23.03.1936
Neðri deild: 31. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

Frsm. (Thor Thors):

Eins og hv. þd er kunnugt, þá er þetta mál flutt af allshn. sameiginlega, en þess var getið við 1. umr., að nokkur ágreiningur væri innan n. um einstök ákvæði frv., og sá ágreiningur kemur þá fram við þessa umr. — Það, sem aðallega er deilt um innan n., er það, hvort fyrirskipa skuli hlutfallskosningu alstaðar á landinu, eða hvort það skuli aðeins heimilað sem víðast. Og við erum á þeirri skoðun, hv. 1. þm. Árn., hv. 8. landsk. og ég, að það sé réttast að hafa sem víðtækasta heimild til þess að taka upp hlutfallskosningu við sveitarstjórnarkosningar, en að það sé hinsvegar rangt á þessu stigi málsins að lögbjóða það, eins og gert er í frv. Þær brtt., sem meiri hl. allshn. er sammála um, eru á þskj. 142, og skal ég gera lítillega grein fyrir hverri einstakri fyrir sig.

1. brtt. er aðeins orðabreyt. frá því, sem nú er í frv. — 2. brtt. fjallar um kjördaga. Við álítum rétt, að það sé látið haldast, sem er í frv., að bæjarstjórnarkosningar fari fram síðasta sunnudag í janúarmánuði, en við álítum einnig rétt, að hreppsnefndarkosningar í þeim kauptúnum, sem eru sérstakt hreppsfélag, fari fram á þeim sama degi. Það má gera ráð fyrir, að bæði íbúar kaupstaða og kauptúna séu flestir viðstaddir á þeim degi, og þess er ekki að vænta, að illviðri eða annað tálmi kjörsókn á svo takmörkuðu svæði. Öðru máli gegnir um hreppsnefndarkosningar í strjálbýlinu. Það er rétt að hafa þar sama kjördag og nú er um land allt við alþingiskosningar, sem er síðasti sunnudagur í júnímánuði. Þessi kjördagur nær þá samkv. okkar brtt. til allra hreppsnefndarkosninga utan kauptúna, sem eru sérstakt hreppsfélag. En þó er ráðh. heimilt að veita leyfi til, að hreppsnefndarkosningar fari fram síðasta sunnudag í janúarmánuði í þeim hreppum, þar sem fullir 3/4 hl. íbúa hreppsins eru búsettir í kauptúni. Það er ekki með öllu ljóst, hvað „kauptún, sem er sérstakt hreppsfélag“, táknar. Það kemur að vísu fyrir á nokkrum stöðum í löggjöfinni, en er hvergi skilgreint, en ég vil álíta, að það nái ekki til annara kauptúna en þeirra þar sem öll byggðin er í kauptúni.

Þá er 3. brtt., við 17. gr. frv., þar sem ákveðið er, að bæjarstjórnir skuli kosnar með hlutfallskosningu, eins og hingað til hefir verið, en hreppsnefndir séu kosnar óhlutbundnum kosningum alstaðar þar, sem 1/10 hluti kjósenda krefst þess ekki skriflega við oddvita kjörstjórnar 6 vikum fyrir kjördag, að kosningar séu hlutbundnar. Það verður að teljast ákaflega frjálslega að farið í þessu efni, þar sem hlutfallskosningar geta alstaðar farið fram, ef verulegar óskir eru frammi um það. En hinsvegar álitum við í meiri hl. allshn. ekki æskilegt að lögbjóða beinlínis hlutfallskosningar í hinum einstöku sveitarfélögum, því það er vitað, að víða um landið er ennþá svo komið, að þessar kosningar eru ekki pólitískar. Það er meira kosið eftir mönnum heldur en málefnum. Og þar sem um lítil sveitarfélög er að ræða, álítum við æskilegt, að þessi gamla regla geti haldizt, að ekki þurfi pólitík að ráða um það, hverjir verði þar í kjöri.

Næstu brtt., sem sé 4.–6. brtt., miðast við þessa aðalbrtt. og tiltaka nánar um kosningarathöfnina. Ég skal geta þess, að 5. brtt., um kosningatilhögunina, er tekin upp úr núgildandi l., nr. 59 frá 1929, að öðru en því, að það er nýtt ákvæði, að varamenn skuli kosnir samtímis aðalmönnum. Ég sé, að það eru komnar fram brtt. við þetta atriði, en ég mun ekki ræða þær fyrr en flm. þeirra hafa gert grein fyrir þeim. — 7. brtt. kveður einnig nánar á um það, hvernig kosningin skuli fara fram.

8. brtt. miðar að því að vita heimild til þess, að kosningar í n., er bæjarstjórn eða hreppsnefnd kýs, skuli vera hlutbundnar, ef þess er krafizt, en það er gert ráð fyrir því í frv. eins og það er nú, að allar þessar kosningar séu jafnan hlutbundnar. En það teljum við óþarft, álítum nægilegt að veita heimild til þess, enda er sú heimild, sem við vitum, svo víðtæk, að hvenær sem þess er krafizt, þó ekki sé nema af einum manni þá er skylt að láta þessar kosningar vera hlutbundnar.

9. brtt. er um kosningu á sýslunefndarmönnum. Það var gert ráð fyrir því í frv., að sýslunefndarmaður skyldi kosinn af hreppsnefnd, en ekki eins og hingað til af hreppsbúum. En við teljum rangt að breyta til í þessu efni og viljum láta gömlu regluna haldast, þó með þeim hætti, að sýslunefndarmenn og varasýslunefndarmenn séu kosnir til 1 ára um sama leyti og kosið er í hreppsnefnd.

Aðrar brtt. á þessu þskj. eru miðaðar við þessar tvær höfuðbreyt., sem ég hefi þegar getið, og þarf ég ekki að skýra þær.