27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (3552)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Ólafur Thors:

Ég hafði viðað að mér ýmsum plöggum, sem ég ætlaði að leggja hér fram - ef þau eru þá ekki komin í forngripasafnið, svo langt sem um er liðið frá því málið var síðast í dagskrá.

Hv. síðasti ræðumaður beindi því til okkar sjálfstæðismanna, að við ættum að taka okkur íhaldsflokkinn í Danmörku til fyrirmyndar. Við erum nú ekki vanir að sækja okkar fyrirmyndir þangað, eins og sósíalistar. En aftur ætla ég að taka mér sessunaut minn, hv. síðasta ræðumann, til fyrirmyndar og vera fáortur, eins og hann.

Það gæti annars verið tilefni til að hefja ýtarlegar umr. um þetta mál og allt það, sem í því hefir gerzt, því fremur sem það virtist upplýst, að hæstv. landbrh. ætlar að standa á móti nauðsynlegum breyt. á mjólkurl., til þess að girða fyrir, að hægt sé að verða við framkomnum óskum neytenda. Ég mun þó ekki nema að litlu leyti notfæra mér þetta tilefni, sem gefið er, til þess að rekja sögu málsins. Nenni ég ekki að fást við það, þar sem flestum hv. þm. er saga málsins kunn, og sérstaklega þó af hinu, að hér eiga ekki rökin að ráða, því að allt er búið að ákveða fyrirfram af stjórnarliðinu. Það er flokksfylgi, sem á að ráða því, hvað gert skuli, og þeirri ákvörðun verður ekki breytt. En það verður þá okkar, sem undir verðum í málinu, að svara fyrir okkur á sínum tíma. Ætla ég því aðeins að víkja að örfáum atriðum, sem fram hafa komið í umr., og þá sérstaklega í ræðu hv. landbrh.

Það, sem einkennir allt tal hans um þetta mál, er það, að honum finnst sem hagsmunir bænda séu í hers höndum, ef þeir fái nokkru að rita sjálfir um sín málefni. Hann hampar því, að meðan hann sé ráðh. sleppi hann ekki úr höndum sér völdunum yfir þessu máli. Og rökin eru alltaf þau, að ef bændur fái að ráða, muni allt fara í kaldakol. Þetta er mikið yfirlæti og óviðfelldið. Og þegar litið er á forsögu málsins, kemur það úr hörðustu átt, er landbrh. talar svona. Hann veit, að í mörg ár hafa framleiðendur með frjálsum samtökum girt fyrir skattlega samkeppni á markaðinum, þó að þeir teldu sig ekki einfæra að nema á brott alla agnúa. Í því skyni að bæta, en ekki færa úr lagi, voru mjólkurl. flutt á Alþingi fyrir tilstilli Mjólkurbandalags Suðurlands og Mjólkurfélags Reykjavíkur. Tilgangur bænda og kröfur voru, að þeir réðu einir í málinu. Þegar þess er gætt, að bændur báru þannig gæfu til að byggja upp sín samtök, kemur það úr hörðustu átt, er landbrh. talar um bændur sem óvita, er ekki megi trúa til að fara með sjálfra sín mál. Bændur hafa alltaf krafizt þess að fá að stjórna þessum málum sjálfir, en landbrh. daufheyrist við þessum kröfum, en hampar í þess stað framan í þá vilyrði um, að hann ætli sér eftir 1. maí að skipa svo til um yfirstj. þessara mála, að bændur fái þar meiri hl. Hann meinar með því, að bændur muni hafa meiri hl. í mjólkurnefnd, en það þýðir í reyndinni ekki annað en að bændur eigi að lúta í lægra haldi í málinu. Fyrirheit hans er það, að mikill minni hl. bænda skuli með tilstyrk leiguliða, sem landbrh. leigir í þessa n., kúga meiri hl. bænda. Þetta er það lýðræði, sem hæstv. landbrh. sýnir bændum í þessu nauðsynjamáli þeirra.

Ég hefi áður bent hæstv. ráðh. á það, að hann misbeitir karlmannslund sinni og skapi með því að segja: „Meðan ég er ráðh., ræð ég, en ekki bændur.“ Lýðræðisráðh. á ekki í svona máli að taka fram fyrir hendurnar á mönnum, sem eiga lífsframfæri sitt undir því, að málið skipist vel. Það er ekki annað en hreystiyrði hjá hæstv. ráðh., er hann segir: „Meðan ég er ráðh. ræð ég, en ekki bændur“, því það er víst, að sósíalistar ráða yfir honum. Hann beygir sína skoðun og sannfæringu undir vilja sósíalista. Þegar hann neitar að verða við óskum framleiðenda, þá er það ekki vegna þess, að hann vilji það ekki, heldur af því að hann hefir ekki manndóm til að sveigja sósíalista til hlýðni við samvizku sína í málinu. En þegar svo augljóst er sem hér, hvorumegin rétturinn er, þá hlyti sá að verða að vægja, sem á röngu hefir að standa.

Það dylst engum, hve óviðeigandi það var, er jafnaðarmaður einn, fulltrúi neytenda, neytti stöðu sinnar í mjólkursölun. til að úthluta sjálfum sér brauðsölu í flestum búðum bæjarins. Slík misbeiting stöðu sinnar hefði í flestum siðmenningarlöndum varðað brottrekstri þessa manns úr starfinu. Er það vansi Reykvíkingum, að þeir skuli þola slíkt. Og það er allt of mikið flokksofstæki að láta leiðast til fylgis við svo rangt mál. Enn verra er þó til þess að vita, að hæstv. landbrh. skuli selja sjálfan sig undir hina sömu sök. En það hefir hann gert.

Ég hefi heyrt hæstv. landbrh. hampa því, að hann treysti sér til þess að jafna deiluna með því að heimila sölu ógerilsneyddrar mjólkur, en jafnframt lýsti hann því yfir, að hann teldi vafasamt, hvort æskilegt væri að leyfa sölu á slíkri mjólk.

Ég hefi áður bent á, að það virtist vera vaxandi skoðun með menningarþjóðunum, að mest sé undir því komið, að mjólkurframleiðslan fari fram við þau skilyrði, að ekki þurfi gerilsneyðingar við. En það er auðvitað ekki hægt að framleiða alla þá mjólk, sem Reykvíkingar þurfa, við þau skilyrði. En ég ætla að halda mér við það, sem hæstv. ráðh. sagði, að vegna þess, hvað háværar kröfur neytendanna væru, þá væri rétt að verða við þeim, og það væri hægt án þess að breyta l. Ég held nú, að það þurfi hártogana við til þess að skýra l. á þá leið. En það, sem mér þykir undarlegast, er það, að hæstv. ráðh. skuli frekar vilja bæta úr ágöllum l. með því að brjóta þau heldur en með því að breyta þeim. Það verður auðvitað á hans ábyrgð, hvernig hann framkvæmir l. En ég leiði athygli hv. þdm. að því, að þessi skilningur hans á l. mun vera mjög hæpinn, og ef hann vill komast hjá að brjóta l., þá stendur honum opin leið til þess að breyta þeim, og sú leið er a. m. k. miklu viðfelldnari.

Hæstv. ráðh. vék að því í ræðu sinni, að óánægjan með framkvæmd mjólkurlaganna stafaði að undirróðri, en ekki af mistökum. Ég hygg, að hæstv. ráðh. hefði komið eðlilegar fram sem ráðh., svo að ég ekki orði það öðruvísi, ef hann hefði sleppt þessum ummælum. Það er viðurkennt af blaði þess manns, sem notaði tækifæri það, sem hann hafði í mjólkursölunefnd, til þess að sölsa undir sjálfan sig sérstaka hagsmuni, að mjólkursamsalan hafi í upphafi verið í skammarlegu ólagi. Það er ekki neytendunum eða húsmæðrunum að kenna, að tekið var fyrir sölu á ógerilsneyddri mjólk, sem hæstv. ráðh. viðurkennir nú, að sé rétt að láta menn fá. Það er ekki húsmæðrunum að kenna, að svo hagar til, að húsmæðurnar verða að hafa aukið ómak við að kaupa braut, ef þær vilja ekki hlíta því valdboði að styrkja Alþýðubrauðgerðina um leið og þær kaupa mjólkina. Þetta eitt er nóg til þess að hrekja ummæli hæstv. ráðh. um það, að hér sé undirróðri um að kenna. En því má bæta við, að mjólkursölun. hefir komið fram með þeim ruddaskap, að ekkert jafnast á við, annað en heimska hennar. Enginn, sem tekið hefir að sér að selja einhverja vöru, myndi svara á sama hátt óánægju neytendanna eins og mjólkursölunefnd svaraði kröfum húsmæðranna, jafnvel þó þær kröfur, sem fram voru bornar, hefðu ekki haft við rök að styðjast. En nú er játað, jafnvel af sjálfum hæstv. ráðh., að þessar kröfur eigi við rök að styðjast, a. m. k. að svo miklu leyti, sem hann telur ástæðu til þess að verða við höfuðkröfunni, en hún var sú, að seld væri ógerilsneydd mjólk.

Ég hygg, að það sé byggt á misskilningi, að mjólkursölunni hafi verið hagað svo áður en mjólkursamsalan tók við, að það hafi ekki verið nema hinir efnaðri, sem höfð aðstöðu til að fá mjólk lánaða. Ég hygg, að yfirleitt hafi það verið svo, að nær allir neytendur hafi átt kost á að fá mjólkina lánaða, og hygg eg, að það hafi verið svo í reyndinni, að lítill skaði hafi af því orðið. Ég veit a. m. k., að að því er snertir Korpúlfsstaði hefir þeirri reglu verið fylgt, og enginn skaði orðið, svo teljandi sé.

Mér þykir rétt að fara nokkrum orðum um sölu barnamjólkur og samningaumleitanir þær, sem fóru fram milli Sveinbjarnar Högnasonar, formanns mjólkursölun., og mín f. h. Korpúlfsstaðabúsins. Hæstv. ráh. skýrði frá því, að barnamjólk frá Korpúlfsstöðum hefði verið seld áður fyrir 60 aura lítrinn. Hann sagði það ekki, en það mátti þó skilja það á ræðu hans, að það hefði verið óánægjan með verðlækkunina, sem olli því, að Korpúlfsstaðabúið vildi ekki taka að sér sölu á barnamjólk. Sannleikurinn er sá, að sú barnamjólk, sem seld var frá Korpúlfsstöðum, er í engu lík þeirri barnamjólk, sem selja á samkv. reglugerð um sölu mjólkur og rjóma. Sú mjólk var miklu fitumeiri heldur en mjólkin, sem bera má nafnið barnamjólk samkv. reglugerinni um sölu mjólkur og rjóma. Samningarnir fóru að öðru leyti svo fram, að Sveinbjörn Högnason talaði við mig um það, hvort Korpúlfsstaðabúið vildi taka að sér sölu barnamjólkur. Eftir að ég hafði talað vil eiganda Korpúlfsstaðabúsins, fékk hann þau skilaboð, að sú mjólk, sem farið væri fram á, að búið seldi sem barnamjólk samkv. reglugerðinni um sölu mjólkur og rjóma, væri sama mjólkin, sem búið hefði selt undanfarið sem kælda og vélhreinsaða mjólk. Eigandinn sá hinsvegar, að þarna var krafizt umstangs, sem hann taldi ónauðsynlegt, en hafði í för með sér aukinn kostnað, og beiddist eigandinn undan því að leggja á sig þann aukakostnað og þá auknu fyrirhöfn, sem af því leiddi, og eins baðst hann undan því að leggja að óþörfu aukinn kostnað á neytendurna. Hitt er rangt hjá hæstv. ráðh, og er það ekkert undarlegt, þar sem hann hefir það ekki eftir öðrum en Sveinbirni Högnasyni sjálfum, að eigandi búsins eða ég, sem talaði við hann fyrir hönd eigandans, hefði talið, að verðhækkunin við þetta hefði þurft að vera 5-8 aurar á lítra. Það rétta er, að Eyjólfur Jóhannsson, sem kosinn var í mjólkursölunefnd af Mjólkurbúi Korpúlfsstaða og Mjólkurfélagi Reykjavíkur, bar fram á fundi n. þá ósk, að Thor Jensen fengi að selja barnamjólk og honum væri heimilað að hækka verðið um 5 aura á lítra, en hækkunin mætti þó vera minni. Þessi till. var felld með atkv. Sveinbjarnar Högnasonar og Egils í Sigtúnum, sem kröfðust, að hækkunin yrði minnst 5 aurar, og á þessu strönduðu samningarnir. Þetta sýnir, að skilyrðið fyrir því, að Thor Jensen fengi að selja barnamjólk var það, að hann hækkaði verðið, en það vildi Thor Jensen ekki ganga inn á. (PZ: Þetta er rangt. Sveinbjörn Högnason greiddi ekki atkv.). Er samvizka hv. þm. (PZ) orðin svo viðkvæm, að hann getur ekki setið kyrr í sæti sínu? Sveinbjörn Högnason greiddi ekki atkv. Ég tek það trúanlegt, en hvílík dæmalaus ánægja, að geta leiðrétt mishermi með aðstoð framsóknarmanna. Það er svo óvanalegt. - Viðvíkjandi því, hvort eigandi Korpúlfsstaða hafi haft ástæðu til þess að halda, að hann gæti fullnægt ýtrustu kröfum um framleiðslu mjólkur frá heilbrigðinnar sjónarmiði, vil ég segja það að hann hafði, þegar þessir samningar stóðu yfir, vottorð frá Hannesi Jónssyni dýralækni, sem er í mjólkursölunefnd, um það, að mjólkin frá Korpúlfsstöðum væri allt að því bezt í heimi! Þessi vottorð eru prentuð í Morgunblaðinu, og hefi ég lagt á mig að leita að þeim, ef einhverjir skyldu vera, sem ekki hafa lesið þau. Ég vil því, með leyfi hæstv. forseta, taka upp einstaka kafla úr þessum vottorðum. Annað vottorðið er frá 7. ágúst 1934, en hitt frá 17. des. 1933. Fyrra vottorðið er á þessa leið:

„Það vottast hér með, að við nákvæma rannsókn á tuberculinsprautingu, sem ég hefi framkvæmt nú síðstl. vor á öllum kúm frá kúabúum Thor Jensens, í því skyni að ganga úr skugga um það, hvort berklasýklar fyrirfyndust í kúastofninum, kom það í ljós, að allar kýrnar, jafnt eldri sem yngri, voru gersamlega heilbrigðar og lausar við berkla. Hefir rannsókn þessi því leitt í ljós, að kúastofn þessi er hinn ákjósanlegasti til framleiðslu heilnæmrar ungbarnamjólkur og annarar drykkjarmjólkur.“

Hitt vottorð er á þessa leið:

„Ég undirritaður, Hannes Jónsson dýralæknir í Reykjavík, sem um undanfarin ár hefi haft sérstakt eftirlit með kúabúum Thor Jensens, votta hér með, að ætíð hefir verið sérstaklega vel vandað valið til kúastofnsins á búunum og honum ávallt haldið fullkomlega heilbrigðum, enda hefir hann verið undir stöðugu lækniseftirliti og ekkert til þess sparað að halda stofninum sem heilbrigðustum. Um húsakynni kúnna er nú flestum fullkunnugt, og hvergi hérlendis og tæpast erlendis mun vera eins vel til þeirra vandað og á búum Thor Jensens. Sömuleiðis er mér kunnugt um, að öll hirðing og fóðrun skepnanna er í hinu frábærilegasta lagi og hreinlæti hið fullkomnasta, eins og yfirleitt öll umgengni með skepnur og mjólk, enda þar öll hin fullkomnustu tæki til slíks. Öllum þessum atriðum hefi ég veitt nákvæma athygli í hvert skipti, sem ég hefi komið að búunum. Álit mitt er því þetta:

1. Að allur kúastofn sé sérstaklega vel hraustur, enda mikill hluti kúnna fæddur og uppalinn á búunum sjálfum.

2. Að öll meðferð kúnna, bæði hvað snertir hirðingu og fóðrun, sé hin ákjósanlegasta.

3. Að hreinlæti, bæði við mjaltir og alla meðferð mjólkurinnar, fullnægi ströngustu kröfum nútímans.

Að öllu samanlögðu er það sannfæring mín, að sú mjólk, sem framleidd er af kúm Thor Jensens, sé að öllu leyti sú heilnæmasta hrámjólk, sem framleidd verður, og því fullkomlega óhætt að selja hana ógerilsneydda og flytja á loftþéttum flöskum frá mjólkurvinnslustöðinni á Korpúlfsstöðum til neytendanna, eins og gert hefir verið.“

Ef á annað borð nokkurt mark er tekið á þessum manni, - ef þið, sem þekkið hann og eruð flokksmenn hans, takið nokkurt mark á honum, þá verðið þið að virða bóndanum á Korpúlfsstöðum það til vorkunnar, að hann gerði það líka og hélt, að hann með slík vottorð í höndum gæti komizt nærri því að fullnægja kröfum hinna hágöfugu herra í mjólkursölun. Hann hélt, að hann með þessi vottorð í höndum myndi geta fullnægt kröfum þeirrar n., sem átti enga fagþekkingu aðra en þá, sem Hannes Jónsson sat inni með. Ég veit ekki, hvað hann álítur nú en ég held, að hann hljóti að álíta þá menn fávita, sem hann er að eiga við núna, og ég held, að það sé ekki gott að komast hjá því að álíta þetta. Það er líka sönnu nær, að ekkert pólitískt ofstæki hefir gengið lengra en það, að gera með einu pennastriki að engu viðleitni manns til þess að framleiða þessa vöru svo, að hún án gerilsneyðingar fullnægi ýtrustu kröfum neytendanna. Þetta spor aftur á bak úr menningunni yfir í ómenninguna er einn ljótasti votturinn um pólitískt ofstæki á síðari árum, þó að þar sé um auðugan garð að gresja. Ég hygg, að þessi maður hafi haft fullan rétt til þess að segja við þessa spekinga í mjólkursölun., að þeir skyldu ekki heimta af honum verðhækkun á þeirri vöru, sem hann seldi, heldur leyfa honum að selja hana áfram án verðhækkunar, og þess vegna neitaði hann að hækka verðið. Það getur verið, að hann hefði búið betur að eigin hagsmunum, ef hann hefði ekki gert það, en ég er þeirrar trúar, að áður en langt um líður muni hann fá að selja þessa mjólk án gerilsneyðingar.

Ég held, að okkur væri sæmra að leita frekar til umbóta á öðrum sviðum heilbrigðismálanna heldur en að gera slíkar kröfur til meðferðar mjólkur frá heilbrigðinnar sjónarmiði, að við séum þar ólíkir öðrum nágrannaþjóðum okkar. Þið eigið eftir, hv. þm., sem eruð flokksbræður Hannesar Jónssonar, að komast undan þessum vottorðum, annaðhvort með því að gera hann að lítilsigldum manni eða játa ykkar eigin yfirsjónir, því aðrar útgöngudyr eigið þið ekki.

Þá held ég, að hæstv. ráðh. hafi dálítið ýkt, þegar hann segist ekki hafa snúið út úr ummælum mínum um „stassaniseringu“ mjólkur. Ég sagði, að það væri mín skoðun, að það væri of mikið úr því gert, hvað mjólkin missti mikils í við gerilsneyðingu. Ég hygg hinsvegar, að ef mjólkin er framleidd við þau skilyrði, sem heilbrigðissjónarmiðið krefur, þá sé það kostur að þurfa ekki að gerilsneyða hana. Ég viðurkenni, að einhver aukin sjúkdómshætta fylgi ógerilsneyddri mjólk fram yfir stassaniseraða, en ég með hana minna en það, sem missist við stassaniseringuna, ef um alla hnúta er búið samkv. ströngustu heilbrigðiskröfum.

Ef hæstv. ráðh. telur slíka sýkingarhættu samfara sölu ógerilsneyddrar mjólkur, eins og hann vildi láta skína í, þá vil ég spyrja hann að því, hvernig hann geti varið það fyrir samvizku sinni, að hann er að hampa því framan í okkur, að hann ætli að gera ráðstafanir til þess að tryggja það, að slík vara sé á boðstólum. Ef hæstv. ráðh. teldi sýkingarhættuna svo mikla sem hann vill nú láta skína í, þá væri það ekki nema rökrétt afleiðing af því, að láta ekki selja aðra mjólk en stassaniseraða mjólk.

Hitt er ekki útúrsnúningur, heldur það, sem hæstv. ráðh. sagði, að um leið og hann var að tala um hættuna, sem stafað gæti af sölu ógerilsneyddrar mjólkur, var hann að tala um, að sjúklingar þyrftu að fá ógerilsneydda mjólk, rétt eins og þeir menn væru ódauðlegir, af því að þeir væru veikir. Ég hélt nú satt að segja, að það yrði að fara varlegar með sjúka menn heldur en heilbrigða. En annaðhvort er, að hæstv. ráðh. er kaldlyndari en ég gagnvart þessum mönnum, eða honum hefir fatazt rökvísin í þessum efnum, og undrar mig það ekki, því það er engum hent að verja málstað, sem hann veit, að er vondur og hann trúir því ekki á sjálfur.

Það var ekki margt í hinni löngu ræðu hv. 1. landsk., sem ég sé ástæðu til þess að svara. Þó vil ég víkja að því, að hann skyggndist ekki nægilega djúpt, þegar hann lézt undrast, að deilt hefði verið á umboðsmenn framleiðendanna, þá Svb. Högnason og Egil í Sigtúnum, umfram umboðsmenn neytendanna. Þetta er nú ekki að öllu leyti rétt, því að það hefir líka verið deilt á Guðmund R. Oddsson, og það að maklegleikum, og satt, að það væri óviðfelldið að sjá hans hægri hönd rétta upp gegn öllu velsæmi, en það gerðist, þegar hann greiddi sjálfur atkv. með því, að hann fengi sérréttindi sínu eigin fyrirtæki til framdráttar. Að fremur skuli hafa verið deilt á umboðsmenn framleiðendanna er vegna þess, að þeir, sem á þá hafa deilt, hafa deilt fyrir hönd bænda og framleiðenda, og þeim þykir það af öllu verst, að sá skuli höggva, sem hlífa skyldi. Þeim þykir það verst, að sjá umboðsmenn bændanna ljá lið sitt til þess að drepa niður þeirra eigin hagsmuni. Fyrir þetta hefir verið á þá deilt, og kannske líka vegna þess, að þótt þeir þyki ekki nein stórmenni, þá mun samt þykja meiri slægur í þeim en Guðm. R. Oddssyni.

Ég ætla ekki að svara hnjóðsyrðum þeim, sem hann lét falla í garð húsmæðra bæjarins, enda hefi ég gert það með mörgu af því, sem ég þegar hefi sagt. Ég hefi fært rök að því, að það voru ekki neytendurnir, heldur meiri hl. mjólkursölunefndar, sem ollu deilunni.

Ég get þakkað hv. þm. fyrir hönd Maríu Maack, þar sem hann kallaði hana gunnreifa valkyrju. Ég get sagt það, að ég hefi oft kosið, að hún væri í brynju, en hv. 1. landsk. í pilsi, því það myndi hafa betur notazt að hæfileikum hans við kvennastörf en karla. Hyggist þessi hv. þm. að deila á húsmæður í Reykjavík fyrir það, að þær hafi ekki borið fram neinar kröfur um verðlækkun á mjólk f. h. neytenda og álasa þeim fyrir það, þá vil ég minna á, að neytendafél. hefir lýst yfir, að það telji, að húsmaður verði að líta með allri sanngirni á hagsmuni bænda, sem að framleiðslunni standa. Þær vilja líta með þeirri sanngirni á málefni bændanna, að bera ekki fram kröfur um lækkun á mjólkurverði fyrr en bændur hafi borið það úr býtum, að það nægi þeim til lífsframfæris. Mér þykir álasið koma úr hörðustu átt, að það komi frá flokksbróður þess manns, hv. 9. landsk. (SE), sem fyrstur rak upp kveinstafi um neyð framleiðenda vegna hins lága mjólkurverðs, þeim manni, sem fyrstur lofaði og lagði við manndóm sinn og mannvit, að mjólkurverðið skyldi hækka til framleiðenda en lækka til neytenda, en þó auðvitað fyrstur rann frá sínum stóru loforðum.

Skal ég svo ekki hafa þessi orð mín fleiri, en að lokum segja það, að mig undrar ákaflega mikið öll framkoma hæstv. landbrh. í þessu máli. Ég kenni þessa framkomu hans ofurkappi annarsvegar og hinsvegar talhlýðni við sósíalista, umfram það, sem mér hefði þótt honum sæma. Með þessari framkomu sinni hindrar hann árangur þess lofsamlega tilgangs, sem fólst í mjólkurlögunum. Hann svarar með steyttum hnefa sameiginlegum óskum neytenda og framleiðenda. Og ætíð endar tal hans með hreystiorðum á þessa leið: „Meðan ég er ráðh., ræð ég. Ég ætla að standa og falla með mjólkursölulögunum.“ - Það getur vel verið, að hann komi standandi út úr þessum hildarleik. En ég veit ekki nema honum hafi þá tekizt að leggja að velli einhverja bændur. Og það hélt ég, að landbrh. ætti á hverjum tíma að forðast.

Ég hefi reynt í umr. mínum um þetta mál á þingi að haga orðum mínum þannig, að menn þyrftu ekki vegna minna ummæla að fyllast ofurkappi. Ég er vondaufur um, að viðleitni mín til sátta beri árangur. En ég lofa því, ef ekki þýða neitt sáttatilboð í þessu máli, að þá verði hlutur þeirra, sem níðast á bændum, ekki betri á eftir.