01.11.1935
Neðri deild: 62. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í C-deild Alþingistíðinda. (3636)

151. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Flm. þessa máls, hv. þm. G.-K., lét þau orð falla, að sjálfsagt væri að afnema útflutningsgjald af sjávarafurðum, því að búið væri að afnema útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum. Ég hefi þá skoðun, að hér sé um ólíkar kringumstæður að ræða. Ég vil vekja athygli n., sem fær þetta mál til meðferðar, á því, að til þess að framleiða landbúnaðarafurðir þarf sá, sem það gerir, að eiga land eða hafa afnotarétt af því. En af því leiðir, að hann þarf að borga vexti af höfuðstól, eftir því hve landið er talið mikils virði. Sjórinn er aftur á móti sameign allra, þó að vísu það kapital, sem úr honum fæst, komi í hendur þeirra, sem hann nytja. Það gjald, sem borgað er í ríkissjóð sem útflutningsgjald af sjávarafurðum, skoða ég sem afgjald til allra landsmanna í heild, fyrir afnot, sem allir eiga rétt til, en sumir þegnar nota; það er svipað og upprekstrargjald í hrepp fyrir land, sem allir eiga sameiginlega, en þeir borga svo leigu af, sem nota. Nú má deila um, hve sjórinn sé mikils virði og hve hátt þetta gjald eigi að vera. En það hygg ég, að allir séu sammála um, að hann sé mikils virði. (PO: Þá ættum við að fá afnotagjöld frá Englendingum og Frökkum, sem hér veiða). Telur hv. þm. sjóinn kringum landið ekki okkar eign, og ekki verðmikinn?