24.03.1936
Neðri deild: 32. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Ólafur Thors:

Mitt nafn hefir verið dregið hér inn í umr. um kosningu í Vestur-Húnavatnssýslu. Það er satt, ég hefi í því engu að leyna, að meðan stóð á undirbúningi fyrir síðustu kosningar var ég því heldur fylgjandi, að þessi hv. þm. kæmist á þing. Og þó að Sjálfstfl. hefði frambjóðanda í þessu kjördæmi, þá var hvorki af mér né sumum öðrum flokksmönnum gert það, sem hægt var til stuðnings kosningu hans, og sagði ég honum frá því. En eftir að form. flokksins hafði tekið sína afstöðu og skrifað norður, þá fylgdi ég honum vitanlega að málum í þessu sem öðru.

En ég leyni því ekki, að ég hygg, að mín afstaða og sumra annara sjálfstfl.manna hafi ráðið miklu um það, að þessi hv. þm. komst að, og ég harma það ekki, að svo fór. Það gerir ekkert til, og ég tekið það ekki nærri mér, þó að hann kasti að mér og öðrum strákslegum hnútum; ég veit, að hans skap er þannig.

Þó að ég neiti því ekki, að ég beri e. t. v. nokkra ábyrgð á kosningu þessa þm., þá finn ég það ekki sem mitt hlutverk að vanda um við hann, þegar reiðin og fljótfærnin fá yfirhöndina, því að bæði er, að hann jafnar sig fljótt aftur, og eins mun hann fá nægar ákúrur í sínum flokki.

Ég læt svo deila þessa afskiptalausa, ég hefi mætur á þessum hv. þm. og tel mig enga skömm hafa haft af því að styðja að kosningu hans, nema þá e. t. v. helzt það, að út úr þessu bændaflokksfúleggi kom annað verra hér inn á þingið.