18.12.1935
Efri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í D-deild Alþingistíðinda. (4908)

200. mál, landsreikningur

Flm. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Þar sem tilgangi þessarar till. er náð, er vitaskuld eðlilegt, að hún verði tekin aftur, og er ekki ástæða til, að hún verði samþ. formlega, þar sem hæstv. ráðh. hefir gefið fullnægjandi svör.

Ég vil minna á, að það er ekki ráðh. að segja, að við svo búið megi standa eða úrskurða um aths. við LR., heldur er það endurskoðendanna. Úr því að ráðh. fór að blanda inn í þetta ákúrum til endurskoðendanna, um að við hefðum ekki gert skyldu okkar, finnst mér skylt að sýna fram á, að þetta er alveg gersamlega á misskilningi byggt.

Það er alveg rétt, að reikningar Alþingis heyra ekki undir hinu umboðslegu endurskoðun. Hann segir, að við höfum ekki litið nema á niðurstöðutölur, en þetta er ekki rétt, því farið var gegnum alla reikningana og borið saman, svo að hér var fullkomin endurskoðun. En hæstv. ráðh. blandar hér saman endurskoðun og eftirliti með því, hvað ríkisféhirðir borgar út. Og þessar skekkjur koma af því, að ríkisféhirðir hefir borgað meira út en reikningar frá skrifstofu Alþingis sýna, að honum ber, og verða þeir því í ósamræmi við færslur ríkisbókhaldsins, og það er ekki endurskoðendanna að finna þetta út frekar en verkast vildi. Við höfðum mjög nauman tíma, og var erfiðara um að vinna við endurskoðunina vegna þess, hve stutt var milli þinghalda, en við settum töluverða vinnu í að leita þetta uppi, en fundum ekki. Ég vil algerlega mótmæla því, að við endurskoðendurnir höfum brugðizt hér skyldu okkar. Reikningar Alþingis voru endurskoðaðir af okkur og reyndust algerlega réttir. Við beindum þessu til ríkisbókhaldsins, en ekki til hinnar umboðslegu endurskoðunar. Við fórum í að leita, hvers vegna niðurstöðutölum bæri ekki saman, en annars er ekki ástæða til að karpa um þetta við ráðh.

Ég vil þá minnast á eina skekkjuna, sem er greiðsla til hv. þm. S.-Þ. Tvisvar var búið að gera aths. út af henni og fékkst ekki leiðrétt. Loks var þetta greitt, og nú kemur fram misvísing í þriðja sinn vegna þessarar upphæðar. (JJ: Þetta gerir sparsemin). Ég er ekki að ásaka hv. þm., en aðeins að benda á, að þessi upphæð hefir þrisvar sinnum valdið skekkju í LR.

Hæstv. ráðh. var að tala um, að réttara gæti verið, að skrifstofa Alþingis annaðist allar útborganir. Þetta getur verið rétt, — ég veit þó ekki, hvort til þess er sérstök ástæða, en hefði það verið, þá hefði þessi skekkja aldrei orðið á þennan hátt, því þá hefðu niðurstöðutölurnar á reikningi skrifstofunnar komið óbreyttar inn á reikninginn. Þannig er þetta um fjölda reikninga, að niðurstöðutölur einar eru færðar inn hjá ríkisbókhaldinu á LR. og verður jafnan að athuga þá reikninga sérstaklega. En ef ætti að taka þann sið upp að greiða alla reikninga hér í skrifstofunni, yrði ekki hjá því komizt að ráða sérstakan mann til þess starfa og auka þannig skrifstofukostnaðinn. En þetta er ekki flóknara en svo, að þetta ætti að geta stemmt. Mismunurinn hefir alltaf fundizt þangað til nú og hefir hann venjulega stafað af því, að nokkuð af því kostnaðinum hefir verið greitt utan ávísana frá skrifstofustjóra Alþingis. Þingkostnaðurinn hefir, að ég held, aldrei stemmt við upphæðir á landsreikningunum, en hingað til hefir munurinn alltaf fundizt við stutta eftirgrennslan.