05.11.1935
Efri deild: 61. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Það er í rauninni lítið tilefni til þess að bæta miklu við umr. Það er misskilningur hjá hv. þm. N.-Ísf., þar sem hann gerði ráð fyrir, að innflutnings- og gjaldeyrisnefnd hefði haft með úthlutun leyfanna að gera. Um þetta hefir ekki verið annað samstarf við innflutnings- og gjaldeyrisnefnd en það, að fá sem gleggstar upplýsingar um, hvað hægt væri að flytja inn frá vissum löndum, eins og t. d. Þýzkalandi. Það hefir verið lagt fyrir hana að beina kaupum eins mikið og unnt er til þeirra landa, þar sem við seljum vörur okkar. Mér finnst ekki rétt, að innflutnings- og gjaldeyrisnefnd hafi þessa úthlutun með höndum, því þar eiga framleiðendur engan fulltrúa.

Hv. þm. N.-Ísf. gat þess, að það myndi vera ofmælt hjá mér, að engin óánægja hefði verið með úthlutun leyfanna. Ég skal nú ekki bera á móti því, að þetta geti verið rétt hjá hv. þm. Ég átti við það, að ekki hefði verið óánægja með það, hvernig leyfunum hefði verið úthlutað. Hitt er auðvitað eðlilegt, að ef hærra verð er borgað í einhverju einstöku landi heldur en annarsstaðar, þá vilji menn nota sér það. En eins og ég sagði áður, þá er engin bót að því að fá hærra verð, þegar lengi verður að bíða eftir greiðslu, og þar hrúgast því fyrir innstæða, sem ekki er hægt að fá nærri strax. Það fer því fjarri, að þetta frv. sé til þess að þyngja hlut útflytjenda og framleiðenda, heldur losar það þá við áhættu þá, sem því er samfara að selja meira en fæst borgað strax.

Ég sagði í fyrri ræðu minni, að ég myndi taka það til athugunar, ef uppástunga kæmi frá sjálfstæðismönnum eða hv. 10. landsk. um að skipa ákveðna n. til þess að hafa þetta með höndum. En stj. hefir ekki séð ástæðu til þess að stofna til slíkrar n., en þessu er svo háttað, að það liggja oft fyrir margar beiðnir, og það er ekki hægt að draga að svara þeim, heldur verður að gera það strax, og þyrfti þá að hafa sérstaka skrifstofu, og yrði þá að ráða menn til þess að hafa það starf með höndum.

Ég held, að það sé misskilningur hjá hv. 10. landsk., að iðnaðarvörukaupmönnum sé ívilnað á kostnað framleiðenda. Þetta er ekki rétt að því er snertir framkvæmd þessara l., því það hefir þvert á móti verið öfugt, því framleiðendum hefir verið ívilnað á kostnað iðnaðarvörukaupmanna. En það verður auðvitað að gæta hófs í hverjum hlut.

Þá sagði hv. 10. landsk., að Þjóðverjar, sem ferðuðust hingað, fengju minni gjaldeyri en þeir, sem færu t. d. til Danmerkur. Ég get nú ekki gefið fullkomnar upplýsingar um þetta, en til skamms tíma hefir því farið fjarri, að þeir Þjóðverjar, sem til Danmerkur hafa farið, hafi fengið þá upphæð, sem hv. 10. landsk. nefndi. Þeir hafa fengið víst hámark á viku, og það hefir oft verið bundið við ákveðinn tíma, sem þeir mætu vera, og sú upphæð, sem þeir hafa fengið, hefir aldrei farið fram úr 100 dönskum krónum á viku. Það hafa yfirleitt verið vandkvæði á því að fá þýzkan gjaldeyri til utanferða. Í samningum þeim, sem er milli okkar og Þjóðverja, eru engin ákvæði um þetta, og munu þau hvergi vera, því þetta heyrir undir gjaldeyrisákvæði þeirra innanlands.

En það, sem vakir fyrir hv. þm., mun vera það, hvort ekki sé hægt að nota innstæðu okkar á „clearingkonto“ þannig, að ferðamenn geti fengið peninga í gegnum hana til þess að nota hér. En það er ekki hægt, því að tilgangurinn með clearingkonto er sá, að keyptar séu þýzkar vörur, framleiddar í Þýzkalandi, svo að atvinna fáist fyrir þýzka menn. Og ég hygg, að það séu engar líkur til þess, að breyting fáist á þessu.

Hinsvegar hefir verið reynt að fá peninga handa íslenzkum námsmönnum, sem dvelja í Þýzkalandi, færða yfir í viðskiptakonto. Og er það sanngjarnt af okkar hálfu, því það eru peningar, sem notaðir eru í landinu sjálfu, og skapa því atvinnu fyrir innlenda menn.

Ég held, að ótti hv. þm. við það, að útflutningsleyfi á ull hafi komið of seint, sé ástæðulaus. Ég veit um eitt firma, sem hafði sent ull til Danmerkur, en það fékk leyfi til þess að taka þaðan eins mikið af ull og það vildi.