14.11.1935
Neðri deild: 73. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í C-deild Alþingistíðinda. (4231)

168. mál, fiskimálanefnd

Flm. (Ólafur Thors):

Ég læt mér það í léttu rúmi liggja, þótt hv. 2. þm. Reykv. segi, að ég viti ekki, hvaða starf fiskimálanefnd hefir með höndum, eða hafi ekki vit á þessum málum yfirleitt. Ég skal ekki deila við hann um þetta. Ég hefi gert fiskimálin að mínu æfistarfi, og hann olíusölu að sínu. Ég efast ekkert um það, að hann standi mér miklu framar á því sviði, og ég veit líka, að hann gengur út frá því, a. m. k. með sjálfum sér, að ég muni eitthvað hafa lært í mínu starfi.

Annars veit ég ekki annað um afrek þessarar n. en það, að hún hefir tekið upp tvær af till. mínum, um herðingu og frystingu á fiski til útflutnings, og auk þess úthlutar hún ísfisksleyfum. Þetta eru nú fremur smávægileg störf fyrir svo stóra og dýra n. sem fiskimálanefnd er. En það, sem fyrir mér vakir hér, er ekki að fara að gagnrýna störf n., heldur að létta af útgerðinni gersamlega óþörfum kostnaði.

Ég býst við, að fáir útgerðarmenn trúi því, að forstjórar S. Í. F. hafi ekki vit og aðstöðu til þess að hafa þessi mál fiskimálanefndar með höndum, ekki sízt þegar svo stendur á, að sami skrifstofustjóri er hjá n. og samlaginu, svo að innangengt ætti að vera þar á milli um alla þekkingu. Auk þess má benda á það, að forstjórarnir hafa sent út frystan fisk áður. Þannig hefir einn þeirra, Richard Thors, sent út 2000 smál. á tveim árum. Alliance hefir einnig gert margar tilraunir, líka með hertan fisk. Útgerðarmenn trúa því ekki, að hv. 2. þm. Reykv. sé heppilegri til slíkra hluta en þessir menn.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að ef sparnaður ætti að vera að því að láta stjórn fisksölusambandsins taka á sig störf fiskimálanefndar, fælist í því sú játning, að hjá samlaginu væru menn, sem tækju laun fyrir ekki neitt. En það er nú dálítið annað mál en það, þótt forstjórar og starfsfólk samlagsins kynnu að geta bætt á sig hinum fremur smávægilegu störfum fiskimálanefndar. Einn forstjóranna ætti að geta annazt þau mál, er n. hefir með höndum, og borið ábyrgð á þeim ásamt öðrum störfum sínum.

Það má vel vera, að laun forstjóranna séu of há, en það er 7 manna stjórnarnefndin — en hana kjósa fiskeigendur —, sem laununum ræður. Hv. 2. þm. Reykv. ætti því að bera fram kröfur sínar um launalækkun á aðalfundi fisksölusamlagsins. Því að það er áreiðanlegt, að forstjórarnir kæra sig ekki um að gegna störfum sínum lengur, ef talið verður, að komizt verði af án þeirra.

Ég vænti, að ég hafi með þessari hógværu gagnrýni haldið leiðum opnum fyrir þá, sem vilja létta gersamlega óþörfum kostnaði af útgerðinni á þessum erfiðu tímum.