02.11.1935
Efri deild: 59. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í C-deild Alþingistíðinda. (4653)

155. mál, verslun með kartöflur og grænmeti

Flm. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

við næsta mál á undan hefir hv. 1. þm. Eyf. lýst aðdragandanum að því, að frv. þetta er fram komið.

Það er rétt, að Rauðka hefir samið þetta frv. og gengið frá því, og mér þykir það betra en hitt frv., sem hefir verið losað í reipunum, eða eitthvað í það káfað af mönnum hjá Búnaðarfélaginu. Þó munurinn á þessum frv. sé ekki mikill, er hann þó nokkur, og það stór, að mér þótti ekki rétt að láta þetta frv. Rauðku sofna í allshn.

Bæði þessi frv. hafa það sameiginlegt, að tilgangur þeirra er sá, að auka framleiðslu kartaflna og grænmetis í landinu og að greiða fyrir sölu þessara afurða með einskonar landsverzlun. Þó er sá munur, að eftir frv. því, sem Rauðka hefir samið, er ríkinu skylt að taka einkasölu, en í hinn frv. er aðeins heimild. Þetta er þó í raun og veru lítill sem enginn munur, því á einkasölu eða slíkri landsverzlun byggist hitt frv.

En það er annað sem mér þykir lakara í hinu fyrra frv., — að þar er heimild fyrir landbúnaðarráðh. að banna innflutning á kartöflum og öðrum garðávöxtum. Mér þykir það óeðlilegt að banna innflutning á einhverri nauðsynlegustu vörutegund, sem hingað flyzt og hlýtur að flytjast inn meðan ekki er næg framleiðsla innanlands, vegna þess að við Íslendingar borðum svo þungan mat, mikið af fiski og kjöti, að við þurfum annað léttara með, og þá allra helzt kartöflur. — Slíkt ákvæði var raunar fyrst í frv. skipulagsnefndar, en hún féllst á að breyta því. Enda finnst mér ekki hægt að banna þær vörutegundir, sem ríkið hefir tekið einkasölu á, og þá alls ekki aðrar grænmetistegundir en þær, sem ekki er verzlað með af einkasölunni og ekki hafa eins mikla þýðingu fyrir okkar mataræði og kartöflurnar.

Þá er annar munur, sem er á okkar frv. Ég vil ekki, að mönnum sé frjálst að verzla með sína framleiðslu kartaflna og grænmetis við aðra en landsverzlunina, svo sem takmarkað er í mínu frv. Ég álít, að sú frjálsa verzlun, sem gert er ráð fyrir í hinu frv., geri þessu skipulagi, sem hugsað er, mjög erfitt fyrir. Aftur á móti er gert ráð fyrir, að selja megi til neytenda beint úr geymsluskálunum. Þetta er sá munur, sem hv. 1. þm. Eyf. minntist á, en mér þótti einnig rétt að drepa á við þessa umr. — Eins og menn sjá, er það ekki stórvægilegt, sem á milli ber, og má vel vera, að okkur takist í landbn. að bræða frv. saman svo að báðir megi vel við una. — Vil ég mælast til, að frv. þessu verði einnig vísað til landbn., að lokinni umr.