20.11.1935
Neðri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í C-deild Alþingistíðinda. (4253)

175. mál, landssmiðja

Frsm. (Emil Jónsson):

Eins og hv. dm. mun kunnugt, hefir hér í bæ verið starfrækt landssmiðja um nokkur undanfarin ár. Var þetta mál fyrst tekið upp af þáv. landsverkfræðingi. Átti smiðjan að smíða ýmislegt fyrir ríkissjóð, sem kom starfrækslu hans við. Hefir þessu svo verið haldið áfram og vegamálastjóri og vitamálastjóri látið smíða þarna ýmiskonar járnsmíði.

Fram til 1930 fékkst smiðjan aðallega við smásmíði ýmiskonar. Þá varð sú breyt. á, að henni var falið að smiða ýmislegt, sem lýtur að viðgerð ríkisskipanna, og slíkt. Eftir það jókst starfsemi smiðjunnar mikið. Þó hefir enn enginn lagabókstafur verið fyrir starfrækslu smiðjunnar, heldur hefir ráðuneytið skipað fyrir um málin með bréfum til forstjóra smiðjunnar. Hefir því starfið verið lausara en skyldi. Stundum hafa t. d. verið lagðar niður deildir, eins og trésmíðadeildin, sem lögð var niður og verkfæri hennar seld. Þetta má ekki svo til ganga, svo þýðingarmikil sem þessi smiðja er fyrir ríkisstofnanir, svo sem vegamál, vitamál og skipaútgerð ríkisins. Úr þessum veikleika smiðjunnar er reynt að bæta með frv. því, sem hér liggur fyrir. Í frv. er ákveðið, að smiðja sem þessi skuli starfa og fást við áðurnefnd störf. Er fyrsti tilgangur frv. að koma festu í þessa starfrækslu. Í öðru lagi er svo fyrir mælt, að smiðjan skuli annast allt það smíði, er hún getur, fyrir ríkið og stofnanir þess. Það virðist sjálfsagt, að smiðja, sem er eign ríkisins, vinni slík störf. Þá segir ennfremur í 2. gr., að ríkisstj. geti „mælt fyrir um, að stofnanir, sem styrktar eru með fé úr ríkissjóði, skuli skipta við landssmiðjuna um smíði það, er þær þurfa að láta gera innanlands, enda sé um sambærilegt verð og vinnubrögð við aðrar samskonar smiðjur að ræða.“ Þetta getur ekki heldur talizt nema eðlilegt.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir, að landssmiðjunni sé gert fært að ráðast í ýmiskonar nýsmíði. Hún hefir þegar ráðizt í smíði á ýmsum vörutegundum, svo sem stálhúsgögnum og rúmstæðum handa skrifstofum ríkisins og sjúkrahúsunum. Þá hefir hún og smíðað bílavogir, sem bæði Reykjavíkur- og Hafnarfjarðarhöfn hafa keypt og mælt með sem samkeppnisfærum við samskonar erlenda framleiðslu, bæði að verði og gæðum. Ef hægt er að koma því svo fyrir, að landssmiðjan taki upp nýsmiði á hlutum, þannig að minna af þeim verði keypt frá útlöndum, þá er það rétt spor í þessum gjaldeyrisvandræðum, sem nú eru:

Sérstaklega er þó um eina tegund nýsmíðis að ræða, sem vakað hefir fyrir landssmiðjunni að taka upp, en húsnæðisleysi og féleysi hefir hamlað. Það er smíði á mótorum í mótorbáta. Í grg. eru tilfærðar tölur um innflutning bátamótora árin 1926—1933. Hefir hann þessi ár numið ca. 530 þús. kr. að meðaltali á ári. Auk þess hafa verið fluttar inn nýjar mótorvélar í skipum, sem hingað hafa komið erlendis frá, svo að þessi upphæð verður í rauninni hærri. Nú er þessum undirbúningi að smiði mótora svo langt komið, að mér er tjáð af fróðum mönnum, að smiðjan geti með 30—40 þús. kr. tilkostnaði hafið smíði á mótorum. Þegar þess er gætt, að 2/3 hlutar af verði mótorsins felast í vinnulaunum, en ekki nema 1/3 í aðfluttu efni, þá er hér um mikinn hagnað að ræða fyrir landið. En hér er ekki aðeins um hagnað að ræða frá sjónarmiði gjaldeyrisverzlunarinnar. Þessa mótora mætti um leið miða við þarfir íslenzkra fiskimanna. Þeir gætu fengið þessar vélar og varahluta af ákveðinni gerð og þyrftu ekki að vera bundnir við margar ólíkar tegundir um varahluta, tegundir, sem ef til vill yrði að einhverju leyti erfitt að fá.

Frv. gerir ráð fyrir, að ríkið leggi fram hæfilega lóð, þar sem smiðjan er, og ábyrgist henni 100 þús. kr. lán, til þess að hún geti hafizt handa. Meira fé en þetta er ekki hægt að búast við, að ríkið ábyrgist. Bezt hefði raunar verið, að ríkissjóður hefði lagt fram þetta fé til fyrirtækisins, þar sem fyrirtækið verður sjálft að binda mikið fé í einu og öðru, en það hefir ekki verið talin fær leið.

Um annað í frv. er fátt að segja. Þetta er aðalatriðið, að ríkissjóður leggi til lóð og ábyrgist þetta fé.

Í 6., 7. og 8. gr. er ákveðið, að starfsmenn smiðjunnar skuli hafa rétt til að ávaxta sparifé sitt í fyrirtækinu, og skuli þeim greiddur arður af fénu í jöfnum hlutföllum við gróða þess allt að hámarki, sem ákveðið sé í reglugerð, er ríkisstj. setur. Þetta er gert til þess að hnýta starfsmennina nánari böndum við fyrirtækið. Þeir fá meiri arð, ef vel gengur, og hafa þannig hagsmuni af gengi fyrirtækisins. Í öðru lagi er þetta gert til að útvega smiðjunni rekstrarfé, sem hún hefir ekki of mikið af. Þetta fyrirkomulag tíðkast allvíða erlendis og hefir gefizt vel. Í samræmi við þetta er lagt til, að starfsmenn skuli hafa nokkra íhlutun um stjórn smiðjunnar, er þeir hafa lagt fram ákveðna upphæð.

Ég vona, að hv. d. taki frv. vinsamlega og sjái, hvílík nauðsyn okkur er á því, að innanlandsiðnaðurinn sé efldur. Ég sé ekki, að öðru járnsmiðafyrirtæki beri meiri skylda til að vera brautryðjandi á þessu sviði en landssmiðjunni.

Þar sem málið hefir verið rætt allmikið í iðnn., fer ég ekki frekar út í það, en legg til, að því verði vísað til 2. umr.