20.12.1935
Neðri deild: 104. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (3648)

151. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Jakob Möller [óyfirl.]:

Það er einstaklega broslegur rökstuðningurinn á þessari dagskrártill., sem hér er borin fram. Þetta frv. kom fram í þingbyrjun, en er nú til 2. umr., svo að það hefir verið hægagangur á afgreiðslu þess. Nú er væntanlega komið að þinglokum, og því var þess varla að vænta, að fjvn. gæti gert till. sínar viðvíkjandi breyt. á fjárl. með hliðsjón af því, að þetta frv. yrði samþ. Náttúrlega gat það ekki komið til mála fyrr en vitað var nokkurn veginn með vissu, eða a. m. k. að líkur sýndust vera til þess, að þetta frv. yrði samþ. En það vita allir að til þess voru sáralitlar líkur þegar í upphafi, m. a. vegna þess, að það var aðeins minni hl. sjútvn., sem mælti með, að frv. yrði samþ., en meiri hl., þ. e. a. s. fulltrúar stjórnarflokkanna í n., fékkst ekki til að leggja því liðsyrði. Ég hygg, að þeir hafi ekki komið fram með nein opinber andmæli gegn frv., en af því, hvernig þeir tóku í málið, voru litlar líkur til þess, að það næði fram að ganga á þessu þingi. Þess vegna var, eins og ég sagði, engin von til þess, að fjvn. gerði till. sínar við fjárl. þannig, að gert væri ráð fyrir því, að þetta frv. væri samþ. Hinsvegar er engan veginn ómögulegt eða ógerningur að samþ. þetta frv. af þessum ástæðum, fyrst og fremst af því, að ef vilji væri til þess, væri möguleiki til þess enn, þar sem 3. umr. fjárl. er ekki afstaðin, að gera þær breyt. á fjárlfrv., sem gerði það kleift að samþ. þetta frv.

Í annan stað er það vitanlegt, að þing verður háð snemma á næsta ári, og það þing á að hefjast eftir tæpa tvo mánuði, og væri þá einnig, þó að þetta frv. væri samþ., en ekki séð fyrir tekjuöflun í stað þeirra tekna, sem þar væru niður felldar, tími til þess að bæta úr því á því væntanlega þingi næsta árs. Rökstuðningur þessarar dagskrártill. er því alveg út í loftið og fullnægir alls ekki þeirri kröfu, sem til slíks rökstuðnings ber að gera.

Hinsvegar vil ég minna á það, að með nýjum sköttum og tollum hefir síðasta þing og það yfirstandandi þing verið að afla svo mikilla tekjuöflunarmöguleika fyrir stj., að það er mörgum sinnum sú upphæð, sem útflutningsgjaldið gefur, sem aflað er með þeim tekjuaukal., og m. a. ættu menn að láta sér skiljast það, að þótt því sé borið við, að miklu af þessum tekjum eigi að verja til þess að ráða bót á yfirvofandi atvinnuleysisvandræðum hér á landi, þá er það lítt skiljanlegt, að nokkur þm. geti ekki látið sér skiljast það, að það er ekki hægt að gera neinar ráðstafanir til þess að bæta úr þeim vandræðum, sem nokkrar líkur eru til, að gætu náð þeim tilgangi eins vel, hvað þá betur heldur en ef létt væri undir með atvinnurekstrinum í landinu og almenningur þannig studdur til þess að fá meiri atvinnu en ella væri kostur á. Það er eiginlega alveg óskiljanleg afstaða hjá stjórnarflokkunum, þegar þeir leggjast af öllum mætti á móti því, að á nokkurn hátt sé létt byrðum af þessum aðalatvinnuvegi landsmanna, sjávarútgerðinni, þótt ekki væri til annars en að auka atvinnuna í landinu, því að það er augljóst, að því meira sem þrengt er að honum, því slælegar verður hann rekinn og því stopulli verður hann og því meira verður atvinnuleysið, og það atvinnuleysi, sem skapast af því, að þessi atvinnurekstur er ekki rekinn með eins miklum krafti og unnt væri, er miklu meira en hægt er að bæta úr með þeim ráðstöfunum, sem hægt er að koma á í framkvæmdum fyrir afskipti stjórnarflokkanna. Það er atvinnnubótavinna og ýms önnur vinna í landinu, sem ráðgert er að auka eða halda uppi til þess að bæta úr brýnustu þörfum manna, sem atvinnulausir verða vegna vanmættis atvinnuveganna.

En það er önnur hlið á þessu máli, sem mér virðist líka nokkuð þýðingarmikil, en ég efast um, að stjórnarflokkarnir hafi gert sér grein fyrir eins og vert er. Mér virðist, að þessi skattheimta af atvinnuvegi, sem hefir verið og er rekinn með stöðugu tapi í heildinni, hvað sem liður einstökum fyrirtækjum, sem enn kunna að berjast í bökkum, sé alláþekk fjárglæfrum í rekstri einstakra manna. Það er vitað, að sjávarútvegurinn er rekinn á þann hátt, að það er aðallega á kostnað lánveitenda, sem leggja fé fram til rekstrarins. Og svo eru atvinnurekendur neyddir til að taka af því lánsfé, sem þeir starfa með og geta ekki endurgreitt, svo og svo mikinn skerf til þess að leggja í ríkissjóð. Það er náttúrlega enginn vafi á því, að önnur eins meðferð á lánsfé í verzlun einstakra manna mundi tvímælalaust varða við ákvæði hegningarlaganna. Hinsvegar má gera ráð fyrir, að svo verði lítið á, að ákvæði hinna almennu hegningarlaga nái ekki að þessu leyti til þings eða stjórnar, og einstaklingar, sem þannig er gengið yfir, eru náttúrlega sýknir saka, því að þeir eiga við ofurefli að etja, þannig, að það, sem er ósæmilegt í þessu, og í raun og veru alveg hliðstætt við hegningarvert athæfi einstaklinganna, það er algerlega á ábyrgð þings og stj., eða þeirra ráðandi flokka, sem gangast fyrir að halda uppi slíkri skattrúningu á atvinnu, sem algerlega er rekin fyrir lánsfé.

Það er vitanlegt, að atvinnurekstur í þessari atvinnugrein aflar sér lánsfjár bæði hjá einstaklingum og opinberum lánsstofnunum, og hinar innlendu opinberu lánsstofnanir afla sér hinsvegar lánsfjár hjá erlendum lánsstofnunum, og gagnvart öllum þessum lánsstofnunum virðist mér, að í raun og veru séu af ríkisvaldinu framin „systematisk“ svik eða fjárprettir með því að leggja slíkan skatt á atvinnurekstur, sem vitað er um, að ekki getur frá ári til árs skilað því fé, sem hann hefir fengið að láni til rekstrarins. Þetta er í raun og veru ekkert annað en sviksamlegt athæfi, þó að það sé löglegt, og mér virðist, þegar málið er athugað frá þessari hlið, þá sé ekki eingöngu um það að ræða frá þingsins sjónarmiði, hvernig hægt sé fyrir ríkissjóð að verða án þessara tekna og afla sér annara í staðinn. Mér virðist þörfin einnig vera svo knýjandi vegna þeirrar siðferðislegu skyldu, sem hvílir á þingi og stj. í þessum efnum, að það verði að krefjast þess, að slíku gjaldi sem þessu verði létt af. Þetta er í raun og veru sviksamlegt athæfi, þótt það sé löghelgað. Hér er ekki einungis um það að ræða, að vera án tekna eða ekki fyrir ríkissjóð. Hin siðferðislega skylda þings og þjóðar er hér svo rík, að klífa verður þrítugan hamarinn til að létta af slíkum gjöldum, sem aðeins eru þjófnaður úr sjálfs sín hendi af fé, sem einstaklingum og þjóðinni er trúað fyrir.

Sú upphæð, sem hér ræðir um, er veruleg upphæð, áætluð 700 þús. kr., en þegar litið er á það, að síðustu þing hafa hækkað skatta um margfalda þessa upphæð, er það engin afsökun fyrir því, að halda slíkri skattálagningu áfram, að ekki sé bent á aðra skattstofna í staðinn.

Hér hafa verið bornar fram margar till. um sparnað í ríkisrekstri, sem vegið gæti á móti þessu útflutningsgjaldi. Og það hefir margsinnis verið sýnt fram á það af öðrum hér, að allur fjárhagur ríkisins er undir því kominn, að atvinnuvegirnir geti haldið áfram. Og ég veit, að öllum hv. þm. er það ljóst, að það atvinnuleysi, sem skapast af lömun atvinnuveganna, verður ekki læknað með bráðabirgðaráðstöfunum.

Ég vil því láta fella þetta gjald niður, alveg burtséð frá því, þótt meiri hl. sjútvn. telji erfitt að afla fjár í staðinn. Annars er það alls ekki hlutverk sjútvn. að sjá ríkissjóði fyrir tekjum. Hennar hlutverk er fyrst og fremst að vernda hagsmuni sjávarútvegsins, og hún átti að gera till. sínar með það eitt fyrir augum að hlynna sem bezt að sjávarútveginum, bæði þeim, sem reka hann, og öllum þeim mörgu, sem að honum vinna á annan hátt.