27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í C-deild Alþingistíðinda. (3544)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Það er nú orðið nokkuð langt síðan ég kvaddi mér hljóðs, og hafði ég skrifað hér niður hjá mér nokkur atriði, sem ég vildi fara um fáum orðum.

Það fyrsta, sem ég hefi skrifað hjá mér, er úr ummælum hv. þm. Hafnf. Hann gat um það, að ekki væri þörf á þessum brtt., vegna þess að það, sem þær fjölluðu um, væri í raun og veru tryggt með bráðabirgðaákvæðum mjólkursölulaganna, þar sem stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú kemst á samkomulag milli mjólkurbúanna og félaga framleiðenda á þessu svæði um að taka stjórn samsölunnar í sínar hendur, og skal þeim það heimilt, ef samþykki landbúnaðarráðherra kemur til. Að öðrum kosti fer mjólkursölunefnd með þessi mál þangað til samkomulag þetta hefir komizt á, að dómi landbúnaðarráðherra.“

Þetta er ekki rétt hjá hv. þm. Hafnf. Í þessu ákvæði er það ekki tryggt, að framleiðendur taki söluna í sínar hendur. Í fyrsta lagi er það tilskilið, að stjórnir mjólkurbúanna komi sér saman, en nú er búið að tryggja það, að samkomulag fæst ekki, því eitt þeirra skerst úr leik; síðan er þetta aðeins heimild, en ekki skylda, og ennfremur undir úrskurði landbúnaðarráðherra, hvort samkomulag hafi náðst. Hér eru margar dyr opnar, og þær eru ekki glenntar upp til annars en þess, að út um þær verði smogið. Það er ekki til neins að ætla sér að telja nokkrum trú um það, að í þessu sé nokkur trygging.

Þessi sami hv. þm. sagði, að nokkuð væri öðru máli að gegna með sölu afurða innanlands eða þegar selt er út úr landinu, svo sem er með kjöt, síld og fisk. Þar myndu kaupendur eða neytendur ekki taka því vingjarnlega, ef breytt % væri til um það, hvernig vörunni er dreift. Þetta er rétt, en af hverju yrði þessu ekki vel tekið af neytendum? Af því að þeir sjálfir hafa það hugfast, að reynt er að gera neytendunum sem bezt til hæfis.

En myndi ekki hér bezt að hlíta svipaðri reglu og gera neytendum sem bezt til hæfis? Ég hygg, að þó þetta sé innanlandsverzlun, þá haggi það ekki þeirri staðreynd, að svo sé hag seljandans bezt borgið, að sem bezt sé reynt að gera neytendunum til hæfis. Þess vegna höfum við, ég og hv. 3. þm. Reykv., borið fram þær brtt., sem þegar er búið að tala nokkuð fyrir, en ég vil þó bæta við það nokkrum orðum.

Aðalkjarni þeirra breyt, sem við förum fram á, er sá, að sala þeirrar mjólkur, sem framleidd er hér í Rvík, sé gefin frjáls. Þetta er krafa, sem af mörgum ástæðum er eðlileg. Í fyrsta lagi er það mjög óeðlilegt, að óviðkomandi menn ráðist inn í bæjarfélagið og segi við þá, sem þar eru fyrir: Við ætlum að setja ykkur reglur um það, hvernig þið farið með þá vöru, sem þið framleiðið. - Þetta er óeðlilegt. Ég hefi áður minnzt á það, á hvern hátt hér hafi vaxið upp kúabú. Þau hafa vaxið hér upp af beinni þörf bæjarfélagsins, og það er ekki hægt að eiga það undir geðþótta náttúrunnar og landsfólksins, hvort bænum verði mögulegt að eiga áfram þennan varasjóð, sem hann nú á í þeim mönnum, sem framleiða hér mjólk. Það kemur ekki til mála, að Reykvíkingar geti látið það afskiptalaust, að þessari atvinnugrein þeirra sé sparkað burt. Og sé hag þessarar framleiðslu svo mjög þröngvað, að erfiðar aðstæður geri það að verkum, að atvinnuvegurinn verði að leggjast niður, þá er Rvík orðin varasjóðslaus, sem ég svo kalla, í þessum efnum, og verður að gera sér að góðu að taka aðeins við því, sem að henni er rétt af öðrum sveitarfélögum.

Þegar svo er ástatt, að ekki er hægt að komast hjá því að skera úr málum á milli tveggja aðilja, þá verður að setja sig í beggja spor og skilja beggja málstað. Það er þess vegna ekki hægt að neita því, að það er ekki einasta rétt, heldur skylt, að þeir, sem sérstaklega eiga að vera á verði fyrir Rvík, bendi á þá meinloku og það skilningsleysi, sem kemur fram hjá þeim mönnum, sem skoða Rvík eins og sökudólg, sem verði að skammta eins og fanga, og verði að taka þegjandi og möglunarlaust við því, sem að honum er rétt, hvað sem það er og hvernig sem það er framreitt.

En Reykjavík hefir fleiri hagsmuna að gæta, og kem ég að því síðar. Ég vil fyrst benda í það, og legg áherzlu á það, að Rvíkurmarkaðurinn er fyrir 6-7 milli. lítra af mjólk á ári, meðan ekki er tekið af þessum markaði fyrir borgarana sjálfa meira en nemur 2 millj. lítra á ári. Það er ekki hægt að telja Rvík í sök við sveitirnar, ef hún opnar þeim markað fyrir 4-5 millj. lítra af mjólk árlega. Það er ekki með sanngirni neinn refsiskattur í bæinn, vegna þess að héruð utan Rvíkur eigi einhverja meiri og fyllri kröfu en þá, að selja alla þá framleiðslu mjólkurafurða, sem er fram yfir það litla, sem bæjarbúar sjálfir framleiða. Frá sjónarmiði bæjarins er það ekki lítið atriði, hvort bæjarmenn fá að selja þá mjólk, sem þeir framleiða, án skattgreiðslu til manna í öðrum héruðum. Reykjavík hefir ekki í svo fá horn að líta um útgjöld, og mér skilst, að þeir tímar séu framundan, ef ekki koma fyrir sérstök höpp, að fast verði gengið eftir bæjunum um framfærslu þurfamanna og framlag til atvinnubóta, að þess vegna geti Rvík ekki látið vera að halda því fram, að þessar skattgreiðslur eigi fyrst og fremst að vera fyrir Rvík. Það er ekki hægt fyrir Rvík að ganga inn í það, að skattleggja sína borgara svo til annara héraða, að þeir annaðhvort verði ekki færir til þeirrar skattgreiðslu, sem bærinn krefst af þeim, eða að þeir verði að leggja niður sinn eiginn atvinnurekstur.

Ég hefi orðið var við það í þessum umr., að ýmsum finnst óeðlilegt, ef komið er í samsölu, að þá geti nokkuð af framleiðslunni verið fyrir utan hana. Ég vil benda í það, að flestallir þeir, sem framleiða mjólk hér í bænum, eru smáframleiðendur, og sumir geta verið svo settir, að þeir hafi nauðsyn fyrir samsöluna, eða þykir kannske eins gott að vera í samsölunni eins og fyrir utan hana, en allir þeir, sem geta sparað milliliðakostnað og notað vinnuafl heimilis síns til afgreiðslu í mjólk þeirri, sem þeir framleiða, eiga að hafa rétt til þess, enda ekki víst, að þeirra litli búrekstur beri það, að lagt sé á hann sérstakt dreifingargjald. Þetta er alveg eins og það, sem ég hefi bent á um marga smábændur í sveit, sem nú er bannað að selja afurðir sínar nema samkv. mjólkursölulögum og kjötsölulögum. Það getur gert það að verkum, að þeir geti ekki rekið bú sín áfram, þó þeir hingað til hafa getað haldizt við, vegna þess að þeir sjálfir hafa getað lagt fram alla vinnu og ekki þurft að borga neinn sérstakan dreifingarkostnað; en ef þeir verða að hlíta fyrirmælum þessara laga, getur það skapað þau útgjöld, sem þeirra litlu brú bera ekki.

Nú hefir því verið haldið fram, að menn væru frjálsir að því að selja beint; en þetta er ekki rétt. Það frelsi er aðeins pappírsgagn, þegar sett eru þau skilyrði fyrir því, að menn megi selja beint, að fæstir geta uppfyllt þau. Þess vegna höfum við, ég og hv. meðflm. mínir, borið fram brtt. á þskj. 249. Þar er það tekið fram, að þeim, sem selja mjólk beint til neytenda, sé skylt að hlíta reglugerðarfyrirmælum, sem tryggi hreinlæti við framleiðslu og afhendingu mjólkurinnar. Reglugerð þessi á að vera saman af bæjarstjórn (eða sveitarstjórn) og stafest að landbúnaðarráðherra.

Þetta er eðlilegt, því Rvík á mest á hættu um það, hvert hollustu og hreinlætis er nógsamlega gætt, og því eðlilegt, að það sé sett á vald bæjarstj. að semja þá reglugerð, sem fara skal eftir í þessum efnum. Í bæjarstj. Rvíkur mun líka vera fullkominn skilningur á því og fullkomin alvara í því að stemma stigu fyrir útbreiðslu sjúkdóma og óhreinlegri umgengni í sambandi við framleiðslu og afhendingu mjólkur. En hitt munu bæjarfulltrúar líka skilja betur en mjólkursölun., hve örðugt er í einum svip að uppfylla öll þau skilyrði, sem eru sett. Henni treysti ég því betur til að fara svo lempilega að, að slíkar breyt. komi ekki hraðar á en kleift er fyrir framleiðendur. Þegar bein sala var leyfð átti að koma í veg fyrir það, að sett væru svo ströng skilyrði fyrir leyfinu, að ekki væri hægt að uppfylla þau.

Það sagði einhver í skopi, að það hefði átt að setja inn þau skilyrði, að kýrnar væru með fægðar og málaðar neglur - þ. e. a. s. klaufir. Þetta er auðvitað sagt sem gaman, en að vissu leyti ekki svo mjög fjarri veruleikanum, svo rík tilhneiging sem komið hefir fram í þá átt að girða fyrir það með reglugerð, að hægt yrði að nota leyfið fyrir hinni beinu sölu.

Þá er hitt atriðið, að þessir menn, sem fá leyfi til að selja beint, eiga allir að greiða verðjöfnunargjald af allri sinni mjólk. Hvernig munu þessir menn hugsa um framleiðendur hér í Rvík, sem eiga að greiða verðjöfnunargjald af mjólk sinni í aðra hreppa, án þess að eitthvað komi í staðinn? Halda þeir, að þetta sé sanngjarnt? Þegar svo þar við bætist, að sett hefir verið reglugerð fyrir Rvík um hollustuhætti, sem krefst allmikilla útgjalda, þá verður eitthvað að koma í staðinn fyrir þessi útgjöld. Maður gæti haldið, að þeim væri tryggt að selja vöru sína, en það er alls ekki. Þeir eiga sannarlega á hættu, að samsalan taki alla verzlun af þeim; þeir verða að standa í harðri samkeppni við mjólkursamsöluna, eins og bent var á áðan af einhverjum hv. þm. Bændur þeir, sem fjær búa, hafa rétt til að leggja hér inn mjólk sína á samsöluna, en framleiðendur hér greiða verðjöfnunargjald af mjólk, sem þeim er alls ekki tryggt að geta selt. Ég held, að ekki sé hægt að mótmæla því, að á meðan Rvík framleiðir ekki nema 1/3 af þeirri mjólk, sem hér er neytt, þá sé ósanngjarnt að gera herferð á hendur framleiðendunum hér í bæjarlandinu. Hv. þm. Hafnf. sagðist ekki hafa orðið var við neina óánægju í Hafnarfirði um dreifingu mjólkurinnar. Ég skal ekki véfengja hv. þm., en mér þykir undarlegt, ef hann hefir meint það, að dreifingunni hefir ekki verið ábótavant, og er ég þá kominn að því, að nokkur þörf muni vera á að rifja upp nokkur atriði úr ræðu hv. þm. Hafnf. (Forseti: Ef hv. þm. á langt mál eftir, vildi ég beina því til hans, hvort ekki sé rétt að fresta nú fundi). Það stendur vel á fyrir mér. Ég er hér við kaflaskipti í minni ræðu. [Fundarhlé.]

Ég þarf ekki að tala fleira um þetta atriði, hvernig mjólkursölunefnd hefir tekizt að fullnægja óskum kaupenda. Ég ætlaði aðallega að tala um brtt. þm. Reykv., ef hv. þm. Hafnf. hefði ekki gefið í skyn, að þessi óánægja manna með dreifing mjólkur væri ekki á rökum byggð. Hann vitnaði í Hafnarfjörð, - að það væri engin óánægja þar. Ég efast ekki um það. Skilyrðin eru sjálfsagt öðruvísi þar. Bærinn er fámennari. Og svo er annað, sem ég hygg, að mestu varði í þessu mjólkurmáli um öll óhöpp og mistök í störfum mjólkursölun., en það er sú rótgróna óvild til Reykjavíkur, og því hafi málið færzt í þann farveg að verða árásarmál sérstaklega á Rvík. Og það er efalaust af því, að þeir, sem fyrir þessum hlutum standa, hafa jafnan kallað Rvík „sterkasta vígi íhaldsins“. En það mun nú vera svo, að hv. þm. Hafnf. hefir leyst Hafnarfjörð undan að mæta þeirri óvild, sem Rvík á að mæta úr slíkri átt og virðist vera orðin að algerðum fjandskap.

En ég ætla, að það sé ekki vandi að sanna, að það eru mörg atriði, sem mjólkursölun. hefir framkvæmt gegn Reykvíkingum, sem alls ekki eru til gagns fyrir seljendur, en eru fullkomlega til tjóns fyrir Reykjavíkurbúa. Og yfir höfuð hefir óskum neytenda verið svarað með forsi og heimsku. Neytendur óskuðu eftir að fá góða vöru og glöggt flokkaða, með upprunamerki, þannig að þeir vissu, hvaða vöru þeir fengju og hvaðan. Um þetta síðara neitaði samsalan algerlega. Í öðru lagi sendir hún mjög misjafna mjólk að gæðum, og í sumum tilfellum alls ekki sómasamlega neyzluvöru. Ég veit þess mörg dæmi, að þetta hefir valdið veikindum og sjúkdómum í börnum. Er slíkt ekki til þess fallið að gera þetta fyrirkomulag vinsælt. Ég hygg, að hjá þessum göllum hefði vel mátt komast, og að þeir stafi af þrjózku n. og óvild til Reykvíkinga.

Neytendur óskuðu eftir, að mjólkin yrði boðin sem víðast í bænum. Og það er öllum vitanlegt, að það mátti fá mjólk selda víðsvegar í brauðbúðum - og svo að segja alstaðar um bæinn -bara fyrir prósentur af verðinu, og koma því fyrir ákaflega ódýrt fyrir seljendur mjólkurinnar. Þetta var ekki tekið í mál. Svarið við þessu var stórkostleg samfærsla sölustaða, sem virtist vera sniðin eftir sérhagsmunum eins stjórnmálaflokks í landinu, Alþfl., sem á að hafa allar tekjurnar í sinn flokkssjóð.

Neytendur óskuðu eftir því, að þeir, sem sýndu sig að vera skilsamir menn, mættu vera t. d. í vikureikningi. Áður höfðu menn verið í mánaðarreikningi yfirleitt. Þessi breyt. beinlínis dregur úr mjólkurneyzlunni og veldur því tjóni jafnt fyrir seljendur sem neytendur, ef staðgreiðslu er krafizt í öllum tilfellum. Það virtist algerlega ástætulaust að neita svo harðlega þessari ósk kaupenda, og til þess fyrst og fremst að sýna þeim sem mesta þrjózku og óvild. Og þetta hefir gengið svo langt - eins og menn nýlega hafa heyrt sögu af -, að heimili, sem eru í sóttkví og mega ekki láta neinn fara af heimilinu, verða að vera í mjólkursvelti. Svo langt gengur þrjózka mjólkursölunefndar, að hún lætur sér ekki segjast af óviðráðanlegum atvikum, eins og t. d. sóttkví.

Þá óskuðu neytendur eftir að fá sérstaka barnamjólk. Mjólkursölun. var nú ekki frá því að ganga inn á þetta. En sá, sem átti að selja mjólkina, gat því aðeins fengið leyfi til þess, að hann hækkaði hana í verði a. m. k. 5 aura lítrann. Hann gat ekki fengið leyfi til að selja sömu tegund fyrir sama verð og áður. Sú mjólk, sem börnum og sjúklingum er sérstaklega ætluð, mátti því aðeins seljast, að hún væri dýrari en seljandi vildi.

Loks kom þetta svokallaða „recepta“-mál, sem allir þekkja og ekki mun þekkjast dæmi um metal siðaðra manna nokkurn tíma, að menn geta ekki fengið barnamjólk nema eftir læknis„recepti“. Það þekkist, að ýms lyf má ekki láta nema eftir „recepti“, sérstaklega eiturlyf. Barnamjólk og sjúklinga er þá af n. sett í sama flokk og eiturlyf. Svona geta menn orðið blindir, þegar ofstæki heltekur. Hún getur þurrkað burt ekki aðeins sómatilfinninguna, heldur líka skynsemina. Ég ímynda mér, að þetta „recepta“-hneykslismál hefði hvar sem er í víðri veröld orðið til þess, að ríkisstj. í viðkomandi landi hefði látið nefndina hverfa tafarlaust úr sínu starfi, því að þetta er fullkomið hneyksli. En okkar sælu ríkisstj. virtist hafa hugnazt þetta mjög vel. Hún hefir aldrei verið hrifnari af sinni kæru mjólkurnefnd en nú, eftir að hún hefir gert sig seka í þessum fíflshætti, sem ég vil kalla, ofan á alla þrjózku og allar árásir á neytendur í Rvík.

Ég gæti talið enn upp fjölmargt til frekari sönnunar, en vil forðast endurtekningar á því, sem áður er búið að segja. Og þó væri ekki vanþörf á að leggja frekari áherzlu á margt af því, til þess að það komist frekar inn í meðvitund manna, hve heimskulegt það er og fjarri öllu réttu, að sá, sem vill selja, geri sér far um að móðga kaupanda á allan hátt og gera honum lífið leitt sem framast má verða, auk þess að vinna honum beint og óbeint tjón. Það er bara leiðinlegt verk að endurtaka oft það, sem búið er að segja áður, bæði munnlega og skriflega.

Þá voru það nokkur atriði hjá hæstv. forsrh., - ég verð víst að kalla hann landbúnaðarráðh., - það er nú nýtt í málinu að kalla þann mann í stj. landbúnaðarráðh., sem helzt vinnur landbúnaðinum eitthvað til meins. Hann sagði, að sjálfstæðismenn væru að berjast innbyrðis um hagsmunamál. Hann kvað okkur þm. Reykv. vera farna að stangast við flm. frv., sem liggur fyrir, flm. væru hver fyrir sitt hagsmunasvæði, og svo kæmum við þvert á móti, og að það væri ekki gott að gera hvorumtveggja til hæfis. Þetta er algerður misskilningur. Flm. frv., sem hér er til umr., hafa hagsmuni yfirleitt allra seljenda að bakhjarli. Það eru bændur bæði í nær- og fjarsveitum, sem standa að því. Þeir eru að flytja þeirra málstað. Það er svo fjarri því, að við þm. Reykv. séum mótfallnir þeirra till., og ég get lýst yfir fyrir mitt leyti, að ég greiði þeirra frv. atkv. Annað mál er, að okkur þykir frv. ekki ganga nógu langt og að þeir hafi ekki tekið nógu mikið tillit til neytenda. Þess vegna verðum við sem menn, er hafa skyldu til að flytja málstað neytenda, að koma með okkar kröfur að auki. Hér eru ekki neinir hagsmunir milli okkar að togast í, enn sem komið er. Ég er sannfærður um, að þessir gallar, sem ég taldi upp, muni allir hverfa, ef það fyrirkomulag verður tekið upp, sem flm. frv. fara fram á. Ég veit, að þá veljast þeir menn til umsjár þessara mála, sem hafa bæði vit og vilja á að gera neytendum til hæfis, fyrst og fremst af umhyggju fyrir sínum umbjóðendum, framleiðendum mjólkur, og líka vegna þess, að það er yfirleitt engin ástæða til að vinna neytendum neitt tjón.

Ég ætla ekki að bæta við þessi orð öðru en nokkrum athugasemdarorðum út af þeim ummælum hæstv. forsrh., að ef farið yrði að gera verulega breyt. í l. hér, myndi hann sjá svo til, að frv. yrði fellt í Ed. Heyrt hefi ég, að þessu frv. yfirleitt væru búin banaráð, - um sannindi þess veit ég ekki. Það getur verið, að það svari hugarfari þeirra manna, sem fylgja þessu mjólkursölumáli að mestu leyti af óvild - að ég ekki segi fjandskap - til neytenda í Reykjavík. Það getur verið, að það svali skapi þeirra í bráð. En ég hygg, að þar verði skamma stund hönd höggi fegin. Því að þessir menn eru komnir í kví, sem þeir losna ekki úr. Annarsvegar eru bændur, sem eru óánægðir með framkomu þeirra og vita, að hún er þeim til tjóns. Hinsvegar eru neytendur, sem þeir hafa tekið upp fjandsamlega afstöðu til. Þeir eru í kví, og munu ekki úr henni losna nema þeir gangi úr henni sjálfviljugir. Og ég segi, að þeir fara þaðan með minni sæmd síðar, því að það er áreiðanlegt, að þótt Reykvíkingar séu seinþreyttir til vandræða, þá munu þeir hafa tök á að reka af höndum sér menn, sem fara með þeim forsi, frekju og rangindum sem mjólkursölun. og þeir, sem að henni standa fastast. Það sýnir sig, að því lengur sem Reykvíkingar þola þetta, því harðari verður þeirra eftirleikur, þegar þeir rísa upp. Þó að það kosti fleiri ára baráttu, þá skal hún standa. Við bíðum eftir, að þeir menn taki þessi mál, sem hafa vit og mannlund til þess að fara siðlega fram gagnvart neytendum. En ef ekki fæst að gert, þá munu þeir geta fundið, hvað á móti er. Þá getur vel verið, að sveigður verði að þeim sá, sem ekki verður létt undir að búa.