24.03.1936
Neðri deild: 32. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (1102)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég mun hvorki blanda mér inn í þær fjölskyldudeilur, sem orðið hafa í d. nú í dag, né heldur í þær almennu umr. um aðalefni frv., sem urðu hér í gær. Ég gerði þá grein fyrir afstöðu okkar minni hl. allshn., og þar að auki hv. 6. landsk., sem gerði glögga grein fyrir okkar brtt. bæði í gær og í dag. Ég vildi aðeins gera grein fyrir þeirri skrifl. brtt., sem við hv. 2. þm. Reykv. flytjum nú og lýst hefir verið; er hún í samræmi við okkar fyrri brtt. og er flutt til samkomulags á þá lund, að hlutfallskosningar séu viðhafðar í öllum kaupstöðum eða bæjarfélögum — eins og nú er — og í öllum þeim hreppsfélögum, þar sem kjósendanna eða meira eru búsettir í kauptúni, og fari kosningar þar fram síðasta sunnudag í janúarmánuði. En í öðrum sveitarfélögum verði kjördagur um miðjan júní.

Út af því, sem hv. meiri hl. allshn. hefir lagt til, að 1/10 kjósenda þurfi að krefjast skrifl. hlutbundinna kosninga, þá vil ég benda á, að það brýtur í bága við þá hugsun, sem komið hefir fram hjá bæði hv. þm. Snæf. og hv. 7. landsk., að sjálfsagt væri að afnema opinberar kosningar, þ. e. a. s. kosningar í heyranda hljóði.

Þessi kosningaháttur er löngu afnuminn við kosningar til Alþingis, og það er lagt til af allri allshn., að hann verði afnuminn við bæjar- og sveitarstjórnarkosningar, og þykir öllum sjálfsagt vera.

En það, að láta í ljós skrifl. ósk til oddvita um hlutfallskosningar, er að opinbera stefnu sína, og jafnvel með því merkja sig til ákveðins stjórnmálaflokks. Þetta brýtur því mjög í bága við þá ákvörðun, sem ég hefi áður getið um, að kosningar þessar fari fram leynilega.

Eins og ég hefi tekið fram, hefðum við í minni hl. allshn. helzt kosið að hlutfallskosningar yrðu allsstaðar viðhafðar, en við viljum breyta okkar till. til samkomulags, þannig að hlutfallskosning verði lögboðin í þeim hreppsfélögum auk bæjarfélaganna, þar sem 2/3 hl. kjósendanna eru búsettir í kauptúni.

Hv. 6. landsk. þm. sýndi fram á, að ef bundið væri við kauptún, sem væri sérstakur hreppur, mundi þetta ganga sérstaklega ójafnt yfir kauptúnin, þar sem mörg þeirra stærri eru ekki sérstakur hreppur; ég vildi því mega vænta þess, að hv. 2. þm. N.-M. geti séð sér fært að greiða þessari till. okkar hv. 2. þm. Reykv. atkv. sitt til málamiðlunar.