20.12.1935
Neðri deild: 104. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í C-deild Alþingistíðinda. (3654)

151. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. minni hl. (Jóhann Jósefsson) [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að fara út í háa pólitík við hv. þm. Ísaf. Ég tel þessa síðustu setningu í ræðu hans þessu máli alveg óviðkomandi. Það hefir eitthvað slegið út í fyrir hv. þm., að því er virðist út af því, að hann hefir álitið, að hann væri kominn í nokkuð mikið öngþveiti með aðstöðu sína í þessu máli. Hann vill nú gjarnan slá út í aðra sálma til þess að dylja sína vesölu aðstöðu. Hv. þm. hefir þó komið með þá játningu í þessu máli, að öll sanngirni mælti með því, að þetta útflutningsgjald væri afnumið, og um það er ég honum algerlega sammála. Það, sem skilur milli okkar, er það, að ég vil létta gjaldinu af þegar í stað, en hv. þm. finnst ekki enn kominn tími til þess. En svo segir hv. þm. í þessu sambandi, að skattarnir komi oft ranglega niður og að hér sé skattlagður hver biti og sopi hjá fátækum mönnum. Þetta er að vissu leyti nokkuð rétt. En hv. þm. er bara ekki ánægður með þetta. Hann vill skattleggja bitann og sopann ennþá meira, og hann hefir verið að greiða fyrir því með atkv. sínu undanfarna daga, að hækka skattana á bitunum og sopunum og spjörunum enn meira, og hv. þm. vill bæta við - hann vill skattleggja sopana og bitana, sem þessir menn hafa sér til lífsframdráttar. Hann er sem sagt á hraðri skattahækkunarbraut, en hann gat þess þó, að þegar til kæmi, þá sé útflutningsgjaldið af sjávarafurðum hið fyrsta, sem þurfi að létta af. Ég er svo, úr því sem komið er, ekkert óánægður með þessa afstöðu. En hvað viðvíkur þessum vafningum hans um það, að við höfum ekki komið nægilega snemma með nál., og það, að við höfum eigi sótt þetta mál af nægilegu kappi í n., þá verður hver og einn að dæma um þær ásakanir sjálfur. - Það var annað mál, sem var hér á þinginu í fyrra, sem snerti sjávarútveginn mjög mikið - frv. um skuldaskilasjóð vélbátaeigenda -, þá var þannig, að þegar í deildina kom, talaði þessi hv. þm. um, hvað hv. þm. Vestm. og 6. þm. Reykv. hefðu sótt þetta mál af miklu kappi og hvað við hefðum verið vanstilltir í nefndinni, að dómi hv. þm. Ísaf. Nú er öðru máli að gegna. Hv. þm. Ísaf. er eins og vant er á móti útgerðarmönnum og hagsmunum útgerðarinnar, nema síldarútveginum, þar sem hann á sjálfur hlut að. Hv. þm. segir, að þessu gjaldi eigi fyrst að létta af þegar farið verði að vinna að því í hans eigin flokki, en mér virðist nú hans flokkur ekki vera beinlínis á þeirri leið að aflétta sköttunum. Ef við athugum t. d., hvað verið er að gera nú hérna í hinni d., þá sjáum við, að verið er bæta sköttum á skatta ofan; það er verið að skattleggja nauðsynjavörur almennings og það er verið að skattleggja benzínið. Á þessu sést, að núv. stj. er alls ekki fær um að aflétta neinum tollum.

Ég skal svo ekki orðlengja meira um þetta. Það er sennilega þýðingarlaust að deila meira um þetta mál. - Ég sagði áðan og vil endurtaka það, að meiri hl. hefir í þessu máli valið sér það hlutskipti, sem verra er, að íþyngja sjávarútveginum, en ekki að greiða úr fyrir honum. - Þá kom enn einu sinni fram, mér liggur við að segja, sú falsröksemd í þessu máli, að sjútvn. hefði borið skylda til þess að benda á einhverja nýja tekjustofna. En mér er spurn: Hvaða nýir tekjustofnar voru útvegaðir, þegar síldartollinum var af létt? Ég veit, að hv. þm. er þetta mál minnisstætt, og tek þess vegna þetta dæmi. Ég veit ekki til þess, að hv. þm. hafi þá gert ráð fyrir því, að ríkissjóður fengi neina nýja tekjustofna, þegar því gjaldi var létt af. Nei, það er ekki sjútvn., sem á að hafa það hlutverk að benda á tekjustofna fyrir ríkið. Til þess er kjörin sérstök n. í þinginu, eins og eðlilegt er.