01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (4691)

93. mál, fasteignakaup til handa ríkinu

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að lengja orðræður um þetta, því að raunverulega er ekki svo ýkjalangt bil á milli okkar hv. þm. Borgf. í þessu máli. Við erum báðir sparnaðarmenn, a. m. k. á þessu þingi, og hér er ekki um neina ákveðna upphæð að ræða; og það er alveg víst, að hún verður mjög lág. Ég ætla aðeins að leiðrétta eitt hjá hv. þm. Borgf., sem ég hygg, að stafi af ókunnugleika. Það er ekki hægt að segja, að hverinn Grýta sé einskis virði. Þótt eigandinn hafi ekki beinar tekjur af honum. Hann getur gefið landinu verðmæti fyrir það. Það eru ferðamannaskrifstofurnar í Reykjavík, sem græða á honum, gistihúsin í bænum, bifreiðastöðvarnar o. s. frv. En maðurinn, sem á þessa eign, hefir ekkert upp úr henni, því að hann getur ekki selt aðgang að hvernum og dettur það ekki í hug. Það eru til hlutir, sem enginn einstakur maður getur haft upp úr, en getur verið þjóðarnauðsyn að séu til.

Út af Skálholti vil ég benda hv. þm. Borgf. á það, að hverrar skoðunar sem menn eru í jarðeignamálinu, og þótt því yrði slegið föstu við þá atkvgr., sem hann býst við að fari fram um þetta, að jarðirnar eigi að vera í einkaeign, þá geta þeir, sem annars vilja hafa allar jarðir í einstaklingseign, vel viljað, að ríkið eigi Skálholt og aðra fræga sögustaði, eins og Helgafell, Hóla og Reykholt í Borgarfirði. Kaupin á Skálholti koma ekkert við hinu almenna spursmáli um einstaklings- eða ríkiseign jarða. Það er aðeins af sögulegum ástæðum, að við viljum kaupa Skálholt.