01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (4692)

93. mál, fasteignakaup til handa ríkinu

Jónas Guðmundsson:

Ég hefi skrifað undir álit meiri hl. fjvn. í þessu máli og skal stuttlega gera grein fyrir minni afstöðu. Ég er með því af mörgum ástæðum, að ríkið kaupi og eigi slík náttúrufyrirbrigði sem hverinn Grýtu í Ölfusi. Þetta mun vera einn af þeim fáu goshverum, sem eftir eru og erlendir ferðamenn eiga greiðan aðgang að að sjá, en það vita allir, að þeir eru fíknir í að sjá slík hitafyrirbrigði hér á hinu kalda Íslandi. Flm. þessa máls gerði glögga og góða grein fyrir þessu atriði við fyrri umr. málsins, og hirði ég ekki að fara að rekja það. En það er annað, sem ég vildi taka fram í þessum umr. Mér er sagt, að hverinn sé nú svo illa útleikinn orðinn, að það sé mikið spursmál, hvort hann sé ekki orðinn eða að verða ónýtur. Mér er sagt, að gosskálin í hvernum sé brotin, og búið að setja á hann einhvern stromp. Ef svo er komið, að farið er að setja stromp á þetta náttúrufyrirbrigði, þá ætlast ég til, að stj. hugsi sig tvisvar um áður en hún kaupir hverinn. (PO: Gott að geta selt strompinn. — BÁ: Fylgir strompurinn með?). Ég geri ráð fyrir, að svo sé. — Sem sagt, þótt ég sé því meðmæltur, að hverinn sé keyptur og reynt verði að varðveita þetta náttúrufyrirbrigði hér í nánd við Reykjavík, sem er orðin svo fjölsótt af ferðamönnum, þá vil ég samt ekki, að það sé gert án þess að athugað sé, hvort hverinn er orðinu ónýtur og hvort eigandinn muni af þeim ástæðum vilja losna við hann.

Um viðaukatill. get ég verið afarstuttorður. Það er mín skoðun og minna flokksbræðra, að ríkið eigi að eignast sem allra mest af jarðeignum landsins, og munum við því fúslega gefa stj. heimild til að kaupa þessa jörð, sem er eitt af merkustu höfuðbólum landsins. Ég mun greiða viðaukatill. mitt atkv., og þó með sama fororði og áður, að alls þess sé við kaupin gætt, sem gæta ber við kaup á jarðeignum.