilríki fyrir henni. Hvaða skilríki sýnið þið fyrir því, að ykkur er stefnt til mín? Þeir krefjast nú þess og segjast kæra hann að öðrum kosti. Hann fer inn og sækir bréfið frá mjólkursölunefnd. Þótti honum ekki annað fært en sýna fram á þetta með rökum og skriflega, til þess að fá aftur heimilisfrið.

Við þetta er nú í þetta skipti látið sitja, og hélt nú þessi maður, að þar með hefði hann endanlega fengið frið til framleiðslu sinnar mjólkur og viðskipta við nágranna sína. Svo líður nokkur tími. Þá kemur lögreglan heim til hans aftur og segir við hann, að hann þurfi að gera þess grein, hvað hann geri af sinni mjólk. Hann segir aftur, að hann selji hana til nágranna sinna og sýnir strax heimild sína til þess. Þá er spurt: Hverjir kaupa mjólkina? Hvað er mjólkin mikil? Og hvað er hverjum um sig seld mikil mjólk? Maðurinn vissi nú ekki til, að hann væri skyldur til að gera grein fyrir þessu, en sagði sem svo, að ýmsir nágrannar sínir keyptu lítils háttar hver um sig, kannske handa sjúklingum eða börnum, og hann reyndi að deila sinni mjólk meðal viðskiptamanna, þó þannig, að flestir yrðu að bæta við sig frá mjólkurbúðum. Því að mjólk hans þótti góð, og var eftirspurnin miklu meiri en svo, að hann gæti fullnægt henni. Eftir það lét hann svo um mælt, að þessu hefði hann ekki átt að venjast. Hann hefði aldrei nokkurn tíma komizt undir eftirlit lögreglunnar fyrr eða haft neitt á samvizkunni, sem það opinbera þyrfti að krefja sig um eða hafa auga með. En nú liti svo út, að það væri einn aðalglæpur þjóðfélagsins að selja nágrönnum sínum mjólk, og það jafnvel þótt fullnægt sé ströngustu skilyrðum, sem sett eru af hálfu þess valds, sem vill leggja framleiðslu bæjarmanna á þessu sviði í rústir, til þess að geta sett þeim kosti um verð og söluskilyrði og allt annað, sem þessari verzlunarvöru viðkemur. Hann segir ennfremur, að hann hafi borgað sitt verðjöfnunargjald af sínum 4 kúm, og að það verði samkv. útreikningi af fyrsta mánuðinum 96 kr. á ári af kú. En, því miður, segir hann, er þetta mjög erfiður skattur fyrir mig, m. a. vegna þess, að ég varð svo óheppinn að kaupa kú í sumar austan úr sveit, sem reyndist mjög léleg. Reykvíkingar reyna að fá beztu kýrnar, sem til boða standa. En það vita kannske ýmsir, sem eru í þessum sal, að slíkum sölugripum er ekki alltaf rétt lýst. Þetta er eitt af því, sem Reykv. eiga á hættu í þessu efni. Þegar þeir biðja um virkilega 1. fl. mjólkurkýr, þá kemur það oft fyrir, að kýrnar reynast allmikið öðruvísi en þeim var lýst við söluna. Hann varð nú fyrir því að kaupa eina mjög lélega kú, sem er á hans fóðrun og hann verður að gjalda verðjöfnunarskatt af eftir þeirri áætlun, að hún mjólkaði 3 þús. lítra á ári, sem er afarhá nyt. Þá má ekkert koma fyrir kýr, sem mjólka í bezta lagi, en það kemur oft fyrir, sem kunnugt er, að kýr missa nyt. En ekkert tillit er tekið til þessa í álagning verðjöfnunarskattsins. Enda sagði hv. frsm. meiri hl. landbn. rétt áðan, að fáir framleiðendur eigi svo nytháar kýr, að þær gefi 3 þús. lítra á ári. Og ég verð að segja, að hér kemur nú í ljós það, sem var verið að halda fram á síðasta þingi, þegar þessi l. voru sett, að sú lítratala, sem miðað var við, er fjarri öllum sanni. Þá mátti ekki heyra þetta nefnt. Það var hamrað fram og sagt, að fyrir lægju fullnægjandi skýrslur frá framleiðendum um það, að meðalkýr gæfu 3 þús. lítra á ári. Og ég man ekki betur en að hæstv. landbúnaðarráðh. segði, að þetta væri í lægra lagi og vildi ákveða 3200 lítra. En nú kveðst form. landbn. og frsm. meiri hl. vera þeirrar skoðunar, að 2500 lítrar sé a.m.k. ekki of lágt áætluð meðalársnyt í Reykjavík.

Ég neita því ekki, að ef lítratalan, sem skatturinn er reiknaður af, er lækkuð verulega, eins og meiri hl. n. gerir ráð fyrir, þá hafi það að sjálfsögðu sína þýðingu fyrir framleiðendur hér í Reykjavík. En hitt er samt jafnsjálfsagt, að Reykvíkingar geri það að kröfu sinni af „princip“-ástæðum, að þeim sé heimilt að framleiða mjólk til neyzlu, fyrst og fremst á sínum eigin heimilum og síðan til sölu hér í bænum, án þess að vera skattlagðir fyrir það til annara framleiðenda. Það er það, sem þessi brtt. fer fram á, og ennfremur það, að ekki sé hag þeirra þjarmað með reglugerðum um hreinlæti og hollustuhætti á mjólk, sem er óframkvæmanlegt og nær ekki nokkurri átt, eins og ég held, að allir viðurkenni um þá reglugerð, sem nú hefir gilt um þetta. Ég ætla ekki að fara að lesa hana hér, en ég held, að þeir, sem kynnast henni, verði sammála um, að hún sé broslegt plagg og sýnist vera samin í því skyni einu að gera það algerlega ómögulegt, að nokkur framleiðandi geti fullnægt kröfunum, sem þar eru gerðar.

Undarlegt þótti mér að heyra til hv. þm. Hafnf., ekki minnst undarlegt fyrir þá, að nú litur út fyrir, að sósíalistum sé miklu meira kappsmál með mjólkurl. heldur en sjálfum framleiðendunum. Upphaflega voru þau sett til þess eins að tryggja hag framleiðenda. Það er eina röksemdin, sem fyrir þessum l. hefir verið færð. Og mér skildist, að það hafi verið þeir, sem telja sig umboðsmenn landbúnaðarins, sem lögðu kapp á að fá þessa löggjöf fram á síðasta þingi. Og ég hafði skilið það svo, að sósíalistar hafi unnið það til fyrir samvinnu við framsóknarmenn að sætta sig við, að þessi löggjöf yrði sett. En nú er það komið í ljós, að þeir eru ennþá áhugasamari um það að halda þessu öllu í sem allra þrengstum skorðum og halda sig við bókstaf þeirrar löggjafar, sem sett var á síðasta þingi, - miklu áhugasamari um þetta en framleiðendurnir sjálfir. Og ég verð að segja, að þá þykir mér nú skorin vera farin að færast upp í bekkinn.

Ég trúi nú heldur ekki alveg skilyrðis- og fortakslaust þessari yfirlýsingu um það, að engin rödd hafi heyrzt í Hafnarfirði um það, að neytendur væru á nokkurn hátt óánægðir með þetta fyrirkomulag. Ég veit það að vísu, að hv. þm. kallaði saman flokksfund í Hafnarfirði rétt áður en þing hófst, þar sem nokkrir „íhaldsskarfar“ höfðu nú samt komizt inn - að því er ég hefi heyrt. (EmJ: Þetta var opinber landsmálafundur). Ójá, opinberan landsmálafund. En stundum er nú passað upp á, að fylgismenn sitji í hverju sæti áður en andstæðingar komast að. Ég hefi heyrt, að þm. hafi fengið samþ. till. einum rómi, sem fór í þá átt, að skora á þetta þing að gera ekki nokkra breyt. á þessum mjólkursölul. Þetta er vissulega að standa við samninga við þá, sem áður voru andstæðingar, framsóknarmennina, þegar þm. vinnur þetta til samvinnu. En ég vil ekki skoða hann sem samvizkusaman umboðsmann mjólkurframleiðenda kringum Hafnarfjörð, þegar hann segir frá þessu. Ætli hann skoði sig ekki meiri umboðsmann þeirra Hafnfirðinga, sem hann hefir sjálfur búið til skoðanir fyrir, heldur en fyrir Hafnfirðinga alla saman, eða mjólkurframleiðenda kringum Hafnarfjörð? Það virðist líka ýmislegt benda á, að hv. þm. muni ekki allt, sem hann er að segja. Það liggur t. d. fyrir þessu þingi frv. um að leggja undir Hafnarfjarðarbæ stórt landsvæði, og það er meira að segja gengið svo langt, að lagt er til að leggja líka undir bæinn landsvæði, sem núv. forsrh. fékk þarna útmælt fyrir nokkrum árum og olli þá miklu umtali. Þetta aukna land fyrir Hafnarfjarðarkaupstað getur skapað möguleika fyrir því. að borgararnir í Hafnarfirði geti framleitt þá mjólk, sem þeir þurfa að nota sjálfir. Þetta virðist því ekki benda til þess, að þessi hv. þm. og þeir, sem bak við kröfurnar standa um aukið land fyrir bæinn, séu ánægðir með mjólkursölulögin. Þvert á móti bendir það til hins gagnstæða. Það er því ekkert undarlegt, þó að þessi hv. þm. legði áherzlu á það í ræðu sinni, að mjólkursölulögin væru aðeins bráðabirgðalöggjöf. Ég skil hann ofurvel og er þess því fullviss, að þegar hann hefir komið hugsjónum sínum um aukið land og aukna ræktun í Hafnarfirði í framkvæmd, þá muni og aðstaða hans til þessa máls breytast. Og þá vildi ég gjarnan geta rætt við hann um verðjöfnunargjald af mjólk o. fl. Nei, það, sem sérstaklega markar afstöðu hv. þm. til þessa máls nú, er það að hann er ákaflega samvizkusamur gagnvart þeim aðilum, sem hann hefir samið við, og gengur þar jafnvel lengra en sumir flokksmenn flokks þess, sem hann samdi við. En það vildi ég mega segja þessum hv. þm., að hann sem bæjarstjóri hefir þó skyldur við borgara Hafnarfjarðar, og það jafnvel líka gagnvart þeim, sem hann telur ekki flokksmenn sína. Vilji hann því koma fram eins og staða hans býður, hér honum að gæta þess að láta samvizkusemina gagnvart þeim, sem hann hefir samið við, ekki leiða sig svo langt, að það verði mjög á kostnað þeirra, sem hann er umbjóðandi fyrir.

Þá var hv. þm. að leitast við að byggja mótmæli sín gegn till. þeim, sem hér liggja fyrir, á því, að ekki væri tekið nægilegt tillit til neytendanna. Nú vil ég spyrja hv. þm.: Hvað hefir eiginlega verið gert fyrir neytendurna með skipulagningu mjólkursölunnar? Hv. þm. hefir kannske Að við þessa 1 eyris lækkun á mjólkinni, sem átti sér stað í haust, þegar hann var að dylgja með það, að hagsmunir neytendanna hefðu jafnan verið og væru hafðir fyrir augum hjá mjólkursölunefnd. Eða máske það hafi verið sala brauðanna frá Alþýðubrauðgerðinni?

Að endingu vil ég segja þessum hv. þm. það, að hann má ekki láta sér detta í hug, að hagsmunir Hafnarfjarðarkaupstaðar séu í þessu efni ólíkir hagsmunum Reykjavíkur. Og því þori ég að spá honum, að fái hann þær óskir sínar uppfylltar að stækka land Hafnarfjarðar, og komi hann jafnframt þeim hugmyndum sínum í framkvæmd, að landið verði ræktað í stórum stíl, þá býst ég við, að hann skilji, að neytendur og framleiðendur innan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar geti ekki látið beita sig slíkum rangindum sem hér er gert.

Að síðustu vil ég bæta því við, að verði afleiðingin af mjólkursölulögunum sú, að gera mjólkurframleiðendur innan bæjarlandanna ómögulega, þá er eytt verðmætum og möguleikum til sköpunar miklum verðmætum, sem er meira virði en það, sem er verið að reyna að vernda með lögum þessum.