23.02.1935
Neðri deild: 13. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í C-deild Alþingistíðinda. (3802)

13. mál, innlánsvextir og vaxtaskattur

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti ! Þetta frv. lá fyrir síðasta þingi og dagaði þá uppi í n. Hv. þm. er þess vegna efni þess kunnugt, svo ég þarf ekki að hafa langa framsögu.

Eins og frv. liggur fyrir. er tilgangurinn með því sá, að reyna að koma á meira samræmi milli almennra peningavaxta í landinu og þess, hvað atvinnuvegirnir raunverulega geta ávaxtað peningana, því að í atvinnuvegunum eru þeir vitanlega ávaxtaðir.

Hin síðustu ár er bæði landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn rekinn með halla. Af skýrslu milliþn. í sjávarútvegsmálum er greinilegt, að sá höfuðstóll, sem bundinn er í sjávarútveginum, gefur sáralitla vexti. Og af þeim gögnum, sem fyrir liggja um hag landbúnaðarins, er ljóst, að hann gefur mjög lága eða jafnvel enga vexti af þeim höfuðstól, sem í honum er bundinn. Nú verða báðir þessir atvinnuvegir að búa að miklu leyti við lánsfé. Þótt nú sé búið að færa um 11 millj. af lausaskuldum bænda yfir í kreppulánasjóð og þar með lækka vexti þeirra, og færa þær í föst 40 ára lán, þá mun vera annað eins eftir, líklega meira þegar þess er gætt, sem færzt hefir af víxilskuldum yfir á ábyrgðarmenn þeirra, sem kreppulán hafa tekið, og að skuldir bænda hingað og þangað á landinu hafa vaxið síðan bændanefndin lauk störfum. Þess vegna er óhætt að segja, að bændur búi ennþá að töluvert miklu leyti við lánsfé, sem þeir þurfa að greiða af 5 til 8% vexti, á sama tíma og þeir geta ekki ávaxtað fé í atvinnurekstri sínum nema milli 2 og 3%, ef þeir þá geta það. Það er vitanlega ekki rétt. Nákvæmlega það sama má segja um sjávarútveginn.

Ég hefi orðið var við ótta hjá ýmsum mönnum við það að lækka innlánsvexti - en spariféð, sem bankarnir ávaxta, mun vera um 13 af lánsfé þeirra - af því að þeir halda, að það muni draga úr því, að menn dragi saman fé og leggi í sparisjóð. Ég hygg, að þessi ótti sé að miklu lyti ástæðulaus, og alveg ástæðulaus, ef þess er gætt, að hægt er að gera ráðstafanir til þess að menn hafi ekki aðstöðu til þess að taka féð út og lána það með hærri vöxtum. Nú er það svo, að mismunurinn milli innlánsvaxta og verðbréfavaxta er 1-2%, eða jafnvel meiri. Þess vegna er hætt við, að ef jafnframt lækkun innlánsvaxta eru ekki gerðar ráðstafanir til, að vextir verðbréfa lækki líka, þá myndi féð hverfa úr innlánsdeild lánsstofnananna og fara yfir í verðbréfin. Til þess að reyna að fyrirbyggja það er hér stungið upp á að leggja á vaxtaskatt, sem á að gera það að verkum, að það, sem verðbréfavextirnir fara yfir innlánsvextina fram yfir það, sem telja má hæfilegan mismun, renni beint í ríkissjóð. Á þennan hátt er hugsað, að alltaf verði hæfilegur mismunur milli vaxta sparifjárins og vaxta verðbréfanna, svo að freistingin til að setja peningana í verðbréf verði sízt meiri, jafnvel minni heldur en nú er.

Það má sjálfsagt mikið um þetta frv. deila og margt að því finna. En mér finnst þörfin á því að koma vöxtunum í það horf, að þeir séu ekki hærri en það, að atvinnuvegirnir geti staðið undir þeim, vera svo brýn, að það sé sjálfsagt fyrir Alþingi að reyna að gera ýtarlega tilraun til þess að koma þarna samræmi á milli og láta ekki þá menn, sem fyrir rás viðburðanna eru þannig settir, að þeir eiga nú sparifé, fá miklu hærri vexti heldur en atvinnuvegirnir geta borið, á meðan allir aðrir tapa. Ég vona því, að þessu frv. verði vel tekið. Því var nú raunar vingjarnlega tekið í fyrra, þó nokkuð væri sofið á því. Vænti ég, að þó e. t. v. verði eitthvað sofið á því nú, þá fái maður að sjá það aftur frá n. Legg ég til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjhn.