04.05.1936
Efri deild: 63. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

63. mál, sveitarstjórnarkosningar

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég verð að taka það fram strax, að því miður hefi ég ekki haft tíma til þess að athuga frv. jafnvandlega og þurft hefði, en við fljótlegan yfirlestur þess virðist mér því talsvert ábótavant.

Það fyrirkomulag, sem frv. gerir ráð fyrir, felur í sér ekki svo lítinn aukakostnað fyrir hreppana, þar sem á að setja á stofn tvennar kjörstjórnir til þess að sjá um kosningarnar, þó að þær séu ekki nema fjórða hvert ár. Svo er prentun kjörseðla og eyðublaða. (IngP: Það má fjölrita það). Það kostar líka mikið, og er vandasamt, a. m. k. vill oft verða mikill munur á síðasta og fyrsta eintakinu, þegar fjölritað er, hvað það síðasta er miklu daufara en það fyrsta. Yfirleitt virðist þetta auka ekki svo lítið kostnaðinn fyrir hreppana, og þegar af þeim ástæðum er ég ekki ánægður með frv.

Mér virðist líka í 17. gr. frv. vera allt of rúm ákvæðin um hlutfallskosningarnar, þar sem aðeins þarf 1/10 hl. kjósenda til þess að krefjast þess, að hlutfallskosningar skuli viðhafa. Það ætti að vera dálítið hærra hlutfall, t. d. 1/5 eða svo. Þetta finnst mér vera frekar ágalli á frv., og geri ráð fyrir, að þeir séu fleiri.

Að því er snertir VIII. kaflann, verð ég að segja það, að mér finnst, að hv. allshn. hafi ekki athugað nógsamlega þær breyt., sem þarf við hann að gera. Það er bæði í 21. og 22. og 23. gr. talað um yfirkjörstjórn. Í 23. gr. segir, að yfirkjörstjórn eigi að sjá um gerð kjörseðla, en mér skilst eftir frv., að það þurfi ekki að vera yfirkjörstjórn í þeim hreppum, sem ekki er skipt í kjördeildir. Þetta væri rétt og sjálfsagt að athuga, ef það er ekki misskilningur hjá mér, sem ég held, að ekki sé. Það er leiðinlegt að láta frv. fara þannig út úr þinginu, að það sé sérstaklega afkáralegt og vandræði að framkvæma það. Annars geri ég ráð fyrir að gera einhverjar brtt. við frv. við 3. umr. Verð ég þá búinn að athuga frv. nánar.