14.10.1935
Sameinað þing: 15. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2404 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

Kæra um kjörgengi

Jónas Guðmundsson:

Það er að bera í bakkafullan lækinn að vera að halda þessum umr. áfram. - þetta er mín síðasta ræða, svo að ég verð að láta mér nægja að drepa á örfá atriði, sem ég hefi punktað niður hjá mér undir þessum umr.

Ég vil þá fyrst víkja að þeim ræðumanni, sem síðast talaði, hv. 3. þm. Reykv., og einmitt að taka það dæmi, sem hann flutti inn í þingið, sem nokkuð hliðstætt. Það var um það þegar Sigurður Jónasson fór úr Alþfl. á sínum tíma. Þá gerði Alþfl. ekki þá kröfu til bæjarstj., að hún ræki þennan mann. (JakM: Af hverju?). Af því, að í Alþfl. gildir sú regla um starfsmenn hans og fulltrúa, að ef þeir fara úr flokknum annaðhvort af sjálfsdáðum eða eru reknir, þá leggja þeir jafnframt niður trúnaðarstörf í þágu flokksins. Þetta er það flokks-„disciplin“, sem Alþfl. hefir byggt upp. Flokkurinn á ekki að koma til annara að leita hjálpar til þess að reka þennan og þennan af því að hann vill losna við hann. Ég þekki það ekki, að í lögum neinnar þjóðar gildi þau ákvæði, að ef maður skiptir um flokk, skuli hann leggja niður þetta og þetta starf. Hann veit, að þegar hann tekur við starfi í þágu einhvers flokks, er hann bundinn við reglur síns flokks, og aðrar ekki.

Í þessu sambandi er rétt að minnast á það, sem hv. þm. V.-Sk. kom að í sinni ræðu, að það hefði verið rétt í kjörbréfan. að gefa þessum hv. þm. (MT) siðferðislega áminningu. Og án þess að ég vilji fara mikið inn á það, þá er það rétt, að þetta kom til tals, eins og svo margt annað. Bæði ég og annar hv. nm. töldum, að svo mætti líta á, að maður, sem segði sig úr flokki, hefði siðferðislega skyldu til þess að leggja niður trúnaðarstörf, er hann hefði á hendi í þágu flokksins. En ég tók það fram þá, og vil gera það einnig hér, að ég tel, að hvorki mér né öðrum þm. beri að gefa neinum öðrum þingmönnum siðferðislega áminningu. Ef menn ekki taka það upp hjá sjálfum sér eða flokkurinn er ekki það vel skólaður, að hann geti komið þessu fram af sjálfsdáðum, þá ber þinginu ekki að skipta sér af þessu. Þetta er heimilisófriður, sem ekki átti að komast inn í þingið, sem þeir áttu að leysa, bændaflokksmennirnir, eins og þeir voru menn til, og eins og sjálfstæðismenn sjálfsagt hefðu gert einir, ef slíkur ófriður hefði komið upp hjá þeim. En hitt er ekki rétt, sem komið hefir fram í ræðum hv. 1. og 3. þm. Reykv., hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. G.-K., að uppbótarsætin séu eign flokkanna og að uppbótarþm. hafi annan rétt á þingi heldur en kjördæmakosnir þm., þannig, að þeir missi kjörgengi við að losna úr tengslum við flokk sinn. Þetta er rangt og hefir enga stoð í stjskr., og ef það hefði þar einhverja stoð, værum við landskjörnir þm. ekki undir 43. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir, að alþingismenn séu eingöngu bundnir við sannfæringu sína, en eigi við neinar reglur frá kjósendum. En það eru reglur frá kjósendum, þegar flokksstjórnir leyfa sér að þrengja kosti einstakra þm. svo, að þeim sé ekki vært í flokknum. Ef við ekki af flokkslegum aga eða af öðrum ástæðum segjum okkur úr flokknum, getur þingið ekki svipt okkur þeim rétti. En okkar flokkur verður að líða við það, að við höfum svikið hann. Sá flokkur, sem er svo óheppinn að fá mann á þing, sem bregzt trausti hans, verður að bera afleiðingarnar af því.

Ég skal bæta því við, að í þessu sambandi skiptir það ekki máli um hæstaréttardómarana, sem hv. þm. V.-Sk. var að tala um, því að það er blátt áfram tekið fram í stjskr., að þeir séu ekki kjörgengir. Það stendur þar í ákveðinni grein, að þeir dómendur, er ekki hafa umboðsstörf á hendi, séu ekki kjörgengir. Þeir geta því ekki boðið sig fram til þings nema að hafa afsalað sér dómaraembættinu. (JÁJ: Þeir geta hafa verið kosnir áður). Þá fellur þeirra umboð niður og nýjar kosningar fara fram, eða varamaður tekur við, ef þeir hafa verið landskjörnir.

Hv. þm. G.-K. var að deila á Alþfl. fyrir að hafa brugðið trúnaði við sína hugsjón. En dettur nokkrum manni í hug, að það hafi verið hugsjón Alþfl. að mismuna þm. þannig, að sumir væru réttlausir gagnvart stjskr., en aðrir hefðu þann fyllsta rétt, sem hún getur veitt mönnum? Slík og þvílík hefir hugsjón Alþfl. aldrei verið Alþfl. hefir alltaf haldið fast við flokksvaldið, og það hefir Sjálfstfl. raunar gert líka, en að ætla að halda fast í flokksvaldið gagnvart einhverjum manni, en ekki öllum flokknum, það er ekki hugsjón. Það er kúgunartilraun - þrælahald, sem verið er að byrja á nú og aldrei hefir tíðkazt áður. Og ég vil benda á það að lokum, að ef farið er inn á þessa braut, er þingið komið á hina mestu ringulreið sem hugsazt getur, og stórhættulega braut. Nú er M. T. rekinn í dag. Hver verður svo rekinn á morgun? Þetta getur endað með því, að þingið geri lítið annað en bollaleggja um brottrekstur þingmannanna, fyrst hinna 11 landkjörnu og svo þingm. Reykjavíkur, og að störf þess verði að lokum lítið annað en að reka þingmennina. Og sjá þá allir, í hvert óefni komið væri.