17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í C-deild Alþingistíðinda. (4577)

125. mál, lax- og silungsveiði

Jörundur Brynjólfsson [óyfirl.]:

Ég hefi leyft mér ásamt hv. þm. Borgf. og hv. þm. Mýr. að bera fram brtt. við þetta frv., á þskj. 869. — Hvað viðvíkur brtt. landbn. á þskj. 793, seinni liðnum, þá held ég, að það gæti orðið óheppilegt upp á framkvæmd þessara l., ef sú brtt. yrði samþ., þar sem svo er að orði komizt, að aldrei megi girða yfir straumlínu. Ár falla svo mismunandi, að ef það ætti að skilja þetta bókstaflega, þá býst ég við, að sumstaðar yrði lítt mögulegt að stunda veiði. En í öllum ám er einhver aðalstraumlína, og það er betur skilgreint þannig eins og við leggjum til í brtt. okkar, þremenningarnir.

Þá er önnur brtt., sem við leggjum til, að gerð verði á 1. gr. frv., sem er nokkuð öðruvísi heldur en ákvæði l. Heimildin til veiðiskapar er færð til eftir þessu ákvæði, þannig að l. segja, að ekki megi girða yfir meira en 1/4 hluta af breidd óss eða leiru, en samkv. frvgr. má girða yfir 1/3 hluta. En það er óheppilegt að breyta frá ákvæðum l. í þessu efni, og mér þótti vænt um að heyra, að hv. frsm. n. getur fallizt á þessa brtt. okkar, þannig að ákvæði l. fái að halda sér.

Þá er næsta brtt. okkar við 3. gr. frv., og lýtur hún að því, að ráðh. hafi heimild til þess að veita undanþágu og leyfa, ef sérstaklega stendur á, að ekki séu fullir 100 m. milli fastra veiðivéla. Þetta rekur sig á í framkvæmdinni. Það mun gera það í Hvítá í Borgarfirði og Ölfusá eystra. Þar munar á sumum lögnum nokkuð frá ákvæðum l. Einkum eystra hagar svo til, að ef þessar lagnir eru lagðar niður, þá er ekki hægt að koma þeim fyrir annarsstaðar, svo það er ekki um annað að tala en algerða rýrnun á veiðinni frá því, sem áður var. Ég held þess vegna, að eins og um það er búið í okkar brtt., að ráðh. hafi heimild til þess að veita undanþágu frá þessu ákvæði, sé fyrir því séð, að ekki hljótist veiðispjöll af, umfram það, sem eðlilegt er. Slík undanþáguheimild sem þessi mundi líka draga nokkuð úr því, að mjög miklum fjárupphæðum þurfi að verja til skaðabóta. Og það getur haft sitt að segja upp á afgreiðslu málsins, því hv. Ed. hefir á undanförnum 2 þingum, að ég held, svæft þetta mál og sett einmitt þetta ákvæði um skaðabæturnar fyrir sig. En eins og ég segi, þá mun slík undanþáguheimild draga mikið úr því, að til þeirra þurfi að koma, nema þar, sem óumflýjanlegt er. Þetta álít ég mikils virði, af því að ég vona, að þar sem þetta kemur til framkvæmda, geti það ekki orðið laxveiðinni á neinn hátt til skemmdar, og svo er þetta líka að vissu leyti — þegar þær ástæður eru fyrir hendi, sem ég hefi greint, — sanngirnismál fyrir þá, sem hlut eiga að máli. — Ég vil þá vona, að þessi litlu atriði í brtt. okkar hafi komið það greinilega fram hjá mér, að ég þurfi ekki að fjölyrða frekar um þau.

Af fyrri brtt. í tölul. 2. leiðir svo aftur breyt. á upphafi 8. gr. frv. Það er eðlileg afleiðing, og þarf ég því ekki að fara frekar út í það. Og held ég þá, að ég þurfi ekki fleira um okkar brtt. að segja.

Ég vona, að hv. d. fallist ekki á brtt. landbn. um að breyta til um veiðitímann og færa hann fram frá 15. sept. til 5. sept. Hv. dm. samþ. brtt. frá mér um þetta efni við 2. umr., og ég vona, að þeir hafi ekki breytt um afstöðu til þessa atriðis síðan. Sá tími, sem ég tiltók, er einmitt sá gamli veiðitími, sem settur hefir verið af sýslunefndum. Þær sem sé ráða þessu og haga því hver hjá sér eftir því, sem fiskurinn hagar göngu sinni. Þetta styðst við margra áratuga reynslu, ef ekki aldarreynslu.

Þá vildi ég beina því til hv. 11. landsk., hvort hann geti ekki búizt við því, ef deildin fellst á brtt. hans og frv. kemur í því formi til hv. Ed., að hún geti ekki fallizt á það. Ég veit, að honum gengur gott eitt til með sínum brtt., en það er spursmál, hvort ekki er verr af stað farið heldur en heima setið, ef það skyldi verða til þess, að málið næði ekki fram að ganga. — Að endingu vil ég svo vænta þess, að umr. þurfi ekki að verða mjög langar úr þessu.