23.03.1936
Neðri deild: 31. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Jón Pálmason:

Þegar þetta frv., sem hér liggur fyrir, var lagt hér fram fyrst á þinginu í fyrra, vék ég að því, að mér þættu ýms atriði í því athugaverð. Nú hefir meiri hl. allshn. gert brtt., sem ég í aðalatriðum get fallizt á, en þó er sérstaklega eitt atriði í þessu sambandi, sem ég tel talsvert athugavert og vil víkja nokkuð að. Það eru ákvæðin um kosningu varamanna, bæði í hreppsnefndir og sýslunefndir. Á þetta atriði hefir nokkuð verið minnzt, bæði af hv. frsm. og hv. 2. þm. N.-M. Mér virðist kosning varamannanna verða talsvert öðruvísi heldur en ég vildi vera láta, ef hún er með þeim hætti, að varamennirnir séu kosnir samhliða aðalmönnunum. Vitanlega vita kjósendur ekki um það, þegar kosningin fer fram, hverjir komast að sem aðalmenn. Því er það ekki heilbrigt frá mínu sjónarmiði að rugla þessum kosningum saman, heldur eiga þær að fara fram hvor í sínu lagi. Það er t. d. ekki með öllu eðlilegt, að kosning sýslunefndarmanns, bæði aðalmanns og varamanns fatar fram samtímis. Þetta verður þó sýnu verra, að ég hygg, eftir till. hv. 2. þm. N.- M. á þskj. 108, því þar er beinlínis gert ráð fyrir, að þeir verði varamenn, sem næstir koma aðalmönnunum að atkvæðafjölda við aðalkosninguna. Ég hefi eigi komið með brtt. við þetta, en ég vil mælast til, að hv. allshn. taki þetta atriði til athugunar fyrir 3. umr. Ef hún getur ekki fallizt á að breyta þessu þannig, að hver kosningin fari fram út af fyrir sig, mun ég við þá umr. bera fram brtt. í þessa átt.

Þá þykir mér líka nokkuð athugavert, eins og hv. þm. Borgf., að hreppsnefndir eigi að kjósa sáttanefndarmenn og skólanefndarmenn. Sérstaklega getur þetta rekið sig á með skólanefndarmennina, ef sú breyt. kemst á, sem nú er ofarlega á baugi, að takmörk skólahéraða séu ekki bundin við hreppamörk, eða fleiri hreppar ganga saman í eitt fræðsluhérað.

Þá þykir mér vafasamt að láta þessar kosningar fara fram sama dag og alþingiskosningar eiga fram að fara. Sérstaklega getur það verið vafasamt einmitt í þau skipti, er þingkosningar eiga sér stað. Ég fæ ekki séð, hvað n. telur við það að athuga, að hreppsnefndarkosningarnar fari fram á vorhreppaskilaþingi, eins og verið hefir.

Að öðru leyti virðist mér, að hv. meiri hl. allshn. hafi sniðið af frv. stærstu agnúann, sem á því voru, eins og það lá hér fyrst fyrir, þegar það var borið fram í deildinni.