13.11.1935
Sameinað þing: 21. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í D-deild Alþingistíðinda. (4957)

159. mál, afnotagjald útvarpsnotenda

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Alveg samskonar þáltill. og þessi, sem hér liggur fyrir, var flutt á þinginu 1934 og náði samþykki Ed., en vannst ekki tími til að afgr. hana í Nd. á því þingi. En við flm. þessarar till. vildum ekki láta málið falla niður og berum hana því fram nú í Sþ., til tryggingar því, að ekki fari um hana eins og í fyrra, er hún þurfti að ganga milli beggja d. og dagaði svo uppi.

Mér virtist í fyrra koma fram fullur skilningur hjá flestum hv. þm. um þá erfiðleika, sem útvarpsnotendur úti á landi, er eigi hafa raforku, eiga við að stríða. Einnig kom fram vilji í þá átt, að vilna þeim mönnum eitthvað á þó sá aðstöðumunur verði aldrei jafnaður til fulls, mætti gera nokkuð í þá átt.

Eins og vér flm. tökum fram í grg. till., er tilætlunin með henni sú, að útvarpsnotendum verði ekki íþyngt með hærri gjöldum en nauðsyn ber til, svo að útvarpsreksturinn beri sig. Það eru fleiri gjöld, sem útvarpsnotendur verða að greiða, en afnotagjaldið. Eg sýndi í fyrra fram á, að þeir, sem nota rafhlöðutæki, þyrftu að greiða 80 kr. á ári auk afnotagjaldsins, viðhalds tækis og vaxta af kaupverði þess. Nú er þörfin hvergi meiri fyrir útvarp en í sveitunum og afskekktum sjávarþorpum, einmitt þar, sem raforku er sízt að fá. Vænti ég, að hv. þm. skilji þetta og vilji styðja að því, að sem flestu fólki verði fært að afla sér útvarpstækja. Nú er svo ástatt, að Ísland er hæst allra landa í álfunni með útvarpsnotendur í hlutfalli við fólksfjölda. En það er líka með þeim hæstu með afnotagjaldið. Í Englandi er afnotagjaldið 10 shill., og í Danmörku 10 kr. og jafnvel gert ráð fyrir að lækka það niður í 5 kr. Í Noregi veit ég ekki fyrir víst, hvað það er. Í fyrra var það 20 kr., m þá lá fyrir þinginu till. um lækkun. Nú er svo komið, að útvarpið og viðtækjaverzlunin hafa ekki svo lítinn tekjuafgang, sem mun þó verða meiri framvegis, ef ekki verður óhófleg eyðsla í kaupgreiðslum og tilkostnaði við dagskrá. Ég býst við, að fjöldi útvarpsnotenda vildi heldur lækkun afnotagjaldsins og eitthvað styttri dagskrá. Nú eru útvarpsnotendur taldir 11360, og mun því varlegt að áætla þá 111/2 þús. um næstu áramót. Og ef þeim fjölgar um 1500 á þessu ári, ætti að mega gera ráð fyrir, að þeim fjölgi um 500 næsta ár, eða upp í 12 þús. En við þá fjölgun ætti að mega lækka afnotagjaldið, enda hygg ég, að fjölgunin verði örari en þetta. Rafhlöðutækin eru um 20% af öllum tækjum landsmanna, svo lækkun afnotagjaldanna mundi nema 30—35 þús. kr. alls. Hafa margir fengið sér tæki með það fyrir augum, að þegar notendum fjölgaði, mundu afnotagjöldin lækka um leið.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um málið við þessa umr., því ég geri ráð fyrir, að því verði vísað til fjvn.