25.10.1935
Neðri deild: 57. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

130. mál, fiskimálanefnd o.fl.

Frsm. (Finnur Jónsson):

Þetta frv. er ávöxtur þess samkomulags, er náðist á síðastl. vori milli atvmrh. og Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda, og aðeins staðfesting þeirra bráðabirgðalaga, sem atvmrh. gaf þá út.

Breytingin frá gildandi lögum er aðallega fólgin í því að lækka nokkuð það lágmarksákvæði, sem þar er sett um þátttöku, og einnig er kveðið nokkru nánar á um, hverjir geti orðið þátttakendur í slíku félagi og um réttindi þeirra. Ennfremur um íhlutunarrétt ríkisstj. og samstarf við fiskimálanefnd. Ég ætla ekki að rekja frv. nánar, því það er aðeins staðfesting á því fyrirkomulagi, sem hæstv. atvmrh. og fiskeigendur urðu sammála um. Sjútvn. er sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. án þess þó að slá föstu, að einstakir nm. vilji ekki haga fisksölunni með nokkuð öðrum hætti en gert er í frv.