27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í C-deild Alþingistíðinda. (3555)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Það er naumast, að aumingja framleiðendurnir og neytendurnir að þessari vöru eru fallnir í hendur pólitískra manna, einkum sósíalistanna. Það eru vitanlega fjöldamargir, bæði framleiðendur og neytendur, sem óska breytinga, og þá sérstaklega um framkvæmdir. En forráðamenn þessara aðilja beggja halda rétti beggja og svara nei við öllum kröfum, sem koma fram um bætt skipulag. Þetta mál ber öll merki svörtustu einokunar. Skal ég benda á nokkur atriði, sem sýna einokun eins og henni er verst lýst. Það er algild regla, sem menn eru sammála um, að hver vörutegund selst því meir, sem fleiri hafa hana á boðstólum og því meira sem ber á henni. Sama gildir auðvitað um mjólkina, að hún mundi seljast því meir, sem hún væri seld víðar og þægilegra væri að ná í hana. En hvað segja svo þeir pólitísku menn um þetta? Þeir segja nei, og aftur nei. Þessar kröfur eru svar neytenda. Eitt atriðið er mjög eftirtektarvert. Neytendur biðja um fleiri tegundir þessarar vöru. Sumir vilja spenvolga nýmjólk, en aðrir vilja ógerilsneydda mjólk, kaldhreinsaða, vegna þess að það er betra að geyma hana. Þetta voru vitanlega ofur eðlilegar kröfur, en þeim var samt svarað algerlega neitandi. Þeim, sem geta selt spenvolga nýmjólk, er gert eins óhægt fyrir með þessari reglugerð og unnt er - þessari reglugerð, sem er svo vitlaus, að það er engu líkara en að hún hafi verið samin fyrir „Spegilinn“. Ein ósk neytenda var sú, að sú venja mætti haldast, sem áður var algeng, að heimilin í bænum gætu fengið keyptar þær brauðtegundir í mjólkurbúðunum, sem þau áður voru vön að kaupa. Þetta er ef til vill ekki gott að sameina í öllum bútunum, en vissulega má þó koma á móti kaupendunum í þessu efni. Þessari ósk neytenda var einnig neitað. Svarið var: „Ef þið viljið kaupa brauð, þá gerið svo vel að kaupa þær tegundir, sem samsalan vill selja ykkur.“ Ef þetta er ekki einkenni hinnar verstu einokunar, þá veit ég ekki, hver þau eru.

Ein óskin var, að menn gætu komizt að hagkvæmum kjörum um greiðslu á andvirði mjólkurinnar til samsölunnar. Að sjálfsögðu þarf vart að taka það fram, að enginn hefir farið fram á það, að samsalan veiti óskilvísum kaupendum gjaldfrest. Það hefir verið venja, að verzlanir hér í bæ og víðar á landinu veittu gjaldfrest á vörukaupum, enda þótt hv. 1. landsk. lýsti því með miklum fjálgleik, að slíkt ætti sér yfirleitt hvergi stað erlendis. Ég leyfi mér að efast um, að hv. þm. hafi smogið í gegnum hverja mjólkursölubúð erlendis, og þess vegna er mér næst að ætla, að hv. þm. hafi hreint ekki vitað, hvað hann var að segja, heldur sagt það hugsunarlaust, beint út í loftið. Þessari ósk var vitanlega neitað. Svörin voru þessi: „Ætlist þið til þess, að bændur ausi fé í þá, sem ekki borga?“

Eitt einkenni enn á einkasölu er það, að verðið hækkar venjulega frá því, sem það áður var. Það á einnig heima í þessu tilfelli. Nú þykir það ekki kostur á fyrirkomulagi fyrirtækis, að verðið hækki, án þess að eitthvað komi til greina, sem vegið getur upp á móti. Hvað kom á móti? Ekkert nema aukin óþægindi. Allir ókostir einokunar komu í staðinn. Einkennilegast af öllu þessu fargani er þó það, að þeir, sem fyrir þessu standa, byrjuðu með því að halda því fram, hve skaðleg ógerilsneydd mjólk gæti verið, og menn mættu því vara sig á því að kaupa hana, hún væri slíkur eiturvökvi, að menn skyldu ekki kaupa hana án þess að hún hefði gengið í gegnum hendur samsölunnar. Þetta var ekki gert af því, að þeir, sem fyrir þessu standa, hafi svo mikinn áhuga fyrir því, að ekki sé seld heilsuspillandi mjólk, heldur var þetta ein aðferðin til þess að hræða bæjarbúa frá því að kaupa aðra mjólk en þá, sem samsölunni þóknaðist.

Ég las einu sinni grein í ensku blaði, sem ég undraðist. Hún var eftir lækni og prentuð í víðlesnu blaði. Þar er því m. a. haldið fram, að enginn ætti að láta mjólk koma inn fyrir sínar varir, því að mjólkin væri fyrst og fremst alls ekki ætluð mönnum, því að þeim væri ætlað að drekka móðurmjólkina; þetta mjólkurþamb væri eitt af því, sem væri að drepa fólkið. Þetta er vitanlega tóm fjarstæða. Því var líka haldið fram af vissum flokki manna, að það væri fjarstæða að gefa mönnum meðul, sem gerð væru úr vessum úr líkömum dýra, t. d. serum. Þessi enski læknir kvað það vera eins um mjólkina. Líkt og þessum lækni fórst forráðamönnum þessarar samsölu í upphafi. Ég minnist ræðu, sem sr. Sveinbjörn Högnason hélt á fyrsta fundi Húsmæðrafélagsins í Nýja bíó. Hann fór um það mörgum orðum, hvílíkan óþverra Reykvíkingar legðu sér til munns. Hann kvaðst hafa farið í fjós bæði utanbæjar og innan, en aldrei hafa séð annan eins viðbjóð og mjólkina. Þetta var eingöngu gert í því skyni að hræða Reykvíkinga frá því að kaupa aðra mjólk en „stassaniseraða“ eða „pasteuriseraða“ mjólk frá samsölunni. Til þess að þvinga Reykvíkinga gersamlega undir vald þessarar einokunar, sem er ekkert annað en ofbeldi, bæði í garð framleiðenda og neytenda, er svo látið líta svo út, sem hér sé verið að vinna bæði fyrir framleiðendur og neytendur! Svo er fenginn læknir til þess að lýsa yfir því, að það sé blátt áfram hreinn voði að kaupa nokkuð annað en mjólk, sem hefir verið soðin upp í 80°. Við vitum vel, að læknar eru mestu „humbugistar“ í þessum efnum. Það sýnir dæmið um enska lækninn, sem ég minntist á rétt áðan, m. a. mjög ljóslega. Svo taka umboðsmenn framleiðendanna upp þetta bull her, að mjólkin sé ódrekkandi ópastcuriseruð. Þetta er fyrst og fremst gert til þess að þvinga alla þá menn, sem sent hafa mjólk til bæjarins, undir ok ofbeldisins, sem er mjólkursamsalan í þessu tilfelli. Að öðru leyti er þetta gert til þess að hræða Reykvíkinga frá viðskiptum við aðra en samsöluna.

Hv. 2. þm. N.- M. sagði, að bæjarstj. Rvíkur hefði ekki verið trúandi til þess að setja reglugerð um meðferð og sölu mjólkur. Þegar þessi hv. þm. leitar að einhverjum til þess að gera óþarfar og vitlausar kröfur, þá er eðlilegt, að hann leiti til þeirra, því að honum finnst það vera verkefni þeirra bæjarstjórnarmeðlima að setja alla þá þvingun, sem hugsanleg er í þessu efni, á allt fyrirkomulagið viðvíkjandi mjólkursölunni. Slík hugmynd hv. þm. um verkefni bæjarstj. Rvíkur er vitanlega byggð á eintómum misskilningi og þekkingarskorti á eðli starfsaðferða bæjarstjórnarinnar.

Það mætti taka margt til athugunar í ræðum þeirra hv. þm., sem mælt hafa gegn því, að þessar till., sem hér liggja fyrir til lagfæringar á þessari mjólkursölu, nái fram að ganga. Sumpart hafa aðrir hv. þm. svarað þessu og sumpart finnst mér það geta legið á milli hluta. Samt vil ég segja það við hv. 2. þm. N.-M., að hann þurfti ekki að ómaka sig með því að reyna að leiðrétta það, sem ég hafði sagt hér áður um aðstöðu framleiðenda hér í Rvík í þessu máli. Ég fór með rétt mál, en hann með rangt. Ég hafði sagt, að þeir, sem óskuðu eftir að fá að selja sína mjólk utan mjólkursamsölunnar, yrðu að borga verðjöfnunargjald, og ég sagði einnig, að þeir, sem sendu sína mjólk í samsöluna, yrðu líka að greiða verðjöfnunargjald, að því undanteknu, að 1 ha. væri notaður til framleiðslu á fóðri handa hverri kú. Þetta þurfti hv. þm. ekki að reyna að leiðrétta, því að það er rétt. Hann sagði aftur á móti, að þeir, sem legðu mjólk inn í samsöluna, væru undanþegnir verðjöfnunargjaldi. Það er rangt. Þeir eru skyldugir til þess að greiða verðjöfnunargjald, en þeir fá undanþágu á greiðslu verðjöfnunargjalds fyrir mjólk, sem framleidd er á ræktuðu landi, þannig að 1 ha. af ræktuðu landi er ætlaður til fóðurframleiðslu fyrir hverja kú.

Mig langar líka til þess að segja fáein orð við hæstv. forsrh. mér finnst furðulegt, að hann skuli leitast við að láta líta svo út, sem hér sé ekkert merkilegt á ferðinni, þótt menn séu óánægðir vegna framkvæmdar þessara laga. Hann sagði, að þetta væri ekkert merkilegt, vegna þess að menn væru alstaðar erlendis óánægðir með þetta. Ég held ég þekki þetta frá útlöndum, sagði hann. Þetta er algild regla. - En er þessi óánægja hér í sambandi við þessi lög ekki jafnsjálfsögð fyrir það? Hæstv. ráðh. nefndi reyndar ekki, hvað menn erlendis væru óánægðir með í þessu efni. En ætli það sé ekki eitthvað svipað og hér á sér stað.

Mér var það einnig undrunarefni, að hæstv. ráðh. skyldi leggja áherzlu á það, að allt það, sem ábótavant væri í þessu efni, mætti lagfæra með lögunum sjálfum eins og þau eru. Hvers vegna hefir þessu þá ekki verið kippt í lag? - Hæstv. ráðh. segir: „Ég skal laga þetta!“ Hvers vegna hefir þetta ekki verið lagað fyrr en komið hefir fram frv. í þinginu, og þingið fyrirskipar, að það skuli lagfært? Hvers vegna segir hæstv. ráðh., þegar till. kemur fram um breyt. á þessum lögum, að þetta megi lagfæra án þess að ný lög þurfi að koma til?

Ég hefi ekki trú á því, að hæstv. ráðh. sé að hugsa um að slá sér upp á því að segja frá því, að framleiðendur utan Rvíkur hafi fengið 26 aura fyrir hvern lítra mjólkur í stað 24,4 aur. fyrir hvern lítra áður en samsalan tók til starfa, og framleiðendur í Rvík, sem ekki borga verðjöfnunargjald, fái 29 aura. Þetta lýsir engu, nema til komi miklu frekari upplýsingar. Það er t. d. hægt að setja fram þá spurningu, hvort þetta fé er greitt með þeim peningum, sem samsalan hefir vegna þess, að hún borgar ekki allt út jafnóðum. Getur hún greitt 26-29 aur. með því fé, sem lagt var út í gær t. d.? Samsalan hefir um 100 þús. kr. af fé framleiðenda, sem hún þarf ekki að greiða strax. Hve mikið af þeim peningum gengur til þess að geta greitt 26-29 aur.? Ef það skyldi nú hafa verið tekið lán? Þannig vakna ótal spurningar í þessu sambandi, sem svara þarf, áður en þessar upplýsingar hæstv. ráðh. gefa nokkra meiningu. Mér finnst rangt að slá slíku fram án þess að gefa svo fyllilegar upplýsingar, að hver maður geti séð, hvað það þýðir. Af sjálfum tölunum verður lítið séð.

Þá vil ég leyfa mér að spyrja hv. þdm., hvort þeim þyki líklegt og heppilegt, að jafnmikið ofurkapp verði lagt á að „skipuleggja“ og gert hefir verið upp á síðkastið Reykjavík fiskar ekki allan sinn neyzlufisk sjálf. Hér í bæ er seldur fiskur, sem sumpart er veiddur af bæjarmönnum sjálfum, en sumpart er aðfluttur, t. d. frá Grindavík, Keflavík, Sandgerði, Ólafsvík, Stykkishólmi og jafnvel frá Húnaflóa. Hugsum okkur nú, að skipuleggja ætti þessa fisksölu, og Reykvíkingar, sem draga bein úr sjó, yrðu skattlagðir með allt að 10% af verði aflans til þess að borga Snæfellingum, Húnvetningum og Reykjanesbúum, til þess að jafna verðið. Það vill nú svo undarlega til, að það er að mörgu leyti svipað ástatt um nýjan fisk og mjólk. Þær vörutegundir líkjast talsvert að eðlisfari í sumu tilliti. Þannig er nýr fiskur og ný mjólk sérstakar vörutegundir, þó að það þurfi að geyma þær og breyta þeim í aðrar vörutegundir. Mjólkinni er t. d. breytt í skyr, smjör og osta, eins og kunnugt er, en fiskinum er breytt í harðfisk eða saltfisk. Þessum vörutegundum er báðum þannig farið, að fyrir þær fæst hæst verð, ef þær seljast nýjar, hærra verð heldur en ef þær eru gerðar markaðshæf vara fyrir erlendan markað.

Á þessu, sem nú var nefnt, sést það, að þessar tvær vörutegundir - nýr fiskur og ný mjólk eru að mörgu leyti eðlislíkar vörutegundir. Skyldi nokkrum detta í hug, að hæstv. ríkisstj. færi nú að skipuleggja þessa fisksölu? Skyldi nokkrum koma til hugar, að byrjað yrði á því að skattleggja fátæka reykvíska sjómenn með 10% skatti á verðmæti aflans, til þess að greiða það svo öðrum sjómönnum á Reykjanesi, Snæfellsnesi og við Húnaflóa? Mundu Reykvíkingar sætta sig við það, að þessi fisksala væri lögð í sömu viðjar og mjólkursalan? Mundu menn sætta sig við það, að þeim yrði t. d. bannað að fara með fisk eftir götum bæjarins til sölu? Ætli sósíalistar í hv. deild - sem nú eru háttaðir og sofnaðir út frá þessum umr., sökum þess að þeir eru áhugasamari en sjálfir framleiðendurnir um það að gera enga breytingu á mjólkurlögunum - ætli þeir vildu beita sjómenn í Rvík svo lúalegum fantabrögðum, að koma því til vegar, að þeir yrðu skattlagðir til þess að borga vinnu annara sjómanna alla leið frá Húnaflóa og að Atlantshafsströnd Suðurlands? Ég held ekki.

Þetta, sem nú var drepið á, er aðeins smáspegilmynd af því, sem nú er verið að gera í mjólkurmálinu. Mönnum þykir þetta e. t. v. eðlilegt, vegna þess að ár eftir ár heyrist sami söngurinn um það, að Reykvíkingar verði að leggja bændum svo mikið til sem með nokkru móti sé unnt að pína út úr neytendum í Reykjavík handa þeim. Og ekki nóg með það, heldur verður sjálft ríkisvaldið að hlaupa undir bagga með þeim og láta ríkissjóð styrkja þá mestum því til allra framkvæmda, sem þeir þurfa að inna af höndum. Sjómenn eiga ekki slíkri umhyggju að venjast, nema ef nefna skyldi löggjöfina um kreppuhjálp fyrir smábátaútveginn til þess að leggja stærri ritgerðina í rústir. Þessi mynd, sem brugðið hefir verið upp, ætti að geta sýnt hv. þdm., að það, sem verið er hér að gera í þessu mjólkurmáli, er allt óeðlilegt, og að það er vafasamt, hvort það verður nokkrum að gagni. Það er afturför fyrir alla - bæði framleiðendur og neytendur -, að gerð skuli vera tilraun til þess að draga úr því, sem er brýn þörf fyrir alla framleiðendur, og ekki sízt fyrir neytendur, að hægt sé að reka framleiðsluna á sem ódýrastan, „praktiskastan“ og heppilegastan hitt. Það er verið að draga úr þessari þörf. Það er verið að gera alla jafna í þessu efni - skussana og þá duglegu.