16.03.1935
Neðri deild: 30. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í C-deild Alþingistíðinda. (3987)

90. mál, sauðfjárbaðanir

Jón Pálmason:

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta frv. að sinni. Það fer væntanlega til þeirrar n., sem ég á sæti i. En það voru örfá atriði í ræðu hv. þm. Borgf. þannig vaxin, að ég sé ekki ástæðu til að taka þeim þegjandi. Það er ákaflega mikill misskilningur hjá hv. þm., ef hann heldur, að mótstaða mín gegn þessu frv. stafi af þeim erjum, sem við áttum í út af hinu böðunarfrv., sem afgr. var hér í þd. fyrir nokkrum dögum. Hitt er líka misskilningur, og það herfilegur, ef hv. þm. heldur, að ég og aðrir séum því mótfallnir, að árlegar þrifabaðanir fari fram. En það er engin þörf á þessu frv. til þess að þrifabaðanir geti farið fram árlega á sauðfé bænda. Sú skylda er í núgildandi lögum, og þrifabaðanir hafa farið alstaðar fram samkv. þeirri ákvörðun. A. m. k. er mér kunnugt um, að svo hefir verið í mínu héraði síðan lögin voru sett 1914. Þó að ég sé á móti þessu frv. til breyt. á þeim l., þá stafar það ekki af því, að ég sé andvígur árlegum þrifaböðunum, heldur af því, að frv. er gersamlega óþarft. Nú vona ég, að standi til að fram fari allsherjarútrýmingarböðun í landinu, og eftir það eiga núv. lög um þrifabaðanir að nægja fyllilega eins og þau eru. Hvað það snertir, sem hv. þm. sagði, að ekki hefði verið breytt staf né kommu í frv. síðan það var sem brtt. við annað frv. hjá landbn., þá hefi ég ekki athugað það. En hitt vil ég taka skýrt fram út af þessu, að því var því síður ástæða til að flytja þetta frv., þar sem þær till., er í því felast, hafa áður verið felldar í þessari hv. þd. og allir landbnm. verið þeim mótfallnir. - En frv. fer nú væntanlega til n., og er því óþarft að fjölyrða meira um það. verður síðar tækifæri til að leiða saman hesta sína um það við 2. umr.