23.03.1936
Neðri deild: 31. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég fæ ekki skilið, hvernig hv. frsm., þm. Snæf., og hv. 6. landsk. tóku í mína brtt., og allra sízt þar sem þeir slá því fram, að það séu aðeins bjálfar, sem ekki geti hiklaust kosið eftir þeim reglum, sem lagt er til á þskj. 192. En það er alveg óhrekjanlegt, að þegar menn koma að kjörborðinu og eiga að skrifa samtímis númer á aðalmanni og varamanni í hreppsnefndina, þá segir það sig sjálft, að atkv. dreifast mjög mikið; þessi vill Pétur sem aðalmann, en hinn vill hann ekki nema varamann og þannig gengur sitt á hvað. Getur þá svo farið, að ekki komi upp hlutur þeirra manna, sem mest traust er á og annars hefðu a. m. k. orðið varamenn. Þetta horfir öðruvísi við, ef kosningin er hlutbundin, og þá venjulega pólitísk, vegna þess að þá er nöfnunum stillt á listann í ákveðinni röð, sem ekki dreifist eða raskast í kosningunni, svo neinu nemi. En sé gengið út frá, að kosningin sé óhlutbundin og ekki pólitísk, en hver og einn skrifi á seðilinn nöfn þeirra manna, sem hann treystir bezt, er ómögulegt að framkvæma kosninguna á þann hátt að setja 10 nöfn — 5 aðalmanna og 5 varamanna — á sama lista, vegna þess að þegar atkv. dreifast þannig sitt á hvað, geta komið upp með sömu atkvæðatölu miklu fleiri menn en kjósa á. Ef við tökum dæmi úr minnsta hreppnum á landinu, sem hefir aðeins 46 menn á kjörskrá, og þar ætti að kjósa 3 aðalmenn og 3 varamenn, þá getur svo farið, ef hver kjósandi skrifar sín 6 nöfn á kjörseðilinn, að allir, sem kosnir eru, hljóti sín 15 atkv. hver sem aðalmenn og varamenn. En sé ekki greint á milli í kosningunni, hver sé kosinn aðalmaður og hver varamaður, koma menn inn í sömu röð og atkvæðamagn þeirra segir til. En það er alveg rétt, sem hv. 6. landsk. benti á, að með þessu fæst engin trygging fyrir því, að varamaður sé kosinn af sömu aðiljum og aðalmaður. En það er alls ekki tryggt heldur með brtt. á þskj. 192. Því verður ekki náð nema með hlutfallskosningu. Brtt. er því alveg eðlileg, og því fer svo fjarri, að hún sé bjálfaleg, að hún er eina framkvæmanlega leiðin, ef kosningin á ekki að vera hlutbundin og pólitísk.

Viðvíkjandi því að hafa kjördaginn síðasta sunnudag í júní vildi ég benda hv. allshn. á, að þar sem þessi dagur er lögákveðinn kjördagur til Alþingis, gæti leikið nokkur vafi á, hvort næði fengist til beggja kosninganna sama daginn. Það mundi leikandi heppnast í fámennum hreppum, en í stærstu hreppunum, með 300–400 kjósendur, efa ég, að tími ynnist til þess sama daginn. — Í öðru lagi er það um þennan kjördag að segja að það er dálítið óviðkunnanlegt, að hreppaskil séu nýafstaðin og þar tekin afstaða til mála, sem hreppsnefnd, sem kosin er nokkrum dögum seinna, er e. t. v. óánægð með. Ég held, að hitt væri heppilegra, að hreppsnefnd væri kosin áður en hreppaskil fara fram, svo hin nýja hreppsnefnd geti leitt málin á þeim fundi í samræmi við sinn vilja.

Viðvíkjandi því sem komið hefir fram hjá ýmsum hv. þm., að heppilegast sé, að hreppsnefndir kjósi sýslunefndarmenn, í stað þess að kjósa þá almennum kosningum í hreppunum, þá er ég mjög á móti slíkri breytingu. Hinsvegar er sjálfsagt að hætta að kjósa sýslunefndarmenn á manntalsþingum, sem nú eru orðin alveg úrelt og ekki annað en dauður bókstafur, sem sumir sýslumenn eru hættir að framkvæma sjálfir, en senda einhverja á til málamynda. Vegna þess er alveg fráleitt að láta þær fáu hræður, sem á manntalsþingin koma, kjósa sýslunefndarmann en sjálfsagt, að kosningin fari fram á almennum fundi. Ef horfið verður að því að hafa óhlutbundnar kosningar í sveitunum, sem ég tel alveg rétt, m. a. vegna óþarfa kostnaðar, sem fylgir hlutbundnum kosningum, getur ekki komið til mála annað en að kjósa aðalmenn í sýslunefnd og varamenn sitt í hvoru lagi. En þá er alveg víst, að í stærstu hreppunum vinnst ekki tími til þess sama dag og alþingiskosningar fara fram, sízt ef kjósa ætti bæði hreppsnefnd og sýslunefndarmann.

Ég sé ekkert athugvert við — sé hlutfallskosning ekki viðhöfð —, þó þeir komi inn sem varamenn, er næstbezt traust hafa. Sé miðað við það, að sá, sem flest fær atkv., hafi mest traust, og svo niður á við, er eðlilegt, að menn komi inn í þeirri röð, sem atkvæðamagnið segir til um.