13.11.1935
Neðri deild: 72. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Fjmrh. (Eysteinn Jónason) [óyfirl.]:

Ég vil ekki þreyta þingheim með því að hafa spurninguna yfir oftar, en ég vil taka það fram, að henni er ósvarað ennþá. En það er eitt atriði hjá hv. þm., sem ég vil koma inn á. Hann vill láta líta svo út, sem ríkisstj. hafi torveldað möguleikana fyrir því, að hægt væri að selja landbúnaðarafurðir til Þýzkalands, og ef frjálst hefði verið um markaðinn og leyfið hefði verið veitt, þá hefði mátt kaupa inn þaðan fyrir sama verð eða upphæð og flutt hefði verið út. Ég vil fræða hv. þm. á því, að í fyrra voru engar hömlur, en þó gátu ekki landbúnaðarútflytjendur notað Þýzkalandsmarkaðinn, því að þeir gátu ekki keypt vörur þaðan í staðinn. Ef gjaldeyris- og innflutningsn. hefði ekki þetta ár haldið innflutningnum til Þýzkalands svo sem gert hefir verið og látið kaupa þar vörur, þó með dýrara verði væru, þá hefði verið miklu verra og ekki hægt að selja afurðir til Þýzkalands á þessu ári. Það er því beinlínis gjaldeyris- og innflutningsn. að þakka, að hún hefir þokað því svo til, að hægt hefir verið að leyfa útflutning til Þýzkalands, eins og nú hefir verið gert. (PHalld: Þetta er misskilningur). Nei, þetta er ekki misskilningur. Gjaldeyrisn. hefir orðið að hóta fjölmörgum, að þeim yrði ekki veitt innflutningsleyfi, ef þeir keyptu ekki vörurnar í Þýzkalandi. Menn gera það ekki að gamni sínu að kaupa vörur dýrari en þeir þurfa. En menn geta gert það eftir valdboði. Þetta hefir ekki verið véfengt fyrr en af þessum hv. þm., hvort sem hann gerir það af illgirni eða ókunnugleika.

Ég vil svo að endingu bara minna hv. þm. á það, að ef hann ætlar að tala oftar, þá óska ég svars við spurningunni, sem ég hefi margoft haft upp.