25.03.1935
Sameinað þing: 6. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (4685)

93. mál, fasteignakaup til handa ríkinu

Flm. (Bjarni Bjarnason) [óyfirl.]:

Það má auðvitað alltaf um það deila, hvers virði náttúrufyrirbrigði sem þetta er í peningum. En eigendurnir hafa sagt mér, að nú sé mjög sótzt eftir að fá þennan rúma hektara, sem fylgir hvernum, til sumarbústaða. En ef slík sala ætti sér stað, yrði hverinn ónýttur eftir stuttan tíma. — Það má vel segja, að peningalega séð sé þessi eign einskis virði fyrir ríkissjóð. En þó er það svo, að ef ríkið eða einstaklingar vildu selja aðgang að hvernum, væri auðvelt að gera það, svo að eignin yrði jafnvel gróðavænleg. Það mætti leggja það á vald ríkisstj., hvort hún tæki þann hátt upp, að selja aðgang að hvernum, en ég tel óheppilegt, að einstaklingar gerðu slíkt. Menn koma þúsundum saman á ári hverju til að sjá hverinn, enda þykir hann nú eitthvert merkilegasta náttúrufyrirbrigði á Suðurlandi. Ef það þykir nokkurs virði að hæna ferðamenn að landinu, getur það verið mikils virði bæði fyrir hið opinbera og einstaklinga að vernda slík náttúruundur, sem ef til vill draga menn fyrst og fremst til landsins. Hinsvegar get ég auðvitað ekki sagt um það, hversu tryggt er, að hann haldi áfram að gjósa, en vitanlega er hann einskis virði um leið og hann hættir því.

Þá var hv. 3. þm. Reykv. óánægður yfir því, að ekki væri tiltekið í till., hve mikið stjórnin mætti borga fyrir hverinn. En ég get upplýst, að í bréfi frá eigandanum er sagt, að kaupverð hversins og aðgerðir síðan hann keypti, nemi um 4500 kr., og sé hann fús til að selja hverinn fyrir 6000 kr. En annars tel ég líklegt, að hann fengizt fyrir 4500 kr.

Það má vera, að hægt væri að semja við eigandann um vörzlu á hvernum, en líklegra tel ég þó, að hann kysi að selja landið undir sumarbústaði, og þar með væri hverinn úr sögunni.