04.05.1936
Efri deild: 63. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

*Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Eins og hv. dm. er kunnugt, er þetta mál komið fram í hv. Nd. og mun hafa verið lagt þar fram að tilhlutun ríkisstj. Þetta frv. er samið til þess að samræma kosningar í málefnum sveita og kaupstaða við kosningar til Alþingis. Er það eðlilegt, þar sem nú gildir sami kosningarréttur í báðum tilfellunum.

Þegar þetta frv. var lagt fyrir hv. Nd. var gert ráð fyrir því, að allar kosningar til bæjar- og sveitarstjórna væru leynilegar og hlutbundnar. Þessu hefir verið breytt í Nd. þannig, að hlutfallskosningar eru nú í frv. fyrirskipaðar í kaupstöðum og kauptúnum, þar sem fullir 3/4 hl. íbúanna eru búsettir í kauptúnum, en heimilt aftur í öðrum hreppum að taka upp hlutfallskosningu, ef þess er krafizt af tilteknum hluta atkvæðisbærra manna í hreppnum. Við þessa breytingu, sem gerð var í hv. Nd. á frv., er ekki laust við, að kenni nokkurs ósamræmis í frv., því að þar sem frv. gerði ráð fyrir, að allsstaðar giltu hlutfallskosningar, þá voru öll önnur atriði í samræmi við það. En þegar þessu var breytt, þurfti að sjálfsögðu að breyta ýmsum ákvæðum frv. í samræmi við þá breytingu.

Ég geri þó ráð fyrir, að það megi segja, að það séu ekki stórgallar á frv. að þessu leyti, a. m. k. var í allshn. litið svo á, að ekki væri rétt að gera á frv. neinar róttækar breytingar.

Ég skal játa það fyrir mína parta, að ég hefði talið, að það hefði farið betur á því, að frv. hefði verið eins og það var, að hlutfallskosningar hefðu gilt í öllum hreppum. En það virðist ekki hafa neitt fylgi í hv. Nd., og meiri hl. allshn. vill því ekki leggja neitt kapp á að breyta því. En það er víst, að búningur frv. í öllum atriðum var meira í samræmi eins og það var flutt upphaflega. Niðurstaðan hefir því orðið sú, að meiri hl. allshn. leggur til, að frv. verði samþ. með þremur lítilvægum breytingum.

Þó vil ég taka það fram um fyrstu brtt., að hún hefir töluvert gildi vegna þess, að eins og frv. er nú, þá er svo ákveðið, að aðeins í þeim hreppum, sem hlutfallskosning er viðhöfð, skuli gilda skipti hreppsins í kjördeildir, þau sem gilda við alþingiskosningar. Meiri hl. n. lítur svo á, að ekki sé réttlátt að svipta stóra hreppa því hagræði að mega skipta hreppum í kjördeildir. Það virðist ekki vera rétt að gera kjósendum miklu erfiðara fyrir með að neyta, kosningarréttar síns við kosningar í sveitarmálum heldur en við kosningar til Alþingis. Þess vegna leggur n. til, að 9. gr. verði orðuð um, og hún verði orðuð eins og hún var í frv. upphaflega, þannig að um skipti kaupstaða og hreppa í kjördeildir gildi ákvæði laga um kosningar til Alþingis. Þessi brtt. hefir veruleg, þýðingu, og leggur meiri hl. allshn. áherzlu á, að hún verði samþ.

Hinar tvær brtt. eru smávægilegar og eru til leiðréttingar, sérstaklega önnur brtt., við 10. gr. Það er svo fyrir mælt í 10. gr., að í hverjum kaupstað skuli vera yfirkjörstjórn skipuð 3 mönnum, en meiri hl. n. lítur svo á, að þar, sem hreppum er skipt í kjördeildir, verði einnig að vera yfirkjörstjórn. Þess vegna leggur n. til, að á eftir orðunum „í hverjum kaupstað“ komi: og hreppi, sem skipt er í kjördeildir.

Þriðja brtt. er aðeins orðabreyting, og má segja, að hún færi aðeins til réttara máls. Brtt. er við 20. gr., og 20. gr. byrjar þannig: „Yfir- og undirkjörstjórnir skulu halda gerðabækur.“ Meiri hl. n. álítur, að betur fari á að segja: Kjörstjórnir skulu hafa gerðabækur.

Ég skal geta þess, að það kom til mála í n. að gera frekari brtt. við frv. heldur en þær, sem n. leggur til, mest vegna þess, að við þá breyt., sem varð á frv. í hv. Nd., kom fram dálítið ósamræmi í frv., en niðurstaðan varð samt sú, að meiri hl. n. leit svo á, að ekki væri ástæða til þess. Það væri ekki neitt af ákvæðum, sem yrðu misskilin, og n. taldi því rétt, að láta við þetta sitja, vegna þess að hún vildi ekki fara að leggja í deilur við hv. Nd. út af þessu frv. Því að ef brtt. meiri hl. við 9. gr. gengju fram, þá lítur meiri hl. svo á að mikil réttarbót sé fengin með þessu frv.

Ég skal geta þess, sem raunar er tekið fram í nál., að einn nm., hv. 1. þm. Skagf., gat ekki mætt á fundi n., þegar n. hafði málið til meðferðar. N. er því ókunnugt um afstöðu hans til málsins.

Ennfremur vil ég geta, þess, eins og líka sést á nál., að einn nm., hv. 10. landsk., skrifaði undir nál. með fyrirvara og áskilur sér rétt til frekari breyt. á frv. undir meðferð málsins hér í hv. d. En yfirleitt held ég, að megi segja það, að hann telji rétt, að málið gangi fram.

Ég hefi svo ekki meira fyrir hönd meiri hl. n. að segja, en geri ráð fyrir, að hv. 10. landsk. geri grein fyrir sínum fyrirvara annaðhvort við þessa umr. eða við 3. umr.