14.04.1936
Neðri deild: 48. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Jónas Guðmundsson:

Ég á hér á þskj. 260 brtt. nokkrar við þetta frv., sem fyrir liggur til umr.

Við 2. umr. þessa máls urðu hér að mínum dómi nokkur mistök á afgreiðslu þessa máls, þar sem greinar þær voru felldar, sem í raun og veru hefðu átt að koma inn í frv., en aftur voru þá samþ. greinar, sem bæði eru þannig settar í frv. sjálfu og eins eru þannig að allri efnisgerð, að frv. getur tæplega staðizt eins og það nú er orðið. Það er sem sé eftir frv., eins og það nú er, skylda að kjósa með hlutfallskosningu í kauptúnum, þar sem ekki eru fleiri íbúar en 300, ef kauptúnið er sérstakt hreppsfélag. En í kauptúni, sem er gríðarstórt, en ekki er sérstakt hreppsfélag út af fyrir sig, þ. e. a. s. kauptún, sem vaxið er upp í hreppi, sem í eru nokkrir sveitabæir, sem því tilheyra sama hreppi og kauptúnið, þó að kauptúnið sé meginhluti hreppsins. Í slíku kauptúni þarf að safna undirskriftum samkv. frv. á hverjum tíma, til að kjósa megi þar með hlutfallskosningu. Þetta virðist mér óhafandi ósamræmi.

Með þessu frv. er hugsuð sú breyt. á kosningaraðferð í stórum sveitum og í bæjum, að það sama fyrirkomulag, sem undanfarin ár hefir verið haft á kosningum í bæjarstjórnir í kaupstöðum, hlutfallskosning, verði innleidd í kauptúnum, auk þess sem allar sveitarstjórnarkosningar verða gerðar leynilegar. Þessi tvö atriði eru meginatriði frv. Öll önnur atriði í frv. eru til þess að færa frv. til samræmis við þær reglur, sem gilda um kosningar til Alþingis, og gera fólki léttara fyrir um að komast til kjörstaðar. Að hafa margskonar fyrirkomulag á kosningum í landinu er til þess fallið að villa fyrir á ýmsan hátt. Og í raun og veru ætti það að vera svo, að hlutfallskosningar væru viðhafðar um land allt og einnig við alþingiskosningar.

Ég held, að þessar brtt. á þskj. 260 þarfnist ekki mikilla skýringa fram yfir það, sem ég hefi þegar sagt. Ég vil þó geta þess, að ætlazt er til, að 6. og 7. gr., sem verð, nýjar greinar, verði sérstakur kafli í frv., sem heiti: Leynilegar kosningar. Hlutbundnar kosningar og óhlutbundnar. Og á hann að koma á eftir 1. kafla frv., á undan núverandi 2. kafla þess, því að 17. gr. frv., sem er um þetta efni, er á röngum stað í frv. og þarf að færast til. Hér er því lagt til, að ákvæði 17. gr. verði færð á þennan hátt til í frv. með nokkrum breyt., eins og hv. þm. hafa þegar kynnt sér, en 17. gr. sem slík verði felld niður.

Fyrsta brtt. á þskj. 260 er við 4. gr. frv., sem leiðir af þeirri breyt., sem lagt er til, að gerð verði með ákvæðum, sem felast í þeirri tillögugr. brtt., sem lagt er til, að verði ný 7. gr. (tölul) 2.). Þessar brtt. falla því alveg saman.

Þá er, sem áður er getið, lagt til, að 17. gr. frv. falli niður, og að síðustu, að kaflaskipti og greinatala frumvarpsins breytist samkvæmt atkvæðagreiðslunni.

Aðrar brtt. en þessar tel ég mig ekki geta flutt við frv., þó að ég hinsvegar sé ákaflega hræddur um, að það fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir í frv. um kosningu aðalmanna og varamanna í hreppsnefndir geti gefizt misjafnlega. En ég sem sagt treysti mér ekki til að flytja brtt. við það. Ég sé ekki, að miklu heppilegra fyrirkomulag verði hægt að taka upp í því efni. Mismunurinn á þessari brtt. og frv., sem hér liggur fyrir, virðist mér vera sá, að í stað þess að skrifa númer á kjörskrá verði skrifað nafn þess, sem kosinn er. Þetta er ekki efnisatriði, heldur formsatriði, til þess að síður valdi ruglingi, eins og mörg dæmi eru til, að komið hefir fyrir, að skakkt númer hefir verið tekið á kjörskrá, þannig að menn hafa skrifað númer þess næsta á undan eða eftir þeim, sem tilætlunin var að kjósa.