02.03.1935
Neðri deild: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

30. mál, útrýming fjárkláða

Gísli Sveinsson [óyfir.]:

Ég vil verða við þeirri áskorun, sem að vísu er komin fram frá einstökum nm., en ekki frá hæstv. forseta, um það að kveðja sér hljóðs um þetta síðasta mál dagskrárinnar. Það, sem veldur því, að ég tek til máls, er í raun og veru engin formleg áskorun, heldur hitt, að ef tekið er tillit til kjósenda. þá finnst mér rétt, að sú afstaða, sem þeir hljóta að hafa til þessa máls, bæði í heild og sem einstaklingar, komi sem skýrast fram.

Það er víst, að enginn maður, hvorki kjósandi né annar, er á móti því, að gerð sé gangskör að því að útrýma því fári, sem nú á fleiri en einn veg leggst á skepnur og eignir búenda í landinu, og eitt af því er fjárkláðinn.

Því er ekki að leyna og það vita allir hv. þm., að það er ekki alstaðar á landinu, sem fjárkláðinn er eða hefir orðið sveitlægur. Ég get ekki dæmt um það, hvort sumar sýslur eru alveg lausar við hann, eða þannig settar, að þær gætu orðið algerlega lausar við útrýmingarböðun. Þó er það víst, að til eru héruð, þar sem fjárkláðans hefir aldrei orðið vart. Þessi héruð eru Suðausturland og Austfirðir, a. m. k. má fullyrða, eftir þá skoðun, sem gerð var í vetur, samkv. fyrirmælum ríkisstj. og Alþingis, að báðar Skaftafellssýslur séu algerlega lausar við hann. Hitt skal ég ekki blanda mér í, hvort telja megi allt Austurland laust við hann, en að mestu leyti mun þó svo vera.

Samkv. tilgangi frv. mætti ætla, að nóg væri að ráðast á þau héruð, þar sem vitað er og upplýst, að fjárkláðinn er — sem að vísu er mestur hluti landsins — og þar sem bændur sjálfir óska þess.

Samkv. undanfarinni reynslu hlýtur kostnaður sá, er af þessu leiðir, að verða mikill. Það er líka sýnilegt, að flutningsmenn búast ekki við, að hann verði lítill. Þar sem þeir ætlast til, að hann skiptist á þrjá aðila, sem sé ríkið, sýslurnar og hreppana. Að sumu leyti hlýtur kostnaðurinn að verða óútreiknanlegur og lenda á eigendum fénaðarins og hreppunum, og að síðustu, það sem menn vilja helzt, á ríkinu.

Ákvæði 7. gr. virðast hafa verið sett vegna þess, að flm. geri hér ráð fyrir svo mögnuðu fári, að ekki sé viðlit að eyða því í einni atrennu, og þá verður að krefjast þess, að sá landshluti verði undanþeginn þessum ákvæðum, sem við opinbera rannsókn hefir sýnt sig, að er laus við þetta fár. Það nær ekki nokkurri átt, að fjárkláðinn sé í þeim héruðum, þar sem hans hefir ekki orðið vart við nákvæma rannsókn. Hæstv. landbrh. verður því að hafa þau héruð undanþegin, þar sem upplýst er, að fjárkláðinn finnst ekki.

Það er krafa mín og fleiri, að við 1. gr. sé ákveðið, að frv. þetta eigi aðeins við þau héruð, þar sem kláðans hefir orðið vart. Það er ekki nóg, þó því sé lýst yfir, að 6. gr. feli í sér möguleika fyrir þessari undanþágu; og þó að 1. gr. ræði að vísu aðeins um heimild, þá virðist frv. í heild sinni gera þessa heimild að skyldukvöð.

Hv. þm. A.-Húnv. heldur því fram, að samgöngubann á milli héraða sé ekki öruggt, og það kann að vísu að vera svo sumstaðar, en sumstaðar er gefið að hafa vald á því, hvort samgöngur eru hættulegar eða ekki. Til gleggri skilnings á þessu skal ég geta þess, að eftir því, sem ég veit, hefir fjárkláðans ekki orðið vart fyrir austan Jökulsá á Sólheimasandi, og auðvelt er að halda samgöngunum lokuðum þar. Eftir að skoðun var framkvæmd í vetur, gerðu Skaftfellingar þá ráðstöfun, að ekki flæktust þangað kindur úr Rangárvallasýslu, og þó var Austur-Eyjafjallahreppur laus við fjárkláðann. Það er því algerlega útilokað, að fé hafi sýkzt þar síðan. — Og reynslan hefir sýnt, að kláðinn hefir ekki borizt austur fyrir Sólheimasand.

Það kemur ekki til mála að líða það, að beita þau héruð áþján og útgjöldum, sem ekki þurfa þess með. Um leið og verið er að útrýma þessu fári í þeim héruðum, þar sem það geysar, verður að gæta þess, að fremja þá ekki ranglæti á öðrum héruðum. Ákvæði frv. eiga að koma til framkvæmda þar sem þeirra er þörf, en annarsstaðar ekki.