01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í D-deild Alþingistíðinda. (4859)

21. mál, ríkisrekstur atvinnuvega og ríkiseignarjarða

Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Till. á þskj. 23, er ég hefi leyft mér að bera hér fram, er í tveim liðum. Hún er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fram fara á næsta vori almenna atkvgr. alþingiskjósenda um eftirfarandi spurningar:

1. Viljið þér, að með nýrri löggjöf sé unnið að þeirri breytingu á þjóðskipulagi Íslendinga, að ríkisrekstur komi í stað einkaframtaks í atvinnumálum?

2. Viljið þér, að stefnt sé að því, að allar jarðeignir á landinu hverfi úr sjálfsábúð og verði ríkiseign?“

Tillögu shlj. þessari bar ég fram á síðasta þingi. Var hún tekin á dagskrá nokkrum sinnum, en jafnharðan tekin af dagskrá aftur, og kom því aldrei til umr. né til afgreiðslu á nokkurn veg. Þessi aðferð hæstv. forseta, að varna því, að till. yrði rædd, og þar með að hún fengi afgreiðslu á nokkurn veg, stafaði áreiðanlega ekki af því, að nokkur hv. þingmanna áliti þetta ómerkilegt mál eða borið fram að þarflausu. Ástæðan var eflaust sú, að hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar á þinginu vildu ekki hætta á þá atkvgr., er farið var fram á í till., en þorðu ekki að gerast berir að þessum ótta, með því að fella till. eða að vísa henni frá með atkvæðaafli.

Till. er nú komin hér aftur fyrir hv. Alþingi, og er nú eins og á síðasta þingi borin fram í samráði við Sjálfstfl. Er mér efi á að ég hefði átt þess kost að mæla fyrir þessari till. nú, ef Sjálfstfl. hefði ekki neytt þess ráðs, að krefjast þess, að útvarpsumr. færu fram um hana, svo sem þingsköp mæla fyrir um.

Um leið og ég get þessa, vil ég einnig láta þess getið, að á síðasta þingi sá hæstv. Alþingi ekki ástæðu til að ákveða nema eina umr. um shlj. till. þessari. En nú eru ákveðnar tvær umr. um þessa till. Þetta gæti bent til þess, að stj. vildi tryggja sér aðstöðu til að tefja málið svo, að atkvgr. næði ekki fram að fara fyrir þingfrestun. Hvort svo er, hvort hæstv. stj. með þessu er að tryggja sér undankomu á flótta undan atkvgr., sem till. gerir ráð fyrir, skal ég láta ósagt að svo komnu. Reynslan sker úr því. En ef svo reynist, þá hefir hæstv. stj. um leið auglýst ótta sinn við úrskurð kjósendanna.

Þessa skýringu hefir mér þótt nauðsynlegt að gefa, af því að óvenjulegum ráðum hefir verið beitt til þess að tefja afgreiðslu þessa máls, bæði á síðasta þingi og á því þingi, sem nú situr.

Skal ég nú snúa mér að því að rökstyðja réttmæti þeirrar kröfu, að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla sú, sem till. gerir ráð fyrir.

Fyrir síðustu kosningar gaf einn landsmálaflokkanna út sérstaka, nýja stefnuskrá. Flokkur þessi var Alþfl. Kosningaávarp þetta var áætlun um starfsskrá yfir kjörtímabil það, sem byrjaði eftir kosningarnar, og var við það miðað, að þessi sami flokkur, Alþfl., réði stjórn og löggjöf það kjörtímabil. — Kosningaávarp þetta var „á ára áætlun Alþýðuflokksins“.

Flokkurinn hlaut rúml. 1/5, hluta þeirra atkv., sem greidd voru, og minna en 1/4 hluta þeirra atkv., sem standa bak við núv. þingflokka.

Þótt gengið væri út frá því, að ekkert annað en þessi 4 ára áætlun hefði dregið atkvæði undir Alþfl., þá sýna þó þessi úrslit, að því hefir farið mjög fjarri, að kjósendur landsins hafi aðhyllzt stefnu hennar. En það er kunnugt, að kjarni 4 ára áætlunar Alþfl. er ríkisrekstur atvinnuvega í stað einkarekstrar, og ríkiseign bújarða í stað sjálfseignar ábúenda. — Þessi kjarni áætlunarinnar var að sönnu dúðaður í einskisverðan vaðal um framfarir til lands og sjávar og bætt kjör alþýðunnar, allt kögrað og prýtt með venjulegri loforðafrekju lýðskrumara. Orðflaumur sá allur glitraði eins og sápufroða í sólskini. En svar kjósendanna var eigi að síður alveg ótvírætt: Þeir höfnuðu gersamlega ríkisrekstrar- og ríkiseignarstefnunni, eins og áðurnefndar atkvæðatölur sýna. Það var þess vegna vægast sagt furðulegt, að þegar Alþfl. og Framsfl. að kosningum loknum gengu saman til stjórnarmyndunar, þá skyldi grundvöllur samninganna milli þessara flokka vera framkvæmd 4 ára áætlunar Alþýðuflokksins, þjóðmálastefnuskrár, sem kjósendur landsins voru nýbúnir að hafna með svo geysilegum atkvæðamun sem áður er sagt. — Samningurinn, sem núv. stjórnarflokkar gerðu eftir kosningarnar, hefir áður verið hirtur, og þarf ég því ekki að rekja einstakar greinar hans. En að hann sé byggður á 1 ára áætlun Alþfl., er alveg ótvírætt, bæði af samningnum sjálfum og af því, að eins og hann er birtur í 227. tbl. Alþýðubl. 1934 með ráði Framsfl., er við hverja grein vísað til tilsvarandi greinar í 4 ára áætlun Alþfl.

Þeir, sem að þessum samningum stóðu, kynnu nú að segja sem svo, að kjósendur Framsfl. hafi áreiðanlega allir verið fylgjandi 4 ára áætlun Alþfl. Þeir hafi bara ekki verið um það spurðir. — En hvers vegna voru þeir ekki um það spurðir? Var það ekki einmitt af því, að frambjóðendur Framsfl. vissu, að margir þeirra, sem ætlazt var til, að kysu þá, voru svo gersamlega andvígir ríkisrekstrar- og leiguliðastefnu sósíalista, að ekki einu sinni gömul flokksbönd, með öðrum tökum, sem Framsfl. hefir á fylgismönnum sínum, mundu megna að halda þeim til fylgis við flokkinn, ef frambjóðendur hans hefðu orðið sannir að sökum í þessu máli fyrir kosningar.

Nú er það eitt að semja og annað að uppfylla samninga. Ýmsir framsóknarkjósendur hugguðu sig við það, eftir að nefndur samningur milli Framsfl. og Alþýðufl. var gerður, að hann yrði aldrei framkvæmdur með löggjöf út í æsar. En þetta hefir farið á annan veg, eins og vitað er og ég nú skal rökstyðja nánar. Því þegar á fyrsta þingi eftir kosningarnar, þinginu í vetur, var gengið miklu lengra í ríkisrekstraráttina heldur en samningarnir beinlínis kröfðust, og er alveg bert, að í samningunum hefir mjög verið stundað að breiða yfir hinn sanna ásetning í þessum efnum, þann ásetning, að gerbreyta þjóðskipulaginu á skömmum tíma eftir stefnu kommúnista.

Ég skal svo í stuttu máli minnast á helztu frumvörpin, sem fyrir atbeina ríkisstj. voru flutt á síðasta þingi um ríkisrekstur og um ríkiseign jarða, bæði þau, sem urðu að lögum, og þau, sem urðu að bíða, en ætlað mun, að fái afgreiðslu á þessu þingi. Skal ég fyrst telja það, sem lýtur að innflutningsverzluninni:

1. Heimild fyrir ríkisstj. til einkasölu á bifreiðum, rafvélum, rafáhöldum o. fl. Frv. þetta varð að lögum, og er undirbúningur undir framkvæmd þegar hafinn.

2. Um einkasölu á eldspýtum og vindlingapappír. Varð að lögum, og er þegar komið í framkvæmd.

3. Um verzlun með tilbúinn áburð. Varð að lögum. Áður voru heimildarlög um ríkiseinkasölu á áburði. Skv. þessum lögum er ríkisstj. skylt að selja þá einkasölu á stofn.

4. Um einkasölu á fóðurmjöli og fóðurbæti. Varð ekki útrætt.

5. Um gjaldeyrisverzlun o. fl.

Ég hefi ekki tíma til að rekja efni allra þessara laga né áhrif þeirra á hag almennings í landinu, aðeins hlýt ég að segja nokkur orð um gjaldeyrislögin. Nafn þeirra laga segir hvergi nærri tæmandi til um efni þeirra, því að í 2. gr. þeirra er ríkisstj. heimilað að skipa svo fyrir, að enginn maður megi flytja til landsins nokkra vörutegund, hverju nafni sem nefnist, nema með leyfi innflutningsnefndar, sem stj. skipar. Því fer fjarri, að lögum þessum hafi enn verið beitt eins og ætlað er og verða mun, ef núv. ríkisstj. verður lengi við lýði (sem guð forði oss öllum frá). En þó hafa afleiðingar þeirra lagzt allþungt á landsfólkið í óeðlilega háu vöruverði, og þar af leiðandi áframhaldandi og hækkandi dýrtíð, sem leggst því þyngra á landsfólkið, sem atvinnuleysi og fátækt þrengir meira að. Valdboðnum innflutningshöftum og einokunarverzlun fylgir alltaf verðhækkun á innfluttu vörunum. Höftin skapa innflytjendum afskaplega fyrirhöfn og óskaplegan kostnað, sem leggst á vöruna, og skapa jafnframt meiri og minni einokunaraðstöðu. Er ég sannfærður um, að almenningi í landinu mundi alveg blöskra, ef hann vissi, hve ódýrar eru í nágrannalöndum okkar margar þær vörur, og það nauðsynjavörur, sem hér eru seldar okurverði, verði, sem ríkisrekstrarstefnan í verzlun hefir skapað. —

Þá hefir andi ríkisrekstrarins látið greipum spennt um framleiðslustarfsemi þjóðarinnar til lands og sjávar, og mun þó ætlað, að þar verði betur hert að síðar. — Um sölu landbúnaðarafurða get ég verið fáorður. Í lögunum um sölu þessara innl. framleiðsluvara hefir verið svo ríkt fram gengið í því að þjóna ríkisrekstrarhugsjóninni, að þau eru miklu frekar lög um sölubann heldur en um fyrirgreiðslu með sölu. Hafa höft þessi þegar leitt til minnkandi sölu og neyzlu landbúnaðarafurða innanlands, til stórtjóns fyrir bændur um land allt. Bændur, sem frá fornu fari hafa selt sjálfir afurðir sínar innanlands, og hafa getað lifað á búum sínum fyrir það eitt, að þeir hafa fengið óáreittir að bjarga sér sjálfir, — hafa getað látið sína eigin vinnu spara sér milliliðakostnað — eru nú eltir eins og þjófar og ræningjar um holt og heiðar, til þess að taka. af þeim rjómaflöskur og kjötkvartil, sem þeir hafa sjálfir framleitt á búum sínum. — Í fyrsta sinn í sögu þjóðarinnar eru lögregluverðir settir við vegina, til þess að hafa hendur í hári bænda og taka af þeim eign þeirra, er þeir fara með til sölu. Þetta er gert í nafni laganna, og þó segir í 62. gr. stjórnarskrárinnar: „Eignarrétturinn er friðhelgur, og í 64. gr.: „Engin bönd má leggja á atvinnufrelsi manna“.

En hvað hefir það að segja, hvað stjskr. landsins býður, þegar lögmál ríkisrekstrarins, kommúnismans, bannar það sama? Framsóknarþingmennirnir hafa eflaust hugsað svo, er þeir „skrifuðu undir“ hjá Alþfl. — gengu undir jarðarmen kommúnismans —, að fremur beri að hlýða guði en mönnum, fremur bæri að hlýða lögmáli yfirdrottnara þeirra hér á þingi heldur en stjórnarlögum landsins. — Og þessi yfirdrottnari hér í þinginu er vissulega vandlátur guð, sem vitjar misgerða feðranna á börnunum í þriðja og fjórða lið, eins og komandi ríkisþrælahald og hungursneyð hér í landi því miður brátt mun sanna. — Lögmál ríkisrekstrarstefnunnar er afnám einkaframtaks, afnám heiðarlegrar sjálfsbjargarviðleitni. Allir skulu lifa, og þó einkanlega deyja, fyrir náð ríkisvaldsins og í þjónustu kommúnismans.

En þótt löggjöf þessi um afurðasölu bænda stefni mjög í ríkisrekstraráttina, þar sem með henni er að miklu leyti tekinn af bændum umráðarétturinn yfir afurðum þeirra og fenginn í hendur mönnum, sem bændur hafa ekki valið, og mundu ekki kjósa, þá er þó miklu lengra gengið og til meiri háska stefnt með lögum þeim, sem síðasta Alþingi samþykkti um sölu sjávarafurða. Síðasta Alþingi samþykkti tvenn lög um þetta efni: Lög um fiskimálanefnd og lög um sölu síldar o. s. frv. Með lögum þessum er umráðarétturinn tekinn úr höndum hinna sjálfstæðu atvinnurekenda og fenginn í hendur stjórnskipuðum nefndum. Framleiðendur og eigendur sjávarafurða eru með lögum þessum hnepptir í bönd. Þeir mega ekki afla fiskjarins, ekki verka hann, ekki verðleggja né bjóða til kaups, nema með leyfi þessarar nefndar, sem öllu ræður, og loks er með lögum þessum stj. heimilað að setja ríkiseinkasölu á fiskinn.

Af því að mér gefst tækifæri til að ræða þetta mál nú, ekki aðeins fyrir hinu háa Alþingi, heldur einnig í áheyrn alþjóðar, þykir mér rétt að skýra frá því í stórum dráttum, hvernig rekstur þessa mikla atvinnuvegar hefir gengið undanfarið, og hvernig sakir stóðu, þegar stjórnarflokkarnir réðust í það eftir síðustu kosningar að hrifsa atvinnuveg þennan að mestu leyti úr einkarekstri og hneppa hann í fjötra ríkisrekstrarins.

Verðmæti útfluttra ísl. sjávarafurða hafa mörg undanfarin ár verið yfir 90% af öllum útfluttum vörum frá landinu, og numið að meðaltali, allmörg undanfarin ár, milli 50 og 60 millj. króna á ári. Framleiðslan hefir aukizt geipilega að magni, hún hefir margfaldazt síðustu tvo áratugina. En svo hefir verið vel á haldið af atvinnurekendum, að alltaf hafa unnizt markaðir fyrir viðbótina, svo allt hefir selzt, fyrst og fremst fyrir það, að ísl. sjávarafurðir hafa verið í fremstu röð að gæðum, og hægt frá í markaðslöndunum samskonar framleiðslu annara þjóða, sem þó vissulega standa Íslendingum framar að öðru leyti í menningu.

Það er þessi mikli viðgangur sjávarútvegsins í einkarekstri, sem að langmestu er þess valdandi, að tekjur ríkissjóðs hafa síðan um aldamót aukizt úr 3/4 millj. kr. á ári upp í 17 millj. kr. á ári, og um leið á drýgstan þátt í því, að þjóðin hefir á síðari árum getað lifað ríkara menningarlífi en áður. Samgöngur á sjó og landi, sími, útvarp, skólar, lenging mannsæfinnar, bætt húsakynni og margháttuð aukin lífsþægindi almennings, á allt sterkastar og breiðastar rætur í viðgangi sjávarútvegsins, sem allt til þessa hafði verið rekinn í einkarekstri.

Á allra síðustu árum hafa skapazt alveg sérstakir örðugleikar fyrir útgerðina. Á ég ekki þar við hið mikla verðfall afurðanna, samfara ofsóknum skammsýnna manna, heldur þá söluörðugleika, sem stafa af sigri haftastefnunnar í viðskiptalöndum okkar, og þar af leiðandi innflutningshömlum í þeim löndum. Örðugleikum þessum mættu framleiðendur sjávarafurða með samtökum, og með því að leggja mesta vandann á herðar sinna færustu manna, þeirra, sem lengst og bezt höfðu starfað að þessum málum, og höfðu vit, þekkingu og reynslu öðrum framar jafnframt því að hafa þar hugsmuna að gæta.

Þetta hefir jafnan verið aðferð þeirra þjóða, sem vitrar eru: að kveðja til sína færustu menn, þegar mikinn vanda bar að höndum. En núv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar hafa aðra aðferð. Framkvæmd ríkisrekstarstefnunnar er þeim svo mikið höfuðatriði, að fyrir því verður allt að víkja. Allir þeir, sem reynslu hafa og þekkingu, eru sendir heim, en í staðinn sett nefnd mann,, sem valin er eingöngu eftir pólitík. Formannsval stjórnarinnar í fiskimálanefndina er glöggt vitni þess, ettir hvaða reglu stj. telur, að velja beri til þessa vandasamt verks. Það er olíusali, sem aldrei hefir nálægt útvegsmálum komið á neinu sviði, og vitanlega ber á þau mál ekkert skyn. Þótt hann sé maður vel vitiborinn. En hann hefir til að bera það, sem stj. telur sýnilega mestu varða: Hann er valdamaður í flokki sósíalista og kröfuharður ríkisrekstrarmaður.

Til þess að rökstyðja það, að ofurkapp stj. í ríkisrekstrarmálunum hafi svipt hana allri gætni, verð ég að bæta við nokkrum orðum um ástandið eins og það nú er:

Undanfarin ár höfum við aflað og selt 60 til 70 þús. smálestir af verkuðum saltfiski. Eins og nú standa sakir, eru engar líkur til, að seljist á gömlu markaðsstöðunum meira en 30, mest 40 þús. smálestir. Um síðustu áramót voru um 20 þús. smálestir óseldar af afla ársins 1934. Það yrðu þá 20, kannske aðeins 10 þús. smálestir af afla ársins 1935, sem unnt yrði að selja í gömlu saltfisksmarkaðslöndunum, eða 1/6 af því fiskmagni, sem líklegt er, að aflist og selja þurfi. — Sýnist mönnum þetta útlit hvetja til þess að hrinda frá sér öllum þeim kröftum, sem áður hafa reynzt drýgstir til þess að yfirstíga markaðsörðugleikana? Sýnist mönnum ekki þá of mikið á hættu lagt, til þess að koma í framkvæmd ríkisrekstrarhugsjón sósíalista? — Ég vil a. m. k. krefjast þess, að það sé ekki gert að þjóðinni fornspurðri, en að henni sé gefinn kostur á að skera úr því með atkv. kjósenda, hvort svo skuli blint flanað út á ríkisrekstrarbrautina, því ekki er vitað, að ríkið hafi til unnara tekjustofna að hverfa en þeirra, sem þarna er verið að kippa undan, né þjóðin að neinum nýjum atvinnugreinum, er bætt geti það atvinnutjón, sem þarna blasir við.

Ég hlýt að fara fljótt yfir sögu, því enn er órætt um síðari lið till. En áður en ég kem að honum, hlýt ég þó að benda enn á nokkur atriði, sem ýmist voru leidd í lög á síðasta þingi eða þá aðeins flutt þar og síðan geymd yfirstandandi þingi. Ber þar fyrst að nefna lögin um síldarverksmiðjur ríkisins. Með þeim lögum er öllum öðrum en ríkinu bannað að reisa eða starfrækja síldarverksmiðjur, ef ríkisstj. vill svo vera láta. — Þá kom fram frv. um það, að öllum öðrum en ríkinu skuli óheimilt að flytja fólk — farþega — með ströndum fram. Ennfremur að óheimilt sé að flytja farþega á bifreiðum um landið án sérleyfis frá ríkisstj. — Hið fyrra var ekki útrætt, en hið síðara varð að lögum.

Loks má nefna frumv. um ríkiseinokun á útgáfu skólabóka og ríkiseinokun á líftryggingum, sem hvorugt var útrætt á síðasta þingi, en hvorttveggja er nú komið fram aftur á þessu þingi.

Af þessari upptalningu, sem ég hefi orðið að gera í mjög stuttu máli, ætla ég, að hver maður geti séð, að það er ekkert smáræði, sem flætt hefir yfir af ríkisrekstraráformum svona á einn þingi, og að ekki þurfi að halda lengi áfram með sama hraða til þess að yfir flæði allt einkaframtak og alla sjálfsbjargarviðleitni á landi hér.

En þó er órætt um það atriðið, er ég tel mestu varða: Það er áform sósíalista um afnám sjálfsábúðar á Íslandi. Á síðasta þingi báru nokkrir fylgismenn stj. fram í Nd. frumv. til l. um afnám laga um sölu þjóðjarða og kirkjujarða. Frv. var ekki útrætt þegar þingi sleit. Frumv. þetta er nú aftur borið fram á þingi því, sem nú situr. Hefir landbúnaðarráðh., sem svo er kastaður, lýst því yfir, að það sé samningur milli stjórnarflokkanna, að frumv. þetta verði að lögum á þessu þingi. Skil ég svo, að þetta eigi að ske í haust. þegar þing kemur aftur saman eftir þingfrestun þá, sem ráðið mun, að hefjist næstu daga. Þessi yfirlýsing landbúnaðarráðh. er í samræmi við samninginn, er sósíalistar létu Framsókn skrifa undir, þegar stj. var mynduð. 10. gr. þess samnings, sem að efninu er 5. gr. fjögra ára áætlunar Alþfl., hljóðar svona:

„10. Að afnema þegar á næsta þingi lög um þjóð- og kirkjujarðasölu, og setja jafnframt löggjöf um erfðafestuábúð á jarðeignum ríkisins. Jafnhliða sé undirbúin löggjöf um jarðakaup ríkisins, er komi til framkvæmda eigi síðar en í ársbyrjun 1936.“

Í þessari samningsgrein er það beinlínis tekið fram og á það lögð sérstök áherzla (undirstrikað í samningnum), að bannið gegn því, að ábúendur megi eignast þjóðjarðirnar eða kirkjujarðirnar, sé aðeins upphaf þess verks, sem um er samið: að afnema með öllu sjálfseignarbúskap á Íslandi. Niðurlag samningsgreinarinnar, sem er feitletrað, er svona: „Jafnhliða sé undirbúin löggjöf um jarðakaup ríkisins, er komi til framkvæma eigi síðar en í ársbyrjun 1936.“

Menn taki eftir því, að það á ekki því aðeins að kaupa jarðirnar af bændum, að þeir vilji selja þær. Virðist þó, að sósíalistar hefðu vel mátt láta sér nægja í bráð að leggja undir ríkið þær jarðir, sem hægt var að toga undan bændum án löggjafarkúgunar, nú þegar búskapur ber sig ekki og bændur eru að uppgefast í baráttunni, því svo aðþrengdur er margur, að hann mundi láta telja sig á að afhenda eignarréttinn á jörðinni sinni, til þess að losast við skuldirnar, án þess að athuga, að það, sem þá skeður, er ekkert annað en það, að hann hefir afsalað sér eignarrétti á jörðinni sinni, sem kannske er gamalt ættardýrgripur, vígður lífsstríði og lífsgleði feðra hans í marga ættliði, en að hann er jafnskuldugur eftir sem áður, því sem leiguliði sósíalista verður hann að standa straum af skuldunum, sem hann hélt, að hann mundi losast við með eignarréttinum. En í kaupbæti hefir hann tekið yfir sig hroka og yfirdrottnun hinna nýju landsdrottna, sósíalistanna.

En sósíalistar vilja engan seinagang. Framsókn hefir áður fengið að reyna það, að þeir karlar kunna að berja fótastokkinn. Þeir létu því Framsókn skrifa undir, að jarðakaup ríkisins skyldu knúin fram með lögum og ekki byrja seinna en um næstu áramót. Það er engum vafa undirorpið, að með þessari samningsgrein er afráðin stórkostlegasta og afleiðingaríkasta þjóðskipulagsbreyting, sem til verður stofnað hér á landi. Afnám eignarréttar á landi, eignarréttar þeirra, sem yrkja landið og nytja, er róttækasta krafa sósíalista. Í henni felst undirstaðan undir kommúnistaskipulaginu. Um það mun standa höfuðorusta næstu árin, hvort afnema skuli með öllu sjálfseignarábúð hér á landi, eða hvort allir bændur á Íslandi eigi að fá ábýlisjarðir sínar til eignar. Í þessu liggur að mínu áliti höfuðágreiningurinn milli rauðu stefnunnar hér á landi og sjálfstæðisstefnunnar.

Ég fyrir mitt leyti tel alveg sjálfsagt, að ríkið afhendi ábúendum þjóðjarða og kirkjujarða jarðir þessar til eignar án sérstaks endurgjalds, um leið og sett verða lög um óðalsrétt.

Í fljótu bragði virðist mönnum þetta kannske vera stór gjöf. En svo er alls ekki. Árlegar tekjur ríkissjóðs í jarðaafgjöldum hafa undanfarin ár verið eitthvað um 40 þús. kr., en nú er þessi upphæð áætluð í fjárl. 20 þús. kr. Þessa upphæð margfaldaða mundi þjóðfélagið græða á myndarlegri búrekstri á þessum jörðum yfirleitt, eftir að þær kæmust í sjálfsábúð. Síðan ætti að vinna að því að hjálpa öðrum leiguliðum til að eignast ábýlisjarðir sínar, unz allir bændur á Íslandi eru sjálfseignarbændur.

Í deilunni um þetta horfast tvær andstæðar stefnur í augu, og landsfólkið verður að fá færi á að skipa sér í þá fylkinguna, sem það telur þjóðfélaginu hollara.

Sá tími, sem mér er markaður hér, leyfir ekki, að ég rökstyðji mikilvægi þessarar eignarréttardeilu, svo sem efnistanda til. En að lokum vil ég segja þetta:

Af aðgerðum þess eina þings, sem lokið er síðan síðustu kosningar fóru fram, er það alveg bert, að núv. þingmeirihluti er ráðinn í því að hneppa atvinnuvegi þjóðarinnar í ríkisrekstur og afnema sjálfsábúð á landi hér — allt að þjóðinni fornspurðri. Þetta tel ég óheimilt, og þess vegna krefst ég atkvgr. þjóðarinnar um þetta án þess að því sé blandað við önnur mál.

Sósíalistar munu sjá það, að tíminn er hentugur nú til að svipta þjóðina athafnafrelsi og eignarrétti, er örðugleikar sverfa hart að henni á flestum sviðum, því hægt er að „heygja bugaða sál til botns hverja andstyggð að súpa“. En ég treysti því nú samt, að íslenzka þjóðin, sem staðizt hefir svo margar eldraunir á umliðnum öldum, muni enn veita viðnám þessari plágu og ekki selja viðnámslaust af hendi frelsi sitt og eignarrétt, — að sú kynslóð, sem nú byggir landið, vilji ekki láta niðja sína vakna í hlekkjum kommúnismans, sem hvarvetna gerir þegn að þræli.