17.12.1935
Neðri deild: 101. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í C-deild Alþingistíðinda. (4580)

125. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Jón Pálmason):

Síðasti ræðumaður hefir tekið af mér ómakið að því er snertir þetta atriði með straumlínuna. Það er í sjálfu sér engin bót að þessari brtt. frá því, sem er í frv. sjálfu. Hvað snertir hina brtt., sem segir, að ekki megi girða nema 1/4 út í laxárós eða leiru, þá verð ég að segja, að ég tel ófært að hafa það eins og landbn. gekk frá því. Annars verð ég að geta þess í þessu sambandi, að það komu ljóst fram hjá hv. 2. landsk., sem talaði hér við fyrri hluta þessarar umr., upplýsingar, sem gáfu það til kynna, að í því héraði, sem báðir þessir menn eru úr, hafa þessi l. verið þverbrotin, og það er af þeim orsökum frekar en öðrum, að veiðin hefir rýrnað eins og raun ber vitni um. — Um 2. brtt., við 8. gr., er það að segja, að ég tel það ekki svo mikilsvert atriði, að ég geti ekki fallizt á það.

Þá verð ég að svara hv. 11. landsk. nokkru. Hann hefir talað af undarlega miklum æsingi bæði í þetta skipti og um daginn, og margt af því, sem hann sagði, var blátt áfram helber vitleysa. Ég álít það t. d. fjarstæðu, ef það ætti að fara að ganga inn á þá braut, að borga öllum þeim skaðabætur, sem verða fyrir óhagnaði af l. þessum. Við göngum að sjálfsögðu eins langt í þessu efni og sanngjarnt er, en að fara að setja skaðabótaákvæði fyrir alla þá, sem neðar búa við árnar, nær ekki nokkurri átt. Slíkt myndi leiða til svo mikils málaþras og umstangs, að það myndi verða óendanlegt. (EE: Þessi málafærsla dæmir sig sjálf. Ég á við, að menn fái sinn rétt). Og að hér sé aðeins um orðalagfæringu að ræða, eins og hv. þm. vill vera láta, nær ekki nokkurri átt. Menn skilja vel, sem þekkja til þessara mála, að afstaða n. er sjálfsögð og að það sé eðlilegt að fara ekki lengra á þessu sviði en framkvæmanlegt er. En það verður illa framkvæmanlegt að gera þarna nokkra eðlilega lagfæringu. Hvað því viðvíkur, að þetta sé brot á stjskr., eins og hv. þm. vék að, get ég sagt það, að þá held ég, að stjskr. sé viða brotin, ef tekin væri sú afstaða, að ef öll ný l., sem brytu þann rétt, sem menn áður hafa haft, þá væri skylt að borga það, ella væri það brot á stjskr. Út í þetta sé ég ekki ástæðu til að fara lengra, en það mun koma fram við atkvgr., hvort mönnum finnst ekki sú krafa eðlileg, sem hér er farið fram á.