20.12.1935
Neðri deild: 104. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í C-deild Alþingistíðinda. (3651)

151. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Mér finnst dagskrá sú, er hér liggur fyrir, ljóst merki þess, að hv. flm. hennar, meiri hl. sjútvn., þyki þær byrðar, er þeir taka á sínar herðar gagnvart sjávarútveginum, helzt til þungar fyrir þá eina að bera, því með þessari dagskrá eru þeir að gera tilraun til þess að velta á aðra ábyrgðinni á sínum eigin verkum. Og þar sem dagskrártill. þessi snertir mig sem þann eina af flm. frv., sem er í fjvn., og þar sem í dagskrártill. er vísað til fjvn., þá sé ég ástæðu til þess að segja hér nokkur orð.

Hv. 6. þm. Reykv. hefir lesið þessa dagskrá og sagt sitt álit um hana, sem ég tel í alla staði rétt, en til skilningsauka fyrir hv. frsm. meiri hl., þm. Ísaf., vil ég til viðbótar við það, sem hv. 6. þm. Reykv. tók fram, segja honum það, að liðum fjárl. má skipta í tvo flokka hvoru megin, bæði tekjumegin og gjaldamegin. Í öðrum flokknum eru tekju- eða gjaldaliðir, sem ákveðnir eru með sérstökum lögum og ekki er hægt að segja um, hve miklir þeir verða eða háir; hinsvegar eru þeir liðir, sem ákveðnir eru með fjárl. sjálfum og öðlast ekki gildi fyrr en með fjárl. sjálfum, þegar þau eru staðfest. Nú er útflutningsgjaldið ákveðið með sérstökum lögum, og það er áætlað 700 þús. kr. Það hefir því engin áhrif, þó sú breyt. væri gerð á fjárl. að fella þennan tekjulið niður, þó frv. um að afnema útflutningsgjald á sjávarafurðum væri komið fram á Alþingi, ef það frv. næði ekki fram að ganga. Þessar tekjur mundu eftir sem áður renna í ríkissjóðinn, þó þær væru hvergi áætlaðar í fjárl. Niðurfelling tekjuliðsins í fjárl. hefði því engin áhrif fyrir þá, sem þurfa að borga þetta útflutningsgjald. Alveg hliðstætt þessu er það dæmi, að þýðingarlaust væri að setja nýjan tekjulið í fjárl., þó frv. um nýja tekjuöflun kæmi fram, ef það frv. næði ekki samþykki. Ríkissjóður mundi ekki fá þessar nýju tekjur, þó þær væru áætlaðar í fjárl. Það leiðir því af sjálfu sér, að tilraun hv. flm. dagskr. til að skjóta ábyrgðinni af sínum gerðum yfir á aðra hefir við engin rök að styðjast, þó þeir reyni með þessu að skjóta sér undan ábyrgðinni til þess að gera sig betri en þeir eru í augum sjómanna og útgerðarmanna, þegar þeir krefja þessa hv. þm. reikningsskapar á gerðum sínum.

Ég þarf ekki fleiri orð að hafa um þessa dagskrá til þess að sýna það, að hún er alveg sérstakt plagg. Ég verð að segja, að það hafi ekki verið að ástæðulausu, að hv. 6. þm. Reykv. vakti athygli hæstv. forseta á henni; þó hún kannske sé ekki þannig vaxin, að hæstv. forseti sjái sig neyddan til þess að vísa henni frá, þá er hún a. m. k. prófsteinn á það, hverjir hv. þm. vilja gerast meðsekir í því afskaplegasta þekkingarleysi, sem dæmi eru til, að komið hafi fram á Alþingi. Það var þegar sýnt þegar nál. meiri hl. sjútvn. kom fram, að stjórnarflokkarnir ætluðu að vera á móti málinu, og þar með væri þessi tilraun til þess að fella niður útflutningsgjaldið dauð og ætti enga framgangsmöguleika á þessu þingi.