18.12.1935
Neðri deild: 102. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (3642)

151. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Þetta mál, sem er eitt hið mesta réttlætis- og áhugamál sjávarútvegsins, hefir nú verið sótt hér gegn stj., en þó sýnir hún þessu máli það tómlæti og þá óvirðingu, að enginn ráðh. er viðstaddur, þegar það er rætt. Sú svívirðing, sem stj. reynir að sýna sjávarútveginum með þessu, staðfestir þann orðróm, að henni sé ekki sárt um, þótt markaðir tapist í Suðurlöndum, og einstakir menn henni nákomnir hafi róið að því öllum árum að eyðileggja beztu markaði okkar þar. Ég vona, að stj. frétti þetta eftir mér, og hún á eftir að heyra það víðar að. Ég þarf ekki að endurtaka það, sem áður hefir verið margsagt og sannað, að það er útvegurinn, sem hefir haldið uppi fjárhag og menningu landsins síðustu áratugi og lagt allt það fram, sem varið hefir verið til efnalegra og andlegra framfara í landinu. Það eru því athafnamennirnir á því sviði, sem borið hafa ljós í hús þjóðarinnar. Því er það furða að mæta slíkum ofsa og fjandskap sem raun er á af hálfu stjórnarflokkanna í garð sjávarútvegsins. En víst er, að sá kuldi, er sjávarútvegurinn hefir kennt frá framsóknar- og jafnaðarmönnum, stafar ekki af því, að þessi atvinnuvegur hafi bakað þjóðfélaginu tjón, heldur af hatri á einstökum mönnum, sem að honum standa, og af hatri á því einkarekstrarfyrirkomulagi, sem hann hefir verið rekinn með.

En þrátt fyrir allt það, sem þessi atvinnuvegur hefir lagt og leggur beint af mörkum, er hitt þó enn meira, sem hann leggur óbeint af mörkum til ríkis og einstaklinga. Það eru þessi óbeinu framlög, sem ber fyrst og fremst að vernda, en til þess verður að létta af hinum beinu gjöldum, eins og útflutningsgjaldinu.

Þetta gjald var upphaflega lagt á sem gróðaskattur, en ekki með þeim rökum, að rétt væri að leggja skatta á framleiðsluvörur til útflutnings. Það er kunnugt, að um tíma varð allmikill hagnaður á rekstrinum, en hitt er líka á allra vitorði, að sá gróði hefir nú í mörg ár samfleytt snúizt upp í verulegt tap, svo að hver peningur, sem græddist á góðu árunum, er nú tapaður, og líka það fé, sem útgerðarmenn hafa aflað með öðru móti. Enda hefi ég engan heyrt halda því fram, að neitt annað réttlæti þennan skatt en fjárþörf ríkissjóðs. En í almennum viðskiptum þýðir ekki að segja: Ég þarf peninga og þess vegna verður þú að borga þá. Það er stj. ein, sem beitir þessari reglu gagnvart sjávarútveginum. - Því hefir verið haldið fram með réttu, að ef ríkissjóður missi tekjur sínar af útflutningsgjaldinu, verði hann annaðhvort að lækka útgjöld sín eða fá tekjur í staðinn. En eins og kunnugt er, lætur stj. sér ekki til hugar koma að draga úr neinum gjöldum, og því hefir sífellt klingt í eyrum okkar, sem heimtum afnám gjaldsins, að við verðum að sjá fyrir tekjum í staðinn. Ég hefi nú áður margsinnis sýnt fram á það, hvílík firra þetta er og þvertré í höfðum þeirra manna, er halda þessu fram. Það er stj. að þessu þingi loknu bætt við 31/2 millj. kr. fyrir tekjum. En það er hlutverk sjútvn. að gæta hagsmuna sjávarútvegsins, en ekki að mala gull í ríkissjóðinn. Um fjáröflun ríkissjóðs kemur til kasta atkvæðis hvers þm. gagnvart tillögum stjórnarinnar. Þrátt fyrir þetta hafa flm. þessa frv. boðizt til að sjá fyrir tekjum í staðinn, ef ekki eru hlaupin gönuhlaup í eyðslu. En nú hefir stj. að þessu þingi loknu bætt við 31/2 millj. kr. álögum á einu ári, og svo segir hún, að sjútvn. sé skyldug til að sjá fyrir tekjum, sem vegi á móti útflutningsgjaldinu, ef það verði afnumið! Á síðasta stigi málsins er komið með hækkunartill., sem nema um 350 þús. kr. í ríkissjóð, ef þær verða samþ. Þetta er svipuð upphæð og útflutningsgjaldið nemur. Mér skilst því, að stj. þurfi ekki að leita til sjútvn. til þess að láta hana benda sér á leiðir til fjáröflunar.

Ég veit vel, að þetta mál kemst ekki gegnum þingið að þessu sinni, enda hefir mér skilizt, að stj. og þjónustufólk hennar sé alráðið í því að leggja það niður við trogið og slátra því. En það mega þeir herrar vita, að ofríki þeirra mun ekki eiga sér langan aldur, og áður en langt um líður verða þeir kallaðir til reikningsskapar fyrir framkomu sína í þessu máli og fjandskap sinn gegn sjávarútveginum fyrr og síðar. Og af því að nú er ekki lengur hægt að selja fisk án ríkjasamninga og stj. hefir núið andstæðingunt sínum því um nasir, að þeir hafi vanrækt að afla markaða, verða þeir áreiðanlega spurðir að því, hvað þeir hafa gert til þess að afla markaða á Spáni og Ítalíu. Það mega þeir vera vissir um.

Ég veit, að það er ætlun meiri hl. sjútvn. að humma þetta mál fram af sér með því að þegja. Meiri hl. hefir ekki gefið út neitt álit, heldur hefir hann tekið það sama ráð og stj., að enda mótstöðu sína gegn málinu með því að sýna því fulla fyrirlitningu. En þeir skulu þó ekki halda, að sóknin verði látin niður falla. Þetta mál verður flutt á næsta þingi, og þótt nú sé komið illa fyrir sjávarútveginum, býst ég því miður við því, að þá verði hag hans enn verr komið, þrátt fyrir alla einlægni( !) stj. í þá átt að afla markaðar í markaðslöndunum.