21.11.1935
Neðri deild: 79. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í C-deild Alþingistíðinda. (4298)

183. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Páll Þorbjörnsson:

Ég er þakklátur hv. 3. landsk. fyrir þá yfirlýsingu, sem hann gaf, þegar hann talaði á þá leið, að ríkisverksmiðjurnar á Siglufirði hefðu svipt bæinn tekjum. Og ég vil vænta þess, að þessi yfirlýsing hans verði í minnum höfð, ef að því skyldi koma, að byggja ætti nýja síldarverksmiðju og upp skyldi risa deila um það, hvar hún skyldi standa, eins og deilt var um það, hvar sú síldarverksmiðja skyldi standa, sem á síðastl. ári var reist. Það gæti þá varla orðið mikið kappsmál fyrir Siglufjörð, að hún yrði reist þar.

Um rafmagnið og bryggjurnar ætla ég ekki mikið að ræða. Ég hygg, að það sé ný kenning, að vara verði dýrari eftir því sem meira selst af henni. Hv. 8. landsk. þóttist ekki skilja, hvað rafmagn kæmi þeim við, sem kæmu til þess að reka atvinnu á Siglufirði á hverju sumri. Mun þá hv. 8. landsk. hugsa sér, að ekki þurfi ljós á bryggjur, þar sem unnið er, eða í íbúðir verkafólks?

Ég vil líka leiðrétta upplýsingar hv. 8. landsk. um bryggjurnar. Bæjarsjóður Siglufjarðarkaupstaðar á bryggju, sem er næsta bryggja fyrir utan bryggjur ríkisverksmiðjanna. Á síðasta ári brotnaði hún, og brakið úr henni varð til þess að mölva bryggjur ríkisverksmiðjanna, sem voru miklu sterkari og hefðu óefað staðið óbrotnar að öðrum kosti. Það er að mínu áliti ekki vel við eigandi, að bæjarfélagið verði þess valdandi með eignum sínum, að eigur annara stórskemmist. En það virðist sem ráðamönnum þessarar bryggju liggi þetta í léttu rúmi, því að þessari bryggju bæjarsjóðs var hróflað upp nú í vor með sama fyrirkomulagi og áður.

Einnig talaði hv. 8. landsk. um það, að Siglufjörður og sveitarfélögin, sem Sólbakka- og Raufarhafnarverksmiðjurnar eru í, hafi misst tekjur við það, að ríkið keypti þessar þrjár verksmiðjur. Um þetta er það að segja, að Siglufjarðarverksmiðjan, sem ríkið keypti, hafði þá staðið ónotuð í nokkur undanfarin ár, og fyrir eindregin tilmæli bæjarstj. Siglufjarðarkaupstaðar keypti ríkið hana, til þess að tryggja fólki á Siglufirði atvinnu. Verksmiðjuna á Raufarhöfn keypti ríkið einnig fyrir eindregin tilmæli íbúa Raufarhafnar. Og í þeim tilmælum var það tekið fram, að það vofði blátt áfram hungur yfir fólki þar, ef af þessum kaupum gæti ekki orðið og verksmiðjan starfrækt framvegis. Úr þeirri verksmiðju var búið að flytja allar vélar til Noregs, þegar ríkið hljóp þar undir baggann.

Um Sólbakkaverksmiðjuna er það að segja, að hún var fyrst í eign einstaklings, sem svo flosnaði upp og verksmiðjan komst í eign banka. Á hverju ári vofði það svo yfir, að verksmiðjan yrði ekki starfrækt. Og upp á síðkastið, áður en ríkið keypti verksmiðjuna, hafði ríkið tekið að sér að reka hana. Fyrir eindregin tilmæli bæjarfélags, sem þetta snerti mest, er það einnig, að ríkið kaupir og starfrækir svo þessa verksmiðju. Það er líka vert að benda á það í þessu sambandi, að það orkar mjög tvímælis, hvort síldarverksmiðjur ríkisins hafi ekki bundið sér allverulegan bagga með því að kaupa og starfrækja Sólbakkaverksmiðjuna. Það var t. d. ekki nokkur leið til þess að fá skip til að leggja upp síld í Sólbakkaverksmiðjuna, nema með því að borga þeim allmiklu hærra verð fyrir aflann heldur en annarsstaðar. Og til tryggingar því, að verksmiðjan á Raufarhöfn yrði starfrækt, varð að láta skipin skuldbinda sig til að fara með afla sinn a. m. k. úr einni veiðiferð til Raufarhafnar. Svo er því haldið fram, að það einasta, sem unnizt hafi við þessi kaup, sé það, að viðkomandi bæjar- og sveitarfélög hafi verið svipt tekjustofnum.

Það er einnig vert að geta þess, að þessar 3 verksmiðjur, sem ríkið hefir keypt, hafa síðan aukið mjög afkastamagn sitt. Þær hafa verið endurbættar og að þeim hafa komið hæfari menn en áður. Í þessu sambandi má minna á, að verksmiðjan á Raufarhöfn hefir aukið afkastamagn sitt úr 500—600 málum á sólarhring og upp í 1000—1100 mál. Verksmiðjan á Sólbakka hefir aukið afkastamagn sitt um 200—300 mál á sólarhring, og verksmiðjan á Siglufirði um 100— 200 mál á sólarhring að minnsta kosti, eftir að ríkið keypti hana.

Ég hygg, að þetta ætti að nægja til þess að hrekja það, sem hv. 8. landsk. hefir borið hér fram því til sönnunar, að það eina, sem hafzt hafi upp úr því, að ríkið keypti þessar þrjár verksmiðjur, hafi verið það, að svipta viðkomandi bæjar- og sveitarfélög tekjum.