24.03.1936
Neðri deild: 32. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Hannes Jónsson:

Ég skal strax leiðrétta þann leiða misskilning, sem kom inn hjá hv. 6. landsk., ef hann heldur, að ég sé fylgjandi því að koma á hlutfallskosningum. Ég tók beint fram, að ég væri þeim andvígur og vissi fyrir víst, að sveitirnar yfirleitt væru á móti þeim líka. Ég skal líka leiðrétta annan misskilning hjá hv. þm., eða skilningsleysi, og má vera, að hvorttveggja sé, — ef ekki er um eitthvað enn annað að ræða, sem er ennþá verra, tilhneigingu til að snúa út úr, þegar hann er kominn á þá galeiðu, sem hann getur ekki bjargað sér sómasamlega á.

Hv. þm. sagði, að það mundi ekki verða örðugt að fá nógu stóra miða til þess að kjósa á utan kjörstaðar. En í frv. er stærðin ákveðin, því að það eru þeir miðar, sem notaðir eru til kosningar til Alþingis, og Rvíkingar nota nákvæmlega sömu miðastærð og aðrir menn hvar sem er á landinu. Hv. þm. hefði getað séð miðastærðina, þegar málið var flutt. Ef hann man ekki hve stór miðinn er, sem á að rífa frá aðalstofninum, þar sem á sé ritað annaðhvort listabókstafur eða nafn þingmannsefnisins, sem kjósa á, þá get ég gjarnan upplýst hann um það, að ég hygg það sé ómögulegt nema fyrir mjög lagna menn að koma á þann miða 14 nöfnum, sem þyrfti að gera, ef ætti að kjósa í aðalmenn og í varamenn á sama lista. — Það er ekki á þessa venjulegu kjörseðla, sem slík atkv. utan kjörstaða eru greidd, heldur á alveg sérstaka kjörseðla sem búnir eru út í þessu augnamiði.

Svo skal ég gjarnan segja það, að það, sem hv. 6. landsk. sagði áðan, var nokkuð sterk sönnun þess, sem ég hafði haldið fram gagnvart hv. frsm. n., nefnilega að hann og hv. þm. Snæf. skyldu nú ekki vera að deila um hlutfallskosningafyrirkomulag. Hv. 6. landsk. sér, að það skiptir litlu máli að deila, því að hv. þm. Snæf. verður að stíga í fótspor 6. landsk. á næsta þingi eða næstu þingum, ef þessi frv. óskapnaður nær fram að ganga.

Hv. þm. Snæf. talaði annars um það, að það væri ekki nein ný bóla, þó að ég yrði fyrir vonbrigðum um undirtektir þm. við mál hér á Alþingi. Ég játa, að þetta er ekki ný bóla. En ég er hinsvegar mjög ánægður, þótt svo sé, að ég hafi þurft að vega hér á báðar hendur. En það getur verið, að báðir þessir hv. þm. og einhverjir aðrir fái að kenna á því áður en lýkur nösum, að þeir verða að taka tillit til þess, sem fram kemur frá Bændafl. Þá getur skeð, að drýldnin í þessum þm. verði sett það hæfilega niður, að hann leyfi sér ekki að lítilsvirða þau málefni, sem Bændafl. ber fram í umboði sinna kjósenda úti um hinar dreifðu byggðir landsins. Það má vera, að hann kenni á þessu fyrr en varir, meira að segja í sínu eigin kjördæmi.

Hv. þm. hljóp heldur mikið á hundavaði, sem við mátti búast, í umr. um hin einstöku atriði. Hann sagði t. d., að ekki væri hægt að samrýma kosningu til hreppsnefndar á manntalsþingi við það ákvæði frv., sem segir, að slík kosning skuli fram fara í kjördeildum, þar sem hreppum er skipt í fleiri en eina deild. Þetta vildi hann rökstyðja á þann hátt, að ekkert væri því til fyrirstöðu, að sama kjörstjórn og er við alþingiskosningar væri einnig kjörstjórn við hreppsnefndarkosningar. En í frv. er gert ráð fyrir, að ein yfirkjörstjórn sé í slíkum hreppum, sem skipt er í fleiri en eina kjördeild, en einnig undirkjörstjórnir, sem hreppsnefnd kýs. En í kjörstjórn til alþingiskosninga er þó a. m. k. einn maður sjálfkjörinn, þ. e. hreppstjórinn. Og hvaða sönnun er fyrir því, að hreppstjórinn yrði fyrir kjöri, ef hreppsnefnd kýs, eins og samkv. er þessu frv., eða yfirleitt að sömu menn verði kosnir í þessar báðar kjörstjórnir, nema því aðeins, að tekið sé fram í frv. sjálfu, að kjörstjórnir til Alþingis skuli um leið vera kjörstjórnir við þessar kosningar? En þá verður um leið að bæta við nýrri yfirkjörstjórn í þeim hreppum, sem skipt er í fleiri en eina kjördeild, því að hún er ekki til samkv. l. um kosningar til Alþingis.

Nei, það er auðséð, að þeir hafa flaskað, og nú ætlar hv. þm. að fleyta sér úr þessum vandræðum með því að telja, að ekkert sé til fyrirstöðu, að þessar kosningar fari fram undir umsjá einnar og sömu kjörstjórnar.

Þá var hv. þm. að segja, að þetta væri ekkert annað en nauðsynleg samræming á samningu kjörskrár til hreppsnefndarkosninga og kjörskrár til alþingiskosninga. En er það í l., að það skuli vera samin kjörskrá til alþingiskosninga, sem fyrst komi í gildi eftir ár frá því hún var samin? Slíkur andhælisháttur hefir ekki komið fram í samningu kosningalaga til Alþingis, og sennilega af því, að hv. þm. hefir ekki haft aðstöðu til að beita þar áhrifum sínum. (TT: Ég fjallaði um málið í n.). Þá hefir hv. þm. farið aftur síðan, því að hér getur engin heilbrigð hugsun staðið á bak við það, að nauðsynlegt sé að láta kjörskrá verða svo gamla áður en notuð er.

Það er annars ekki gott að ræða við þennan hv. þm., ef hann tekur ekkert tillit til jafnsjálfsagðra aths. við verk hans eins og hér hafa fram komið, þegar hann belgir sig upp og finnst bara það eitt réttlæta gallaðar till., að hann hefir staðið að þeim, — hann, þessi uppskafningur, sem ekkert hefir til brunns að bera í þessu máli eða á neinn hátt þekkir inn á starfshætti í sveitum landsins.

Mér þætti fróðlegt að sjá og heyra, hvað það er í núgildandi l. um kosningar til hreppsnefnda og sýslunefnda, sem sé svo bráðaðkallandi að breyta, að það þurfi að gera slíka lagabreyt., sem hér er á ferð, ef það er ekki tilgangurinn að fika sig smátt og smátt í það fyrirkomulag að hafa hlutfallskosningur um öll þessi mál.

Það er ástæðulaust fyrir mig að ræða við hv. 6. landsk. lengur um hans skoðun á því, hversu nauðsynlegt sé, að hreppsnefndir kjósi sýslunefnd, því að engir á þessu þingi leyfa sér að halda slíku fram, nema hann og hans flokksmenn. Eigi að síður má benda á, að það er alls ekki víst, að menn vilji hafa sama manninn í oddvitastörfum og sýslunefndarstörfum. Og oddvitastörfum er ennfremur þann veg háttað, að menn vilja ógjarnan hafa þau lengur með höndum heldur en þeim ber ýtrasta skylda til. Sé maður knúður til að gegna einnig fulltrúastarfi í sýslunefnd, er ekki vafi, að hann myndi frekar skorast undan kosningu. Einnig má taka þetta hinn veginn, að menn mundu fælast sýslunefndarstarfið vegna oddvitastarfsins, sem fylgdi.

Það má kannske segja, að ekki sé eins rík ástæða nú og þegar sýslunefndir höfðu útsvarsmál til meðferðar, að velja aðra menn í sýslunefnd en hreppsnefnd, en þó eru enn til málefni, sem sveitamenn óska að séu flutt í sýslunefnd án áhrifa frá hreppsnefnd. Og það er því ekkert óeðlilegt, þó að sýslunefndarmaður sé í ósamræmi í einstökum atriðum við hreppsnefnd. Þó að því hafi verið slegið fram í gær, að þetta ætti sér alls ekki stað, hygg ég það komi oft fyrir og hafi við flest rök að styðjast og reynist ekkert óheppilegt.

Ef á að fara að þvinga upp á sveitirnar fyrirkomulagi, sem þeim er algerlega móti skapi og óhagstætt, því þá ekki að stíga sporið fullt og koma á hlutfallskosningum alfarið, heldur en vera að þessu káki með slíku frv., sem óhjákvæmilega hlýtur þó að leiða af sér slíkar kosningar í framtíðinni?

Mér þykir það einkennilegt, ef hv. þm. láta blekkjast af þeim umr., sem hér hafa fram farið, og þeim till., sem hér hafa komið fram, láti blekkjast af því, að því er haldið fram, að hægt sé að losa sveitirnar við þetta leiðinlega kosningafyrirkomulag með hlutfallskosningum. Ég vil, eins og ég hefi áður gert, leggja áherzlu á það, að mál þetta verði látið daga uppi. Ég tel sjálfsagt, að n. geri sér eitthvert far um að athuga betur en hún hefir gert, hvaða afleiðingar þessar breyt. hafa í för með sér, og hvaða örðugleikar fylgja í kjölfar framkvæmdarinnar. Ég hefi nú bent á þessi tvö atriði, sem hv. frsm. n. taldi vera firru hjá mér, og ég hygg, að ég hafi sýnt fram á það með fylltu rökum, að það verður að gera breytingu í því efni, ef það á að verða framkvæmanlegt. Að því er kjörskrána snertir, þá má segja, að það sé framkvæmanlegt að semja hana langt fram í tímann, en það er hvorki hyggilegt né heldur eðlilegt, og brýtur í bága við þá reglu, sem gildir yfirleitt um samningu kjörskrár. Samkvæmt núgildandi lögum á hún að vera samin fyrir 15. des. utan sveita, og í sveitarfélögum nokkru seinna, en í báðum tilfellum er kjörskráin samin skömmu fyrir þann tíma, sem hún á að ganga í gildi, svo að það er nokkurnveginn vissa fengin fyrir því, að ekki þurfi að verða ruglingur á kjörskránni, þannig að menn missi kosningarrétt eða að nýir bætist við, sem fái kosningarrétt, en með því móti, sem frv. gerir ráð fyrir, að þetta verði framkvæmt, verða breytingar óhjákvæmilegar í þessu efni.