20.11.1935
Neðri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í C-deild Alþingistíðinda. (4260)

175. mál, landssmiðja

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Ég skal ekki verða langorður, en ég get ekki neitað mér um að gefa hv. frsm. skýringu á því undrunarefni, sem það virtist vera honum, þegar hann var að lýsa því, hvernig landssmiðjan hefði byrjað kapitallaus og í lélegum húsakynnum o. s. frv., að hún skyldi þó hafa komizt af undanfarin ár. Það má vel vera, að þetta sé honum undrunarefni, ef hann er ókunnugur ríkisfyrirtækjum, en þá get ég sagt honum það, að það er ekkert að marka afkomu ríkisfyrirtækja, eða yfirleitt reikningslega afkomu opinberra fyrirtækja, hvort sem þau eru ríkis eða bæja. Og það er ekki til að undra sig yfir, vegna þess að þau ráða sjálf, hvaða verð er sett á vöru þeirra eða framleiðslu, er þau láta því opinbera í té. Hitt er miklu meira undrunarefni, þegar slík fyrirtæki skila reikningum með halla, eins og komið hefir fyrir þetta fyrirtæki. Ég verð að láta í ljós, að ég get ekki skilið undrun hv. frsm. eða hneykslun yfir því, að á þetta er minnzt, því það átti ekki að geta komið fyrir þá smiðju, sem býr við þau skilyrði, er ég hefi lýst. Og að þetta hefir komið í ljós þrátt fyrir hina sterku aðstöðu, átti að verða til þess, að smiðjan væri tafarlaust lögð niður, og ég get undrazt yfir því, að jafngreindur maður og hv. þm. er skuli ekki geta skilið, að það átti að gerast, þegar það hefir sýnt sig, að þrátt fyrir aðstöðuna hefir smiðjan tapað ár eftir ár. Á því get ég ekki fundið aðra skýringu en þá, að hann sem sósíalisti geti ekki hugsað sér, að ríkið afsali sér stofnun, sem einu sinni hefir verið komið á. En hver einstaklingur hlýtur að hverfa frá þeim rekstri, sem ekki ber sig, og leggja niður slík fyrirtæki, og nákvæmlega það sama gildir um fyrirtæki þess opinbera. þess vegna átti ríkisstj. að koma fram með till. um að leggja landssmiðjuna niður, er það sýndi sig, að tap varð á rekstri hennar. Hv. frsm. minntist á, að fyrrv. stj. hefði selt eitthvað af verkfærum landssmiðjunnar. Það er rétt, að stj. seldi trésmíðadeild smiðjunnar, sem ekki mun hafa borið sig. Meira að segja lagði sú stjórn einróma til, að selja öll áhöldin og leggja verkstæðið niður, með þeirri forsendu, að verkstæðið bæri sig ekki. Það var hægt að fá það unnið fyrir minna verð hjá öðrum. Þetta er ekkert undarlegt, og það er sjálfsagt fyrir hvern mann, og það jafnt fyrir ríkisstj. sem aðra, þegar svona stendur á. Og þess vegna er það, að ef þessi hugur flm., að vilja ekki leggja niður fyrirtækið, ef það borgar sig ekki, kemur fram hjá ríkinu, þá er sýnilegt, að tilgangurinn er sá, að hætta á að setja upp svona stórt fyrirtæki, þó að það beri sig ekki. Mér sýnist því, að þetta sé ekki eingöngu iðnaðarmál, heldur líka fjárhagsmál, og tel ég því sjálfsagt, að það sé athugað af fjhn., og legg ég því til, að frv. verði vísað til fjhn.