08.03.1935
Neðri deild: 23. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í C-deild Alþingistíðinda. (3873)

49. mál, varnir gegn berklaveiki

Jón Sigurðsson:

Það eru aðeins örfá orð. - Mér skildist á ræðu hv. 6. landsk., að hann ætlaðist til, að þessu máli væri stungið svefnþorn með því, að væntanlegar till. frá landlækni kæmu á næsta þingi, eða jafnvel einhverntíma í framtíðinni. (JG: Nei, á þessu þingi). Hann hefir þá mismælt sig. Ég vildi mótmæla þessu, því að þetta er svo mikið nauðsynjamál, að við verðum nú þegar að finna einhverja lausn, en hér er um tvær leiðir að velja. Önnur er sú, sem hér er bent á, að létta útgjöldum af sýslu- og bæjarsjóðum, en hin er sú, að ríkið eftirláti sýslufélögunum einhverja af þeim tekjustofnum, sem það hefir yfir að ráða, til þess að standast þessi útgjöld. Má segja, að í sama stað komi niður, hvor leiðin er farin.

Hv. þm. sagði, að kaupstaðirnir hefðu lent í vanskilum, af því að hrepparnir hefðu ekki greitt sín gjöld. Það kann vel að vera, að svo sé sumstaðar. En af hverju hafa hrepparnir þá ekki greitt sín gjöld? Það er af því, að þá hefir vantað tekjur til að standast þau útgjöld, sem á þá hafa verið lögð. Þetta vita allir, og ég efast um, að það sé nokkurt mál, sem fylgt er með jafnmikilli athygli um land allt, úr hvaða flokki, sem menn eru, eins og einmitt lausn þessara mála, á hvern hátt fátækramálin verði leyst, og á hvern hátt megi létta af sveitunum einhverju af þessum miklu útgjöldum. Það er líka eðlilegt, því að nú eru mörg sveitarfélög í þann veginn að gefast upp undir þessum útgjaldadrápsklyfjum. Öllum, sem eitthvað hafa fengizt við sveitarstjórn, ætti að vera það fullkunnugt, og ég er undrandi yfir því, ef þingið sýnir svo mikið skilningsleysi, að vilja ekkert gera þessu máli til úrlausnar. Býst ég við, að margir verði fyrir vonbrigðum, ef svo fer.