20.11.1935
Neðri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í C-deild Alþingistíðinda. (4257)

175. mál, landssmiðja

Guðbrandur Ísberg [óyfirl.]:

Hv. þm. Hafnf. var að lýsa eftir því, hvaða fríðinda landssmiðjan hefði notið, og skildist mér á honum, að hann teldi, að þau hefðu engin verið. Ég veit ekki, hvað þessi hv. þm. kallar fríðindi, ef hann telur það ekki til fríðinda að geta verðlagt smíði sína eftir geðþótta, en svo hefir verið hjá landssmiðjunni t. d. gagnvart brúargerð og vegagerð o. fl. ríkisstofnunum, sem orðið hafa að taka verkið fyrir það verð, sem smiðjunni þóknaðist að setja. (EmJ: Það hefir alls ekki verið). Eða svo virðist eftir grg. þeirri, er fylgir frv., að ríkisstofnanir hafi tekið verkið yfir verði. Þar við bætist svo, að landssmiðjan hefir ekkert aukaútsvar greitt til Rvíkurbæjar, eins og önnur hliðstæð fyrirtæki verða að gera, eða a. m. k. ekki árið 1933, þegar tap varð á smiðjunni, rúmar 30 þús. eftir nýútkomnum landsreikningum. — Annars lagði hv. þm. aðaláherzlu á, að bæta þyrfti aðstöðu landssmiðjunnar. Mér er ekki vel ljóst, hvað hann á við með því, en það getur margt verið. Eftir frv. virðist svo, sem átt sé við það, að hún geti sett það verð á smíði, sem hún annast fyrir aðrar ríkisstofnanir, er henni sjálfri lízt. — Annað, sem hv. frsm. lagði áherzlu á og drepið er á í grg. frv., er, að með þessu sé tryggð margra manna atvinna, og er þar nefnd talan 60. Nú munu þeir vera nokkru færri. — Ég man ekki betur en forstjóri þessa fyrirtækis hafi nær því ráðherralaun, og allmargir, sem þarna vinna, hafa nálægt prófessorslaunum. Ef bæta þarf aðstöðu þessara manna, að dómi hv. frsm., þá hann um það. Auk þessa vinna þarna lausamenn, öðruhverju a. m. k. Það er vitanlega ágætt út af fyrir sig, að atvinnulausir menn fái vinnu. En hvernig ætlar hv. frsm. að koma því í kring án þess að skerða meira eða minna þá vinnu, sem nú er hjá einstaklingsfyrirtækjum?

Að því er snertir nýsmíði mótora, sem virðist vera aðalhald þessa frv. og eina sterka atriðið því til stuðnings, þá tek ég mér til inntekta og þigg fegins hendi tilboð hv. þm. um að skýra það nánar, ef það er þá hægt að skýra nokkuð, hvernig hér er unnt að framleiða fáeina mótora í harðri samkeppni við erlenda framleiðslu. Ef rétt hefði verið á þessu byrjað, þá hefði landssmiðjan átt að smíða eitt „model“ af þessum mótor, og láta athuga það og dæma af faglærðum, sérfróðum mönnum; áður en hlaupið er til að byggja verksmiðju fyrir þessa framleiðslu, má varla minna vera en slík athugun lægi fyrir. Ef svo væri, að sú athugun hefði farið fram, og líklegt þætti, að hér mætti með hagnaði smíða slíka mótora, þá gæti komið til mála að styrkja landssmiðjuna að því að reisa slíka deild til nýsmíði. En meðan þetta eru ekki nema fullyrðingar út í hött og vantar öll rök, þá get ég ekki fallizt á neinn styrk á þessum grundvelli. Þó ég geti látið hlutlaust, að landssmiðjan starfi eins og nú eða á sama grundvelli og undanfarið, þá get ég alls ekki fallizt á, að hún sé efld og styrkt á kostnað einstaklinga.